Árlega heldur Íslandsdeild Amnesty International Bréfamaraþon þar sem samtökin hvetja einstaklinga til að taka höndum saman og styðja við bakið á þolendum mannréttindabrota með pennann að vopni.
Árlega heldur Íslandsdeild Amnesty International Bréfamaraþon þar sem samtökin hvetja einstaklinga til að taka höndum saman og styðja við bakið á þolendum mannréttindabrota með pennann að vopni. Í lok síðasta árs setti Íslandsdeildin á laggirnar vefsíðuna „Bréf til bjargar lífi“ þar sem hægt að var að taka þátt á skjótvirkan máta og hvatti einstaklinga, vinnustaði og menntastofnanir til að leggja hönd á plóg. Sem fyrr efndi Íslandsdeild Amnesty International til samkeppni meðal framhaldsskóla landsins um mestan fjölda undirskrifta á Bréfamaraþoni samtakanna. Nemendur úr 31 framhaldsskóla svöruðu kallinu og söfnuðu 19.043 undirskriftum með ákalli um úrbætur í þeim tólf málum sem samtökin tóku upp að þessu sinni. Aldrei hafa fleiri framhaldsskólar tekið þátt.
Nemendur við Kvennaskólann í Reykjavík söfnuðu flestum undirskriftum en þeir söfnuðu samtals 2.830 undirskriftum. Framhaldsskólinn á Húsavík náði besta árangrinum miðað við nemendafjölda og söfnuðust 480 undirskriftir sem gera 5,2 undirskriftir per nemenda.
Fyrir hönd Íslandsdeildar Amnesty International afhenti Magnús Guðmundsson aðgerðastjóri nemendum við Kvennaskólann í Reykjavík viðurkenningu og gjöf frá deildinni við hátíðlega athöfn. Þar var afhentur farandbikar sem Steingrímur Eyfjörð myndlistarmaður hannaði. Gripurinn hafði lengi prýtt verðlaunaskáp Verslunarskóla Íslands sem hafði unnið keppnina tvö ár í röð en núna í ár fékk hann nýtt heimili. Verslunarskólinn var þó í öðru sæti og því ljóst að þar er rík hefð fyrir þátttöku í Bréfamaraþoninu.
Þá tóku nemendur framhaldsskólans á Húsavík við viðurkenningu fyrir árangur sinn en skólinn er sá fyrsti utan höfuðborgasvæðisins sem vinnur til verðlauna. Rétt á hæla þeirra var Menntaskólinn á Egilsstöðum og því ljóst að landsbyggðin átti sterka erindreka í ár.
Nemendur í framhaldsskólum landsins skrifuðu tæplega fjórðung allra þeirra bréfa sem send voru frá Íslandi til stuðnings þolendum mannréttindabrota. Í kjölfar Bréfamaraþons Íslandsdeildar Amnesty International 2015 voru send rúmlega 80.000 bréf, kort og undirskriftir til stjórnvalda víða um heim sem og persónulegar kveðjur til þolenda mannréttindabrota.
