dauðarefsingin
Dauðarefsingin er brot á réttinum til lífs
Dauðarefsingin er grimmileg, ómannúðleg og niðurlægjandi refsing. Hún er brot á réttinum til lífs og á ekki að fyrirfinnast í réttarkerfi nútímans. Allir einstaklingar hafa rétt til að lifa, það eru mannréttindi sem gilda um alla, hvort sem þeir eru sekir um glæpi eða ekki. Í sumum löndum er fólk dæmt til dauða fyrir brot tengd vímuefnum sem eru brot á alþjóðalögum, í öðrum löndum brot gegn öryggi ríkis og morð.
Sum lönd taka fólk af lífi sem var undir 18 ára aldri þegar brotið var framið en önnur taka fólk með geðfötlun af lífi. Í mörgum hefur fólk verið dæmt til dauða eftir ósanngjörn réttarhöld.
Amnesty International fordæmir dauðarefsingar og er alfarið á móti þeim í öllum tilfellum án undantekninga.
Skýrsla Amnesty International
dauðarefsingar árið 2024
á ensku
Af hverju þarf að afnema dauðarefsinguna?
Dauðarefsingin er óafturkallanleg og mistök eiga sér stað
Engar sannanir eru fyrir því að sú leið sé árangursríkari til að fækka glæpum en fangelsisvist. Það er alltaf hætta á að saklaus einstaklingur sé tekinn af lífi. Aftaka er ávallt endanleg og óafturkallanleg.
Frá árinu 1973 hafa að minnsta kosti 200 fangar á dauðadeild í Bandaríkjunum verið náðaðir eða leystir úr haldi eftir að hafa verið hreinsaðir af sök. Aðrir hafa verið teknir af lífi þrátt fyrir mikinn vafa um sekt þeirra.
Dauðarefsingin kemur ekki í veg fyrir glæpi
Í mörgum löndum réttlæta stjórnvöld beitingu dauðarefsingarinnar með því að hún komi í veg fyrir glæpi. Engar sannanir eru fyrir því að sú leið sé árangursríkari til að fækka glæpum en fangelsisvist.
Dauðarefsingunni er oft beitt þar sem réttarkerfi er óréttlátt
Amnesty International hefur skráð mörg tilfelli þar sem fólk hefur verið tekið af lífi eftir að hafa verið dæmt til dauða í mjög ósanngjörnum réttarhöldum þar sem sönnunargögn voru fengin með pyndingum og ófullnægjandi réttargæslu. Í sumum löndum er dauðarefsingin lögbundin fyrir ákveðna glæpi sem þýðir að við dómskvaðningu getur dómari getur ekki tekið mið af aðstæðum þegar glæpur var framinn eða stöðu sakbornings.
Mismunun í beitingu dauðarefsingar
Dauðarefsingunni er hlutfallslega oftar beitt gegn minnihlutahópum eða hópum sem standa höllum fæti félagslega og efnahagslega.
Sádi-Arabía hefur beitt dauðarefsingunni í auknum mæli gegn andófi sjíta-múslíma sem er minnihlutahópur þar í landi.
Dauðarefsingunni er beitt sem með pólitískum hætti
Sums staðar eru dauðarefsingar notaðar í pólitískum tilgangi til að refsa pólitískum andstæðingum.
Sádi-Arabía beitir dauðarefsingunni til að refsa pólitískum andstæðingum og Íran hafa í auknum mæli beitt dauðarefsingunni gegn mótmælendum til að þagga niður í gagnrýnendum og ríghalda í völd sín.
Jákvæð þróun

Á heimsvísu hefur dauðarefsingin verið á undanhaldi þar sem þeim ríkjum sem beita dauðarefsingunni fer fækkandi. Þegar Amnesty International hóf að berjast gegn dauðarefsingu árið 1977 höfðu einungis 16 lönd horfið frá henni.
Í lok árs 2024 höfðu 113 lönd afnumið dauðarefsinguna í lögum í öllum tilfellum.
Árið 2024 skrifaði Simbabve undir lög þar sem dauðarefsingin var afnumin fyrir almenn afbrot. Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í desember 2024 kusu tveir þriðju ríkja með alþjóðlegu banni á dauðarefsingunni. Aldrei áður hafa eins mörg lönd staðið með slíku banni.
Árið 2023 felldi Pakistan úr gildi dauðarefsinguna fyrir vímuefnabrot og í Malasíu varð dauðarefsing ekki lengur lögbundin refsing fyrir ákveðna glæpi.
Árið 2022 afnámu Kasakstan, Papúa Nýja-Gínea, Síerra Leóne og Mið-Afríkulýðveldið dauðarefsinguna fyrir alla glæpi en Miðbaugs-Gínea og Sambía afnámu hana fyrir almenn afbrot.
Beiting dauðarefsingarinnar
Tölur og staðreyndir fyrir árið 2024
Kröfur Amnesty International
Amnesty International birtir árlega skýrslu um stöðu dauðarefsingarinnar í heiminum
Amnesty International kallar eftir því að:
- Aftökum verði hætt alls staðar í heiminum.
- Dauðarefsingin verði afnumin í lögum fyrir alla glæpi.
- Öll ríki heimsins fullgildi alþjóðlega sáttmála sem styðja afnám dauðarefsingarinnar, þar á meðal aðra valfrjálsu bókunina við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, en bókunin lýtur að afnámi dauðarefsingarinnar.
- Öll lönd, sem enn halda í dauðarefsinguna, framfylgi alþjóðlegum skyldum sínum um að taka ekki af lífi einstaklinga sem voru undir 18 ára aldri þegar glæpurinn var framinn.

Dauðarefsingin 2024
15 lönd
framkvæmdu aftökur árið 2024
1.518 aftökur
árið 2024 á heimsvísu (að undanskildu Kína, Norður-Kóreu og Víetnam)
32% hækkun
á fjölda aftaka milli áranna 2023 og 2024
1000+ fangar
teknir af lífi í Kína á ári hverju (áætlaðar tölur)
113 lönd
höfðu afnumið dauðarefsinguna í lok árs 2024
Fjöldi aftaka á heimsvísu eftir árum






