Fjöldi dæma sýnir að milljónir manna um heim allan rúmast ekki í áætlunum um þúsaldarmarkmiðin um þróun vegna þess að mismunun og önnur mannréttindabrot útiloka aðgang þeirra að grunnþjónustu.
Fjöldi dæma sýnir að milljónir manna um heim allan rúmast ekki í áætlunum um þúsaldarmarkmiðin um þróun vegna þess að mismunun og önnur mannréttindabrot útiloka aðgang þeirra að grunnþjónustu. Þrátt fyrir þessa staðreynd gripu þjóðarleiðtogar ekki tækifærið á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í New York í síðustu viku og settu mannréttindi á oddinn í baráttunni gegn fátækt.
Haft var eftir framkvæmdastjóra Amnesty International Salil Shetty, í vikunni að með öllu sé ólíðandi að leiðtogar heimsins hafi enn ekki komið sér saman um að grípa til tafarlausra aðgerða í baráttunni gegn mismunun og öðrum mannréttindabrotum sem koma í veg fyrir að þúsaldarmarkmiðin um þróun gagnist þeim sem þarfnast þeirra mest.
Enda þótt þúsaldarmarkmiðin um þróun feli í sér orðalag þar sem virðing fyrir mannréttindum og verndun þeirra er viðurkennd sem ómissandi þáttur í framgangi þúsaldarmarkmiðanna um þróun, þá er þessu ekki fylgt eftir með skuldbindingu um áþreifanlegar aðgerðir.
Orðræðan um þúsaldarmarkmiðin um þróun hefur lengi markast af áherslunni á ábyrgðarskyldu ríkja. Ekki tókst að koma þeirri orðræðu áleiðis á leiðtogafundinum í New York þar sem engar árangursríkar leiðir voru skilgreindar til að draga ríkisstjórnir til ábyrgðar gagnvart skuldbindingum sínum um þúsaldarmarkmiðin. Leiðtogafundurinn brást með því að skilgreina leiðir til að tryggja að framgangur þúsaldarmarkmiðanna sé í samræmi við mannréttindaskyldur ríkja.
Amnesty International telur að erfitt verði að treysta þjóðarleiðtogum um framgang þúsaldarmarkmiðanna næstu fimm árin, þegar ljósi er varpað á gjána sem ríkir nú á milli loforða og efnda í þessum efnum.
Eitt af áhersluatriðum þúsaldarmarkmiðanna um þróun lýtur að bættum lífsskilyrðum íbúa í fátækrahverfum stórborga. Þar segir að stefnt skuli að því að bæta lífsskilyrði 10 prósent íbúa fátækrahverfa. Það þýðir að síðustu tíu árin hefur einn milljarður íbúa fátækrahverfa verið undanskilin því markmiði að bæta lífsskilyrði fólks sem býr í slíkum hverfum. Fjöldi dæma bendir til þess að þvingaður brottflutningur á fólki í fátækrahverfum ýti undir enn frekari fátækt og grafi þannig undan þúsaldarmarkmiðunum um þróun. Engu að síður vantar ákall til ríkisstjórna um að binda enda á þvingaðan brottflutning. Þúsaldarmarkmiðin miða að því að draga úr fjölda þeirra sem búa í fátækrahverfum þrátt fyrir að slíkt markmið sé líklegt til að auka þvingaðan brottflutning á fólki.
Meginástæður þess að litlu hefur verið áorkað í framgangi þúsaldarmarkmiðanna um þróun voru ekki ræddar á leiðtogafundinum í New York. Til að mynda voru ótryggar fóstureyðingar ekki ræddar á fundinum enda þótt þær séu höfuðorsök þess að barnshafandi konur láta lífið og eru þannig ein helsta ógnin í baráttunni gegn mæðradauða sem er eitt áhersluatriða þúsaldarmarkmiðanna.
Enda þótt lögð hafi verið áhersla á baráttuna gegn kynjamismunun á leiðtogafundinum þá var ekki lögð áhersla á aðgerðir ríkisstjórna í baráttunni gegn mismunun á öðrum hópum samfélagsins, til að mynda ýmsum minnihlutahópum, fólki með fatlanir og frumbyggjum.
Ríkisstjórnir eru skuldbundnar samkvæmt alþjóðlegum mannréttindalögum að verja rétt allra til fæðis, heilsu, húsnæðis og vatns. Samt sem áður var heilmiklum tíma varið í deilur um það á leiðtogafundinum í síðustu viku, hvort vísa ætti í mannréttindaskyldur ríkja í aðgerðaáætlun um þúsaldarmarkmið um þróun til næstu fimm ára.
Ef þúsaldarmarkmiðin um þróun eiga að ná fram raunverulegum breytingum í lífi fólks þá verða þjóðarleiðtogar heimsins að laga stefnu síns ríkis og aðgerðir að mannréttindaskyldum sínum.
Leiðtogafundurinn brást að því marki að ekki voru tilgreind nein skýr og bindandi viðmið um ábyrgðarskyldu ríkja viðvíkjandi framgang þúsaldarmarkmiðanna um þróun næstu árin. Framgangur þúsaldarmarkmiðanna um þróun veltur á því hvort ríkisstjórnir einstakra landa standi við það að raungera efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Ríkisstjórnir allra landa verða einnig að grípa til aðgerða til að binda enda á mismunun og tryggja að fólk sem býr við fátækt geti tekið virkan þátt í að raungera þúsaldarmarkmiðin um þróun og dregið ríkisstjórnir til ábyrgðar fyrir rétti ef þau brjóta á einstaka ákvæðum sem tilgreind eru í samningum um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.
