Kórónuveira: Nýtum tímann vel

Aðstæður í samfélaginu eru óvenjulegar og án fordæmis. Áhrifin vegna útbreiðslu COVID-19 má finna hér á landi og um heim allan.

Margt fólk þarf að halda sig heima fyrir í sóttkví og yfirstandandi samkomubann hefur áhrif á alla hópa samfélagsins. Viðkvæmir hópar finna því miður oft verst fyrir áhrifunum. Aukin hætta er á heimilisofbeldi og fjárhagslegt óöryggi og fjarlægð frá ástvinum getur valdið kvíða í þessari óvissu.

Samstaða er enn mikilvægari á þessum óvissutímum. Látum óttann ekki taka yfirhöndina og nýtum tímann í það sem er uppbyggilegt.

Sex dæmi um uppbyggilega nýtingu á tíma

1. Deildu því sem er jákvætt og veitir gleði og von

Það getur reynt á að fylgjast með fréttum þessa dagana. Það er því ekki úr vegi að deila á samfé­lags­miðlum færslum um þá jákvæðu samstöðu sem ríkir í samfé­laginu þessa dagana eða jákvæðri frétt sem varð á vegi þínum. Þú getur einnig tekið þátt í bangsa­leit og sett bangsa út í gluggann hjá þér til að gleðja börn í göngu­ferðum. Skráðu þig í viðburðinn Bangsa­leit á höfuð­borg­ar­svæðinu á Face­book.

Mörg dæmi eru um samstöðuna hérlendis líkt og erlendis. Tónlistar­fólk á Íslandi syngur fyrir eldri borgara í einangrun, fólk hefur boðið fram aðstoð sína við innkaup fyrir þá sem þurfa á því að halda, fólk býður húsnæði án endur­gjalds til þeirra sem þurfa  að vera í sóttkví, fyrir­tæki senda gjafir á sjúkrahús og öldrun­ar­heimili, matsölustaðir veita heil­brigð­is­starfs­fólki frían mat eða afslátt og almenn­ingur hvetur til stuðn­ings við við veit­inga­staði og lista­fólk sem verða af tekjum.

Bangsar í bangsaleitinni kórónuveirufaraldrinum

2. Skrifaðu undir mikilvæg mál

Mannréttindabaráttan heldur áfram. Mannréttindabrot eiga sér enn stað víða um heim. Leggðu mannréttindabaráttunni lið með undirskrift þinni. Þú getur skrifað undir mikilvæg mál og þannig þrýst á stjórnvöld að virða mannréttindi.

Farandfólk og umsækjendur um alþjóðalega vernd í varðhaldi í hættu vegna COVID-19 í Bandaríkjunum. Hreinlæti í varðhaldsmiðstöðv­unum er ófull­nægj­andi, lækn­is­þjón­usta er skert og stöðv­arnar eru yfir­fullar af fólki. Krefstu þess að bandarísk stjórnvöld veiti þeim vernd.

Ofsóknir Kína gegn Úígúrum og öðrum múslimskum minnihlutahópum. Fjöldi fólks hefur verið sendur í svokallaðar endurmenntunarbúðir þar sem brotið er á mannréttindum þess. Krefstu þess að kínversk stjórnvöld hætti ofsóknum gegn þessum hópum.

Julian Assange á yfir höfði sér að vera framseldur til Bandaríkjanna þar sem hann á í hættu á að verða fyrir mannréttindabrotum. Hann er ákærður vegna birtingar gagna á Wikileaks, m.a. upplýsinga um mögulega stríðsglæpi bandaríska hersins. Þessar ákærur gætu haft hrollvekjandi afleiðingar fyrir tjáningarfrelsið. Krefstu þess að Bandaríkin felli niður allar ákærur á hendum honum.

3. Fræddu þig

3. Fræddu þig

Hefur þú meiri tíma til aflögu? Endilega nýttu tímann í að fræðast betur um mannréttindi. Öll fjölskyldan getur farið saman í gegnum fræðsluefni Íslandsdeildar Amnesty International sem er á íslensku. Hægt er að leita eftir málefnum sem vekja áhuga og eftir aldurshópum.

Dæmi um málefni: Flóttafólk, réttindi barna og jafnrétti

Eins bendum við á ýmis örnámskeið Amnesty International á ýmsum tungumálum. Flest eru á ensku en einnig á öðrum tungumálum. Nú er eitt örnámskeið í boði á íslensku um COVID-19 og mannréttindi.

Dæmi um örnámskeið:

  • Kynning á mannréttindum
  • COVID-19 og mannréttindi
  • Tækni og mannréttindi
  • Tjáningarfrelsi

4. Lærðu af myndböndum

Ekki mikið fyrir að lesa? Hvað með að horfa á myndbönd? Fyrir þá sem eru góðir í ensku þá er Amnesty International með fræðslu á ensku um ýmislegt, t.d. hvernig er að vera aðgerðasinni og hvernig á að sjá í gegnum falskar fréttir.

Þar má einnig finna myndbönd sem greina frá mannréttindabrotum víða um heim. Dæmi um málefni eru mótmælin í Chile og harkalegar aðgerðir stjórnvalda, landtökusvæði í Palestínu og ferðamannaiðnaður, átök í Sýrland og pálmaolíuræktun í Indónesíu.

5. Veittu hjálparhönd

Hægt er að nýta tæknina til að veita öðrum ráðgjöf á samfélagsmiðlum og í gegnum ýmis samskiptaforrit. Hefur þú nægilegu þekkingu til að aðstoða aðra, sem þurfa á því að halda, að nýta sér þessa möguleika betur, t.d. eldra fólk? Bentu á áreiðanlegar síður til að leita eftir ráðum. Beindu fólki á hópa á netinu þangað sem fólk getur leitað eftir stuðningi og spjallað.

6. Sýnum samstöðu og skilning

Það er mikilvægt að við sem samfélag stöndum vörð um mannréttindi og hugum að þeim sem minna mega sín. Við getum öll lagt okkar af mörkum.

  • Verum góð hvert við annað, sýnum hvert öðru skilning og virðingu.
  • Verum til staðar fyrir fólk sem gæti fundið til einmanaleika.
  • Dreifum réttum upplýsingum frá sérfræðingum til að koma í veg fyrir misvísandi upplýsingar. Fylgjum leiðbeiningum sérfræðinga og verndum þannig viðkvæma hópa frá smiti.