Líbía: Þjóðarráðið verður að koma böndum á ofbeldið

Þjóðarráð Líbíu ( National Transitional Council – NTC) verður að koma böndum á vopnaða hópa andsnúna Gaddafi til að stöðva hefndaraðgerðir og geðþóttahandtökur

Þjóðarráð Líbíu ( National Transitional Council – NTC) verður að koma böndum á vopnaða hópa andsnúna Gaddafi til að stöðva hefndaraðgerðir og geðþóttahandtökur segir í nýrri skýrslu Amnesty International, sem ber heitið Baráttan um Líbíu: dráp, mannshvörf og pyndingar (The Battle for Libya: Killings, Disappearances and Torture) og fjallar um mannréttindabrot í átökunum í Líbíu.

Í skýrslunni segir að þó að hersveitir Gaddafi hafi framið margvíslega glæpi að alþjóðalögum hafi hersveitir tengdar Þjóðarráðinu einnig framið glæpi sem í sumum tilvikum jafngilda stríðsglæpum.

Amnesty International fann sönnunargögn er bentu til þess að hersveitir Gaddafi hefðu framið stríðsglæpi og glæpi er gætu talist glæpir gegn mannkyni, þeirra á meðal geðþóttaárásir, fjöldamorð á föngum, pyndingar, þvinguð mannshvörf og geðþóttahandtökur. Í flestum tilvikum voru það óbreyttir borgarar sem urðu fyrir árásunum.

Amnesty International sá einnig merki þess að sumar hersveitir andsnúnar Gaddafi hefðu gripið til blóðugra hefndaraðgerða þegar hersveitum Gaddafi var stökkt á brott frá Austur-Líbíu. Meðal annars voru merki um aftökur án dóms og laga á hermönnum Gaddafi eftir að þeir voru handteknir.

Tugir, sem grunaðir voru um að vera fulltrúar öryggisyfirvalda, stuðningsmenn Gaddafi eða málaliðar, hafa verið drepnir eftir handtöku í Austur-Líbíu frá því í febrúar.

Þegar Al-Bayda, Benghazi, Derna, Misratah og aðrar borgir féllu í hendur Þjóðarráðsins í febrúar réðust hersveitir andsnúnar Gaddafi inn í hús, drápu fólk og beittu grunaða málaliða ofbeldi.

Það er stríðsglæpur að stríðsaðilar drepi fanga.

Amnesty International hefur áhyggjur af því að hætta sé á að þetta endurtaki sig þar sem átök standa enn yfir.

Útlendingar frá Afríkuríkjum eru í sérstakri hættu. Yfir þriðjungur og allt að helmingur þeirra sem eru í haldi í varðhaldsmiðstöðvum í Trípólí og al-Zawiya eru erlendir ríkisborgarar – Amnesty International telur að þeir séu flestir farandverkafólk en ekki málaliðar.

Amnesty International komst að því að útbreiddur orðrómur um að hersveitir Gaddafi hefðu notað fjölda málaliða frá löndum Afríku sunnan Sahara í febrúar var mjög orðum aukinn. En Þjóðarráðið hefur lítið gert til að breyta þeirri útbreiddu skoðun að Afríkubúar frá löndum sunnan Sahara væru málaliðar.

Samtökin fagna því að Þjóðarráðið hafi gefið út leiðbeiningar til hersveita sinna í maí um að berjast í samræmi við alþjóðalög og viðmið. Í ágúst hvatti formaður Þjóðarráðsins hersveitir þess til að láta af hefndaraðgerðum. Þjóðarráðið send einnig sms-skilaboð til farsímanotenda í Líbíu þar sem þeir voru hvattir til að grípa ekki til hefndaraðgerða og koma fram við fanga af virðingu.

Amnesty International hefur tekið viðtöl við yfir 200 fanga frá því að al-Zawiya og Trípólí féllu. Samtökin telja að hundruð hafi verið tekin af heimilum sínum, vinnustað, eða einfaldlega af götum úti.

Margir hafa sætt illri meðferð við handtökuna, verið barðir með prikum, riffilskeftum, barðir og niðurlægðir. Í sumum tilvikum sögðust fangar hafa verið skotnir eftir að þeir voru handteknir.

Samtökin hvetja Þjóðarráðið til að hefja eins fljótt og auðið er rannsókn á meintum brotum allra stríðsaðila með það að markmiði að draga seka til ábyrgðar í sanngjörnum réttarhöldum sem uppfylla alþjóðleg viðmið og tryggja fórnarlömbum bætur.
Þeir sem bera ábyrgð á hinni hræðilegu harðstjórn á valdatíma Gaddafi verða að sæta ábyrgð. Uppreisnarmenn verða líka að lúta sömu alþjóðlegu viðmiðum. Ef það gerist ekki nær réttlætið ekki fram að ganga og hætta er á að vítahringur mannréttindabrota og hefndaraðgerða haldi áfram.

 

Íbúar Líbíu hafa mátt þola miklar þjáningar um áratugi. Þeir eiga skilið að fá að taka þátt í að byggja nýja Líbíu þar sem slíkt ofbeldi líðst ekki.

 

LESTU MEIRA

Libya: Agenda for Change (Policy document, 13 September 2011)