„Lukkuhjól“ notað af lögreglu til að ákvarða pyndingaaðferðir!

Sjónvarpsþættir þar sem svokallað lukkuhjól kemur fyrir eru alþjóðlegt fyrirbæri. 

Sjónvarpsþættir þar sem svokallað lukkuhjól kemur fyrir eru alþjóðlegt fyrirbæri. Milljónir sjónvarpsáhorfenda í meira en 50 löndum hafa setið límdir við skjáinn á meðan keppendur freista gæfunnar þegar hjólið snýst og bíða í ofvæni eftir stóra vinningnum.

En á síðasta ári komst illur orðstír á lukkuhjólið eða „roleta ng kapalaran“, eins og það kallast á Filippseyjum, þegar Mannréttindanefnd Filippseyja uppgötvaði hryllilega atburði því tengdu.

Í leynilegu fangelsi í miðborg Laguna, borg suður af höfuðborginni Maníla, fannst eftirlíking af lukkuhjóli, falið í dimmu skúmaskoti fangelsisins. Fanganna beið hvorki drjúg peningafúlga né verðmæti af öðru tagi, heldur beitti lögregla „lukkuhjólinu“ svokallaða, sér til skemmtunar, til að skera úr um hvernig best væri að pynda fangana. Hver fanginn á fætur öðrum sem sat á bak við lás og slá í umræddu leynifangelsi í Laguna var dreginn út úr klefa sínum og færður á svæði þar sem lögregluþjónn sneri hjólinu og beið átekta. Ef nálin á „lukkuhjólinu“ vísaði t.d. á „30 sekúndna leðurblökustaða“, þýddi það að fangi yrði hengdur upp á hvolfi eins og leðurblaka! Ef nálin vísaði á „20 sekúndur Manny Pacquiao“, þýddi það linnulaus hnefahögg í 20 sekúndur.

Rowelito Almeda, 45 ára, sætti pyndingum í leynifangelsinu í fjóra daga samfleytt. Hann segir „lukkuhjólið“ skelfilega ljóslifandi í minningunni. „Ég sá það fyrst í eldhúsinu. Í hvert sinn sem lögreglan fór á fyllerí drógu þeir einhvern fangann út úr klefa sínum og beittu „lukkuhjólinu“ á hann. Í þessa fjóra daga gat ég varla staðið uppréttur en ég sá marga fanga dregna út úr klefa sínum og þegar þeir snéru til baka voru þeir mjög veikburða. Tveir þeirra voru 17 og 18 ára. Þeir höfðu verið gripnir vegna eignarhalds á kannabis. Hjólinu var beitt á þá. Þeim var gefið rafstuð, voru barðir, skotnir með haglaskoti og látnir standa fyrir framan kastpíluskífu á meðan lögreglan skaut pílum í þá.“ Rowelito slapp naumlega undan hjólinu þegar starfsfólk á vegum Mannréttindanefndar Filippseyja kom honum til bjargar.

„Ef þau hefðu ekki komið, hefði ég verið næstur í röðinni. Einn fanginn sagði við mig, Taryado ka na. Þegar það orð er nefnt þýðir það að þú verður tekinn fyrir“.

Stuttu eftir að „lukkuhjólið” alræmda var uppgötvað af Mannréttindanefndinni hvarf það skyndilega. Opinber rannsókn á notkun þess leiddi hins vegar til þess að tíu lögreglumenn voru leystir frá störfum. Þar fyrir utan hefur enginn verið sóttur til saka fyrir rétti.

Auvirðileg beiting lögreglunnar á umræddu „lukkuhjóli” er táknræn fyrir kerfisbundna og víðtækar pyndingar í landinu.

Rowelito var meðal 43 fanga sem var bjargað úr leynifangelsinu í Laguna. Hann tjáði Amnesty International að þegar hann var á leið sinni frá lögreglustöðinni hafi lögreglumaður barið hjálmi í andlit sér sem varð til þess að Rowelito missti fjórar framtennur. Síðar var hann endurtekið barinn og gefið rafstuð. Lögregla setti klút upp í munn Rowelito, þakti andlit hans með límbandi og færði hann í handjárn, eins og verið væri að leiða hann til aftöku. Hann heyrði útundan sér lögregluna rökræða um hvort „ganga ætti frá honum”.

Samkvæmt nýlegri rannsókn Amnesty International eru pyndingar enn útbreiddar á Filippseyjum. Þeir sem eru í varðhaldi lögreglu hafa sætt raflosti, kerfisbundnum barsmíðum, hnefahöggum og spörkum, árásum með viðarstaf eða málmstöng, verið brenndir með logandi sígarettum, þolað vatnspyndingar eða legið við köfun þegar plastpoki er settur yfir höfuðið.

„Það sem er svo sláandi við notkun pyndingahjólsins er að hún vottar að lögreglan hafði ánægju af því að pynda fanga. Notkun pyndingahjólsins sýnir hvernig hin svívirðilega beiting pyndinga er orðin að vana lögreglu án þess hún eigi lögsókn á hættu“, segir Hazel Galang-Folli, rannsakandi Amnesty International fyrir Suðaustur-Asíu.

Þrátt fyrir að stjórnvöld á Filippseyjum hafi fullgilt tvo alþjóðlega samninga gegn pyndingum og samþykkt lög gegn pyndingum fyrir fimm árum hljóta lögreglumenn sem stunda pyndingar nánast aldrei dóm, hvað þá að þeir þurfi að verja tíma bak við lás og slá.

Amnesty International telur að skortur á skilvirkum rannsóknum, ásamt landlægri spillingu innan lögreglunnar og fáum lögsóknum á hendur pyndurum, séu banvæn uppskrift sem letji þolendur pyndinga frá því að greina frá raunum sínum. Fáir hafa kjark til að leggja fram kærur á hendur lögreglu af ótta við hefndaraðgerðir, árásir eða ógnanir af hálfu lögreglunnar sjálfrar eða glæpamanna sem lögregla hefur ráðið til verksins.

Þeir örfáu sem sýna þor og leggja fram kæru velkjast um flókið og ófyrirsjáanlegt kerfi skrifræðis og er flestum kærum vísað frá.

En alþjóðlegur þrýstingur ber árangur. Í kjölfar þess að Amnesty International birti skýrsluna, Above the law: Police torture in the Philippines ýtti öldungadeild þingsins úr vör rannsókn á pyndingum lögreglu í landinu og bar Amnesty International vitni í þeirri rannsókn. Við rannsóknina gaf fulltrúi lögreglu landsins út þá yfirlýsingu að engin vitneskja væri innan hennar vébanda um þau pyndingamál sem skýrslan lýsir og hann gæti heldur ekki gefið nein dæmi um aðgerðir lögreglu til binda enda á pyndingar. Formaður öldungadeildar þingsins svaraði þessum ummælum fulltrúa lögreglu á þann veg að þess væri krafist að lögreglan skoðaði skýrslu Amnesty International gaumgæfilega og skilaði öldungadeildinni í kjölfarið skriflegri greinagerð, ásamt því að veita upplýsingar um áætlun lögreglunnar til að binda enda á pyndingar.

Tölfræði og staðreyndir um pyndingar á Filippseyjum

75 – fjöldi kvartana um pyndingar sem Mannréttindanefnd Filippseyja barst árið 2013

80 – prósent þeirra tilfella pyndinga sem eiga sér stað á Filippseyjum tengjast lögreglunni.

36 –  fjöldi pyndingamála sem skrifstofa umboðsmanns landsins tók til rannsóknar árið 2013. Skrifstofa umboðsmanns er óháð stofnun sem ætlað er að rannsaka kærur á hendur opinberum starfsmönnum.

3 – fjöldi pyndingamála sem send voru til ákæruvaldsins.

0 – fjöldi lögsókna sem bar árangur eftir rannsókn umboðsmanns.

69 – prósent Filippseyinga telja að lögregla landsins sé spillt.

55 – fjöldi þolenda pyndinga sem Amnesty International ræddi við í tengslum við nýja skýrslu samtakanna: 21 þeirra voru börn þegar þau sættu pyndingum og tveir viðmælenda Amnesty International lifðu af skotárás lögreglu þar sem ætlunin var að deyða fórnarlömbin og skilja þau eftir á vettvangi.

28 – ár eru liðin frá því að Filippseyjar fullgiltu alþjóðlegan samning gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri og vanvirðandi refsingu eða meðferð.

Helstu pyndingaraðferðir

Lögreglan á Filippseyjum beitir ógnvænlega mörgum tegundum pyndingaraðferða. Meðal þeirra eru:

Raflost

Barsmíðar, hnefahögg og spörk

Árásir með viðarstaf og málmstöng

Húð brennd með logandi sígarettum

Vatnspyndingar

Köfnunartilfinning þegar plastpoki er settur yfir höfuðið

Fangar neyddir til að halda óþægilegri líkamsstöðu í lengri tíma

Fangar neyddir til að afklæðast og togað í kynfæri með bandi

Fangar hengdir upp á hvolfi

Sýndaraftökur

Skotárásir

Nauðgun