Leiðtogar G20-ríkjanna: Ekki missa af tækifæri til að bjarga mannslífum í Sýrlandi!

Fundur G20-ríkjanna stendur nú yfir í Pétursborg en til G20 ríkjana teljast ríkustu þjóðir heims, margar með sterk tengsl við stríðandi fylkingar í Sýrlandi.

© DIMITAR DILKOFF/AFP/Getty Images

Fundur G20-ríkjanna stendur nú yfir í Pétursborg en til G20 ríkjanna teljast ríkustu þjóðir heims, margar með sterk tengsl við stríðandi fylkingar í Sýrlandi.

Leiðtogar G2-ríkjanna verða að beita sér gegn þjáningum milljóna manna í Sýrlandi sem eru fórnarlömb vopnaðra átaka í landinu. Þessar valdamiklu þjóðir geta og verða að koma með aðgerðaáætlun sem dregur úr mannréttindaneyðinni í Sýrlandi. Enda þótt ástandið í Sýrlandi sé ekki á opinberri dagskrá G20-fundarins er gert ráð fyrir umræðu um málið í ljósi þess að Bandaríkin og aðrar þjóðir íhuga hernaðaríhlutun gegn sýrlenskum stjórnvöldum í kjölfar ásakana um að þau hafi beitt efnavopnum sem bönnuð eru samkvæmt alþjóðalögum. Eiturgasárásin átti sér stað 21. ágúst síðastliðinn í útjaðri Damaskus og er talið að á annað þúsund hafi látið lífið í árásinni, þar af hundruð barna. Sjá nánar:

 http://www.amnesty.org/en/library/asset/MDE24/043/2013/en/32c79f15-a6cd-4bff-9269-33246e720a73/mde240432013en.pdf 

Amnesty International leggur hvorki blessun sína yfir né fordæmir hernaðarlega íhlutun og tekur heldur enga afstöðu til lagalegs eða siðferðilegs réttmætis slíkrar íhlutunar. Þegar um vopnuð átök ræðir leggja samtökin áherslu á að stríðandi fylkingar virði alþjóðleg mannréttinda- og mannúðarlög. 

Milljónir Sýrlendinga hafa flosnað af heimilum sínum eða flúið land. Það hefur skapað mannréttindaneyð af stærðargráðu sem heimsbyggðin hefur ekki orðið vitni að um langa hríð. Leiðtogar G20-ríkjanna mega ekki glutra niður tækifæri til að bjarga mannslífum í Sýrlandi. Í ljósi þess að fastaríkin fimm í Öryggisráðinu teljast til G20- ríkjanna er yfirstandandi fundur kjörinn vettvangur fyrir fastaríkin til að stíga næsta skref til aðgerða. Rússland og Kína teljast til fastaríkjanna fimm og hafa þrívegis beitt neitunarvaldi sínu gegn ályktunum Öryggisráðsins um að vísa ástandinu í Sýrlandi til Alþjóðlega sakamáladómsstólsins.

Mannréttindaneyðin í Sýrlandi er hin endanlega prófraun um hvort alþjóðlegt stjórnkerfi virkar í raun.

G20- ríkin og Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna verða að sanna að þau eru nægilega stöndug til að takast á við vandann sem blasir við.

Amnesty International skorar á leiðtoga G20-ríkjanna að:

Grípa til nauðsynlegra aðgerða til að draga úr skelfilegri mannréttindaneyð í Sýrlandi. Ríkin þurfa að tryggja að aðilar stríðandi fylkinga leyfi óheftan aðgang að mannúðarsamtökum og þjónustu þannig að almennir borgarar hljóti þá aðstoð sem þörf er á, án mismununar. Í tilviki sýrlenskra stjórnvalda felur þetta meðal annars í sér leyfi til að ferðast yfir landamærin.

Bæta aðstoð við flóttamenn. Draga þarf úr álagi á nágrannaríki Sýrlands í þeim tilgangi að aðstoða rúmlega tvær milljónir karla, kvenna og barna sem hafa þurft að flýja átökin heimafyrir. Öll þau ríki sem taka á móti hælisleitendum og flóttafólki frá Sýrlandi verða að tryggja að landamæri þeirra haldist opin fyrir alla þá einstaklinga sem flýja átökin í Sýrlandi og engum sé vísað nauðugum aftur heim. 

Taka sameiginlega ábyrgð á að rannsaka glæpi gegn mannkyni og aðra alþjóðlega glæpi sem framdir hafa verið í Sýrlandi. Þetta þarf m.a. að fela í sér að alþjóðlegri lögsögu sé beitt í þeim tilgangi að draga þá sem eru sekir fyrir landsdóm þar sem sanngjörn réttarhöld fara fram og dauðarefsingunni er ekki beitt. Amnesty International telur jafnframt að vísa eigi ástandinu í Sýrlandi til Alþjóðlega sakamáladómstólsins.