Þungunarrof


Þungunarrof er heilbrigðismál

Þungunarrof er læknismeðferð í því skyni að binda enda á þungun og er nauðsynleg grunnheilbrigðisþjónusta sem milljónir kvenna þurfa á að halda um heim allan. Það er grundvallarréttur fólks að fá að ákveða hvort eða hvenær það vill eignast börn og stjórnvöldum ber ekki einungis skylda til að vernda þessi réttindi heldur einnig að sjá til þess að fólk geti notið þeirra með aðgengi að viðeigandi, öruggri og löglegri heilbrigðisþjónustu.

Glæpa­væðing þung­un­ar­rofs kemur ekki í veg fyrir að þungaðar konur, stúlkur og fólk sækist eftir því heldur leitar þessi hópur þá annarra og hættulegra leiða til að rjúfa þungun.

Áætlað er að um 25 milljónir óöruggs þungunarrofs eigi sér stað ár hvert í heiminum samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Óöruggt þungunarrof getur leitt til fötlunar, langvarandi heilsuvanda eða jafnvel dauða sem hægt væri að koma í veg fyrir með öruggu aðgengi.

Hver er afstaða Amnesty International?

Amnesty International kallar eftir því að stjórnvöld tryggi löglegar og öruggar leiðir til þungunarrofs fyrir konur, stúlkur og fólk sem getur orðið barnshafandi.

Aðgangur að þungunarrofi er nauðsynlegur til að geta notið mannréttinda til fulls, eins og kyn- og frjósemisréttinda, réttarins til heilsu, einkalífs, virðingar, öryggis, sjálfsákvarðana yfir eigin líkama, jafnréttis gagnvart lögum án mismunar og frelsis frá pyndingum og annarri illri meðferð.

Stefna okkar er byggð á grund­velli mann­rétt­inda og alþjóðlegra staðla og studd af alþjóðasam­tökum fæðingar- og kvensjúkdóma­lækna sem ná til lækna í 132 löndum.

Amnesty International kallar meðal annars eftir því að stjórnvöld:

  • Viður­kenni réttinn til þung­un­ar­rofs fyrir konur, stúlkur og fólk sem getur orðið barnshaf­andi.
  • Afglæpa­væð­i þung­un­ar­rof undir öllum kring­um­stæðum.
  • Tryggi aðgang að þung­un­ar­rofi sem hluta af heil­brigð­is­þjón­ustu án mismunar, þvingunar eða smán­unar.
  • Felli niður skil­yrði sem hindra sjálf­stæði til ákvörð­unar um eigin líkama er varðar þungunarrof eins og skilyrði um samþykki frá maka, foreldrum, dómurum og læknanefndum.
  • Tryggi vandaða kynfræðslu og aðgang að full­nægj­andi heil­brigð­is­þjón­ustu.
©Tomas Ramirez Labrousse / Amnistía Internacional

Hindranir að þungunarrofi

Ströng löggjöf sem hindrar aðgang að þungunarrofi grefur undan mannréttindum. Lög eru ekki eina hindrunin heldur getur fjárhagsleg staða einnig haft áhrif, hvort hægt sé að fá frí úr vinnu eða viðkomandi hafi efni á að ferðast langa vegalengd ef öruggt þungunarrof er ekki í boði nálægt þeim.

Neikvæð viðhorf geta einnig gert þeim sem þurfa á þungunarrofi að halda erfitt fyrir. Það er ekki nóg að afglæpavæða þungunarrof heldur þarf einnig að draga úr félagslegum, menningarlegum og efnahagslegum hindrunum.

Löggjöf um þungunarrof

Lög um þungunarrof eru mismunandi eftir löndum. Sums staðar er þungunarrof leyfilegt samkvæmt án skilyrða en þó er mismunandi hvar tímamörkin liggja. Sum lönd leyfa þungunarrof á grundvelli félagslegra og efnahagslegra ástæðna. Annars staðar er þungunarrof leyft ef þungun ógnar heilsu eða lífi.

Nokkur lönd í heiminum banna þungunarrof án undantekninga, þar á meðal Andorra, Malta og El Salvador.

Ísland

Á Íslandi voru sett ný lög um þungunarrof árið 2019 sem tryggja sjálfsforræði kvenna sem óska eftir að binda enda á þungun fram að lokun 22. viku óháð hvaða aðstæður liggja að baki. Lögin taka fram að helst eigi að framkvæma þungunarrof fyrir lok 12. viku. Lögin kveða á um að boðið sé upp á stuðningsviðtal fyrir og eftir þungunarrof og einnig er lögð áhersla á fræðslu um áhættu.

Ísland er á meðal fjölmargra landa sem hafa gert umbætur á löggjöf um þungunarrof á síðustu áratugum.

60+ lönd


hafa gert umbætur á löggjöf um þungunarrof frá árinu 1994.

35%


kvenna á barneignaraldri búa í löndum þar sem þær geta óskað eftir þungunarrofi.

6%


kvenna á barneignaraldri búa í löndum þar sem þungunarrof er algjörlega bannað.

Heimild: Center for Reproductive Rights

Lönd sem hafa hert löggjöf á síðustu áratugum

Fjögur lönd hafa samþykkt strangari lög um þungunarrof frá árinu 1994: Bandaríkin, Pólland, El Salvador og Níkaragva.

Bandaríkin:

Hæstiréttur felldi úr gildi dóm um þungunarrof í júní 2022 sem verndaði réttinn til þungunarrofs. Í kjölfarið ræður hvert ríki Bandaríkjanna því sjálft hvort það leyfi þung­un­arrof eða ekki. Hátt í helmingur ríkjanna hefur ýmist bannað eða takmarkað þungunarrof.

Pólland:

Rétturinn til þungunarrofs var þrengdur þegar stjórnarskrárdómstóll úrskurðaði í október 2020 að þungunarrof væri ekki heimilt í tilfelli alvarlegs fósturgalla. Samkvæmt lögum má því aðeins gangast undir þungunarrof ef þungun ógnar heilsu eða átti sér stað í kjölfar nauðgunar.

Níkaragva:

Lög voru sett árið 2006 sem bannar þungunarrof í öllum tilfellum. Áður var þungunarrof leyft þegar líf og heilsu móður á meðgöngu var í hættu. Heilbrigðisstarfsfólk á einnig á hættu að fá fangelsisdóm fyrir að framkvæma þungunarrof.

El Salvador:

Þungunarrof var bannað í öllum tilfellum árið 1998. Margar konur og stúlkur hafa látið lífið eða verið fangelsaðar vegna bannsins.

Hvaða áhrif hefur algjört þungunarrofsbann?

Nokkur lönd, þar á meðal Níkaragva, El Salvador, Andorra og Malta, beita harðneskjulegum lögum sem banna þungunarrof undir öllum kring­umstæðum.

Í El Salvador hafa margar konur og stúlkur látið lífið eða verið fangelsaðar vegna bannsins. Flestar konur sem hafa verið sóttar til saka hafa verið á aldrinum 18-25 ára. Þessi grimmulegu lög eru miskunnarlaus og í raun ofbeldi af hálfu ríkisins.

Teodora del Carmen Vásquez fæddi andvana barn árið 2007 í El Salvador í kjölfar bráðra verkja. Lögreglan handtók hana þar sem hún lá í blóði sínu á vinnustað sínum. Teodora var dæmd í 30 ára fangelsi fyrir morð að yfirlögðu ráði þar sem hún var talin sek um þungunarrof fremur en að hafa þjáðst af vandkvæðum á meðgöngu. Í febrúar 2018 var Teodora loks leyst úr haldi eftir langa baráttu.

Marlene var ákærð í El Salvador fyrir þungunarrof eftir fósturlát þegar hún var 18 ára.
© Amnesty International

Vernda þarf réttinn til þungunarrofs

Fjársterkar hreyfingar gegn kvenréttindum breiða út ótta og villandi upplýsingar um þungunarrof til að grafa undan þeim árangri sem náðst hefur og hindra aðgang að þungunarrofi. Þannig er ýtt undir útskúfun og skömm í þeim tilgangi að fólk hætti að líta á þungunarrof sem mannréttindi og sjálfsagðan rétt til grunnheilbrigðisþjónustu.

Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að standa vörð um þessi réttindi.

Amnesty International kallar á ríki heims að tryggja réttinn til þungunarrofs en einnig að virða og vernda réttindi þeirra sem berjast fyrir þessum rétti.

Árangur

Það má þó ekki gleymast að náðst hefur árangur á síðustu áratugum víða um heim.

Evrópa

Írland:

Þungunarrof var nánast með öllu ólöglegt á Írlandi frá árinu 1992 til ársins 2019 nema í þeim tilvikum sem raunveruleg og mikil hætta er á að meðganga stofni lífi konu og fólks í hættu.

Amnesty International á Írlandi barðist ötullega fyrir afnámi laganna og það var mikill sigur þegar ný löggjöf tók í gildi. Söguleg þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram þann 25. maí 2018 á Írlandi þar sem mikill meirihluti Íra (66,4%) greiddi atkvæði gegn banni við þungunarrofi. Í kjölfarið tók ný löggjöf í gildi þann 1. janúar 2019 þar sem banninu var aflétt.

Norður-Írland:

Amnesty International í Bretlandi hefur lengi barist fyrir aðgengi að þungunarrofi á Norður-Írlandi. Þar til árið 2019 var Norður-Írland eina landið í breska lýðveldinu þar sem hætta var á lífstíðardómi fyrir að gangast undir þungunarrof.

Hæstiréttur Bretlands úrskurðaði að lög um þungunarrof á Norður-Írlandi brytu í bága við mannréttindaskuldbindingar landsins og þann 22. október 2019 var þungunarrof afglæpavætt á Norður-Írlandi. Ný reglugerð tók síðan í gildi 31. mars 2020 um aðgang að þungunarrofi á Norður-Írlandi.

Mið- og Suður-Ameríka

Mexíkó: Hæstiréttur úrskurðaði árið 2023 að ekki mætti refsa fólki fyrir að fara í þungunarrof eða refsa heilbrigðisstarfsfólki að framkvæma það á sjúkrahúsum á vegum alríkisins.

Kólumbía: Afglæpavæðing þungunarrofs fram að 24. viku meðgöngu tók gildi febrúar 2022.

Argentína: Þungunarrof var lögleitt fram að 14. viku í desember 2021.

Asía

Indland: Hæstiréttur úrskurðaði árið 2022 að konur gætu farið í þungunarrof allt að 24. viku óháð hjúskaparstöðu þeirra.

Suður-Kórea: Afglæpavæðing lækna sem framkvæma þungunarrof tók í gildi árið 2021 í kjölfar úrskurðar stjórnarskrádómstóls árið 2019.

Afríka

Benín: Þungunarrof lögleitt í flestum tilfellum árið 2021.

Kenía: Hæstiréttur úrskurðaði árið 2019 að þolendur nauðgana ættu rétt á þungunarrofi.


FYLGDU OKKUR Á SAMFÉLAGSMIÐLUM