Langþráður draumur verður að veruleika!

Síðla dags í gær, þann 2. apríl 2013, samþykktu ríkisstjórnir heimsins alþjóðlegan vopnaviðskiptasamning með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Síðla dags í gær, þann 2. apríl 2013, samþykktu ríkisstjórnir heimsins alþjóðlegan vopnaviðskiptasamning með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Samningurinn bannar ríkjum að flytja hefðbundin vopn til annarra landa, ef vitað er að vopnin verða notuð til að fremja eða stuðla að þjóðarmorðum, glæpum gegn mannkyni eða stríðsglæpum.

Á vettvangi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna samþykktu 154 ríki samninginn, Ísland þar á meðal, aðeins þremur dögum eftir að Íran, Norður-Kórea og Sýrland, þrjú ríki sem öll brjóta gróflega gegn mannréttindum í eigin landi, reyndu að koma í veg fyrir að samningurinn yrði að veruleika.

Heimurinn hefur beðið í langan tíma eftir þessum sögulega samningi. Í mörg ár hefur Amnesty International og aðrir barist fyrir að hann verði að veruleika og nú hafa flest ríki heimsins samþykkt samning sem hindrar vopnaflæði til ríkja þar sem nota á þau til óhæfuverka.

Yfirgnæfandi meirihluti ríkja heimsins hefur lýst yfir afdráttarlausum stuðningi við samninginn, sem setur mannréttindavernd í öndvegi, þrátt fyrir ógeðfelldar tilraunir Íran, Norður-Kóreu og Sýrlands til að koma í veg fyrir slíkan samning.

Samningurinn skyldar líka allar ríkisstjórnir til að gera áhættumat þegar skotvopn, skotfæri eða íhlutir eru fluttir til annars ríkis þar sem talið er að þau geti verið notuð til að fremja eða stuðla að alvarlegum brotum á alþjóðlegum mannúðar- og mannréttindalögum. Þegar greinileg hætta er á slíku og ekki hægt að draga úr þeirri hættu hafa ríki heimsins samþykkt að vopnaflutningur skuli ekki fara fram.

Þegar horft er á þá miklu efnahagslegu og pólitísku hagsmuni, sem í húfi eru, er sigurinn enn markverðari fyrir alla þá sem barist hafa fyrir samningnum.

Á næstu fjórum árum munu vopnaviðskipti í heiminum nema meira en 100 milljörðum dollara árlega. En nú hafa ríki heimsins ákveðið að setja manneskjuna og öryggi hennar í öndvegi.

Amnesty International og þær milljónir einstaklinga sem mynda samtökin gegndu lykilhlutverki í baráttunni fyrir bindandi alþjóðlegar reglur um vopnaviðskipti.

Samningurinn nær til helstu flokka hefðbundinna vopna, þar með talinna smávopna og léttvopna, sem fjölgar mjög í löndum þar sem minniháttar átök eða vopnað ofbeldi ríkja og mikið mannfall er meðal óbreyttra borgara.

Amnesty International fékk ekki framgengt öllu því sem samtökin börðust fyrir í samningnum. Reglur um viðskipti með skotfæri er til dæmis ekki að finna í öllum ákvæðum samningsins, en vegna þess að hægt er að gera breytingar á samningnum og hann hefur nú þegar mörg traust ákvæði er hann öruggur grunnur undir alþjóðlegt kerfi til að hindra vopnaflutninga til þeirra sem vilja fremja óhæfuverk.

Þetta sýnir að venjulegt fólk með mjög góðar hugmyndir getur haft áhrif og gert heiminn okkar betri.

Opnað verður fyrir undirskriftir og fullgildingu samningsins þann 3. júní 2013 á vettvangi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og samningurinn tekur gildi skömmu eftir að 50 ríki fullgilda hann.