Lög í Rúanda notuð til bæla niður gagnrýni á stjórnvöld

Ný ríkisstjórn Rúanda verður nú þegar að endurskoða lög sem notuð eru til að bæla niður pólitískt andóf og brjóta gegn tjáningarfrelsinu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Amnesty International sem kom nýlega út.

Ný ríkisstjórn Rúanda verður nú þegar að endurskoða lög sem notuð eru til að bæla niður pólitískt andóf og brjóta gegn tjáningarfrelsinu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Amnesty International sem kom nýlega út.

Skýrslan ber nafnið Safer to Stay Silent: The Chilling Effect of Rwanda’s Laws on ‘Genocide Ideology’ and ‘Sectarianism’ og lýsir því hvernig óljósu orðalagi laga gegn „hugmyndafræði þjóðarmorða“ er misbeitt til að gera gagnrýni á stjórnvöld ólöglega og bæla niður eðlilega gagnrýni stjórnarandstöðuflokka, baráttufólks fyrir mannréttindum og blaðamanna.

 

Óljóst orðalag laganna gegn „hugmyndafræði þjóðarmorða“ þýðir að íbúar Rúanda lifa í ótta við að vera refsað fyrir að segja eitthvað rangt. Flestir kjósa að tryggja sig og þegja.

Amnesty International komst að því í rannsókninni að margir Rúandamenn, þeirra á meðal lögfræðingar og fólk sem vinnur að mannréttindum, áttu erfitt með að skilgreina nákvæmlega hvað „hugmyndafræði þjóðarmorða“ þýddi. Jafnvel dómarar, sem falið er að úrskurða eftir lögunum, létu svo um mælt að lögin væru víðtæk.

Tveir fulltrúar stjórnarandstöðunnar voru handteknir í aðdraganda forsetakosninganna 9. ágúst og ákærðir, meðal annars, fyrir „hugmyndafræði þjóðarmorða“. Ritstjóri dagblaðs var einnig handtekinn fyrir sömu sakir.

Stjórnvöld hafa einnig sakað fréttastofur BBC og VOA um að útbreiða „hugmyndafræði þjóðarmorða“. Ásakanirnar leiddu til þess að hlé varð á þjónustu BBC í Kinyarwanda í tvo mánuði frá apríl 2009.

 

Einstaklingar virðast nota ásakanir um „hugmyndafræði þjóðarmorða“ til að jafna persónulegan ágreining. Samkvæmt lögunum er hægt að refsa börnum undir 12 ára aldri, sem og foreldrum, forráðamönnum og kennurum sem teljast sekir um að „sýkja“ barn af „hugmyndafræði þjóðarmorða“. Hægt er að dæma fullorðna í 10 til 25 ára fangelsi fyrir slíkt.

Lögin um „hugmyndafræði þjóðarmorða“ voru innleidd til að takmarka orðræðu sem gæti kynt undir hatri á áratugnum í kjölfar þjóðarmorðanna 1994.

Allt að 800.000 íbúar Rúanda voru drepnir í þjóðarmorðunum, flestir tútsar, en einnig hútúar sem voru mótfallnir drápunum.

 

Amnesty International telur að bann gegn hatursáróðri sé lögmætt markmið, en aðferð ríkisstjórnar Rúanda fari í bága við alþjóðalög.

 

HLUSTAÐU:
Yfirmaður Afríkudeildar Amnesty International, Erwin van der Borght, ræðir við BBC Today