Líbanon: stjórnvöld hefji rannsókn á mannshvörfum í borgarastríðinu

Líbönsk yfirvöld verða nú þegar að hefja undirbúning að stofnun óháðrar nefndar sem hefði það verk að rannsaka til hlítar örlög þúsunda sem hurfu í borgarastríðinu í landinu.

 

Líbönsk yfirvöld verða nú þegar að hefja undirbúning að stofnun óháðrar nefndar sem hefði það verk að rannsaka til hlítar örlög þúsunda sem hurfu í borgarastríðinu í landinu.

Ný skýrsla Amnesty International: Never Forgotten: Lebanon’s Missing People (Aldrei gleymd: mannshvörf í Líbanon) greinir frá biturri arfleifð borgarastríðsins í landinu frá 1975-1990 og örlögum þúsunda sem hurfu og ekki hefur spurst til síðan.

Sumir hurfu eftir að þeir voru handteknir eða handsamaðir af stríðsaðilum, aðrir hafa ef til vill verið drepnir í bardaga eða í fjöldamorðum.

Amnesty International hvetur einnig stjórnvöld til að hefja söfnun á erfðaefni frá fjölskyldum horfinna og tryggja að erfðaefni sé líka safnað úr líkamsleifum þeirra sem féllu í borgarastríðinu.

Fyrri rannsóknir yfirvalda hafa ekki verið óháðar, gagnsæjar eða árangursríkar og fjölskyldur horfinna glíma enn við óvissu og angist um afdrif ástvina sinna.

Margar fjölskyldur vilja vita hvar ættingjar eru grafnir svo þær geti haldið jarðarför og syrgt með eðlilegum hætti.

Aðrar vona enn að ættingjar þeirra geti verið á lífi í Sýrlandi eða annars staðar, því sumir þeirra sem vopnaðir hópar eða hersveitir stjórnarinnar handtóku voru fluttir úr landi, sem gerir fjölskyldum þeirra enn erfiðara um vik að vita örlög þeirra.

Amineh ‘Abd al-Husri, sem er 78 ára gömul, berst enn af krafti fyrir að vita sannleikann um son hennar, Ahmed. Hún veit að hann hvarf í Beirút árið 1986 og telur að hann hafi verið færður í hendur sýrlenskra stjórnvalda, en þar hverfur slóðin.

 „Ég vil fá son minn til baka. Við viljum öll fá syni okkar til baka – jafnvel þó þeir snúi til baka í kistu. Kannski er hann látinn, ég veit það ekki. En ef ég fengi lík hans myndi ég vilja grafa hann við hliðina á föður hans,“ sagði hún Amnesty International.

Borgarastríðið í Líbanon hófst fyrir 36 árum og stóð frá 1975 til 1990. Það var röð samhangandi átaka sem margir tóku þátt í, þeirra á meðal Líbanir, Palestínumenn, Ísraelsmenn og Sýrlendingar.

Bæði Sýrlendingar og Ísraelsmenn tóku beinan þátt í borgarastríðinu, oft í samstarfi við ólíkar hreyfingar í Líbanon.