kyn- og frjósemisréttindi


Kyn-og frjósemisréttindi

Hugtakið kyn- og frjósemisréttindi vísar til margs konar mannréttinda sem skipta máli í öllu sem viðkemur kynhneigð, kynferði og frjósemi. Réttindin tengjast fyrst og fremst sjálfsákvörðunarrétti yfir eigin líkama og lífi, frelsi undan mismunun, þvingun og valdbeit­ingu, og rétt­inum til að njóta bestu fáan­legu kynheilsu og frjósemi.

Kyn- og frjósemisrétt­indi eru undirstaða þess að allir geti notið líkamlegrar, tilfinningalegrar, andlegrar og félagslegrar velferðar. Þau ná annars vegar til borgaralegra og stjórnmálalegra réttinda og hins vegar til félagslegra, efnahagslegra og menningarlegra réttinda.

Öll eigum við rétt á að taka ákvarðanir er lúta að líkama okkar og heilsu, kynferði og frjósemi án ótta, mismununar eða þvingunar.

Um heim allan er fólki neitað um að taka slíkar ákvarðanir eða er refsað af ríkisvaldinu, heilbrigðisstarfsfólki og/eða eigin fjölskyldu fyrir þær ákvarðanir sem það tekur.

Kyn- og frjósemisréttindi

réttindi hinsegin fólks

Hvað fela kyn- og frjósemisréttindi í sér?

Þú hefur rétt til að:

  • Taka ákvarðanir er varða heilsu þína, sjálfmynd, líkama þinn.
  • Ákveða hvort eða hvenær þú eignast börn.
  • Ákveða hvort eða hvenær þú gengur í hjónaband.
  • Fá fræðslu og aðgang án mismunar að getnaðarvörnum, löglegu þungunarrofi, mæðravernd og annarri heilbrigðisþjónustu sem varðar kyn- og frjósemisréttindi.
  • Ákveða hvort, hvenær og með hverjum þú vilt stunda kynlíf og lifa án ótta við nauðgun og annað ofbeldi.
©Ásta Kristjánsdóttir

Kyn- og frjósemisréttindi

Þungunarrof

Skyldur ríkja

Ríkjum ber skylda til að vernda kyn- og frjósemisréttindi allra einstaklinga og tryggja að þau séu virt. Í því felst að ríki eiga ekki að blanda sér í ákvarðanir einstaklinga um hvernig þeir nýta sér þessi réttindi.

Ríkjum ber að tryggja frelsi frá ofbeldi og valdbeitingu og að þriðji aðilar (fjölskylda, samfélag eða trúfélög) misnoti ekki kyn- og frjósemisréttindi einstaklinga.

Þá ber ríkjum skylda til að bjóða öllum upp á þjónustu og upplýsingar sem gerir fólki kleift að nýta sér kyn- og frjósemisréttindi sín ásamt því að einstaklingar geti notið kynheilbrigðisþjónustu án þess að eiga á hættu að sæta lögsókn eða öðrum viðurlögum.

Kynfræðsla og kynheilbrigðisþjónusta

Það er grundvallarréttur fólks að fá að ákveða hvort eða hvenær það vill eignast börn og vernda sig gegn smiti og heilsubrestum. Stjórnvöldum ber ekki einungis skylda til að vernda þessi kyn- og frjósemisréttindi heldur einnig að sjá til þess að fólk geti notið þeirra með aðgengi að getn­að­ar­vörnum og fræðslu um notkun þeirra.

Samkvæmt áætlunum frá Sameinuðu þjóð­unum hefur þorri ungs fólks víðs vegar í heiminum ekki aðgang að alhliða kynheilbrigðisþjónustu og kynfræðslu sem er nauð­synleg til að geta lifað heilbrigðu lífi. Amnesty International telur mikilvægt að fræða börn um kynlíf í skólum. Alvar­legar afleiðingar af því að fá ekki fullnægjandi kynfræðslu eru sýnilegar. Áætlað er að fjöldi ungmenna smitist af HIV-veirunni á hverjum degi. Rann­sóknir sýna að vönduð kynfræðsla leiðir til ábyrgrar kynhegð­unar, meðal annars seinkar ungt fólk því að byrja að stunda kynlíf þar til því finnst það vera betur undirbúið.

Takmark­anir á kyn- og frjósem­isréttindum koma meira niður á konum og stúlkum.

Ungar konur og táningsstúlkur úr hópum sem eiga undir högg að sækja finna mest fyrir takmörkunum vegna mismununar. Þær eiga erfiðast með að sækja sér upplýs­ingar og þjónustu er varða kynlíf og frjósemi. Veikindi á meðgöngu eru helsta dánarorsök unglingsstúlkna á aldr­num 15-19 ára í heiminum.

Við öll eigum rétt á aðgangi að góðri heilbrigðisþjónustu, ráðgjöf, upplýs­ingum og fræðslu er varða kyn- og frjósemisréttindi. Ef lög og aðrar hindranir koma í veg fyrir slíkt verður að ryðja þeim úr vegi.

Kynferðisofbeldi

Þvinguð hjónabönd, þar með talin barnahjónabönd, limlestingar á kynfærum stúlkna og hvers konar kynferðisofbeldi eru brot á kyn- og frjósemisréttindum.

Amnesty International kallar eftir því að kyn- og frjósemisréttindi séu hluti af alþjóðaskuldbindingum og að ríkisstjórnir breyti lögum og verklagi til að tryggja að réttindin séu virt og vernduð.

  • Banna þarf alla mismunun og ofbeldi og valdefla einstaklinga til að taka sjálfstæðar ákvarðanir um líkama sinn.
  • Hrinda þarf aðgerðum í framkvæmd sem koma í veg fyrir og vernda konur og stúlkur gegn kynbundnu ofbeldi og draga gerendur til ábyrgðar.
  • Tryggja þarf lög sem banna hjónabönd barna og framfylgja þeim.
  • Amnesty International fordæmir í öllum tilvikum limlestingar á kynfærum kvenna.
© Ásta Kristjánsdóttir

Refsingar stjórnvalda

Stundum refsa stjórnvöld fólki fyrir að nýta kyn- og frjósemisréttindi sín meðal annars með banni við þungunarrofi, kynlífi utan hjónabands og samræði milli samkynja einstaklinga. Einnig er öðrum lögum beitt á borð við lögum um almannaheill eða „siðferði“ til að stjórna og refsa fyrir ákveðin athæfi eins og kynhegðun og kyntjáningu.

Þessi mannréttindabrot eiga sér stað víðs vegar um heiminn og bitna verst á fátækum og jaðarsettum samfélögum.

Víða í Norður- og Suður-Ameríku er fólki refsað fyrir að sækjast eftir, fara í, framkvæma og aðstoða við þungunarrof. Sums staðar í Bandaríkjunum eru lög sem kveða á um „árásir á fóstur“ sem veitir fóstri stöðu „brotaþola“ sem hefur leitt til þess að konur hafa verið sóttar til saka fyrir fósturlát þar sem þær eru grunaðar um að skaða fóstur sem þær bera undir belti.

Sums staðar í Afríku hefur tækifærissinnað stjórnmálafólk endurvakið gömul lög eða samþykkt ný lög þar sem liggur refsing við fyrir kynlíf milli samkynja einstaklinga.

© Ásta Kristjánsdóttir

Kyn- og frjósemisréttindi

réttindi hinsegin fólks


FYLGDU OKKUR Á SAMFÉLAGSMIÐLUM