loftslagsbreytingar


Loftslagsvá

Það er auðvelt að taka jörðinni sem sjálfsagðri þar til við sjáum áhrif loftslagsbreytinga á líf fjölda fólks: hungursneyð, fólksflutninga, atvinnuleysi, sjúkdóma og dauða. Augljós dæmi eru dauðsföll sem tengjast öfgum í veðurfari, eins og stórstormum, flóðum og gróðureldum. En aðrar ógnir eru ekki eins sjáanlegar.

Loftslagsbreytingar ógna lífi og öryggi milljarða jarðarbúa.

Fyrir núverandi og framtíðarkynslóðir blasir við gífurleg eyðilegging. Því má segja að skortur á viðbrögðum stjórnvalda við loftslagsvánni í ljósi yfirgnæfandi vísindalegra gagna sé eitt af stærstu mannréttindabrotum sögunnar gegn núverandi og komandi kynslóðum.

Mannréttindi á tímum loftlagsbreytinga

Mann­rétt­indi eru nátengd lofts­lags­breyt­ingum þar sem þær hafa ekki einungis áhrif á umhverfið heldur einnig velferð okkar.

Vandinn mun aðeins stækka og versna.

Réttur til lífs, frelsis og öryggis er réttur okkar allra. Loftslagsbreytingar ógna lífi og öryggi milljarða jarðarbúa. Alþjóðaheil­brigð­is­málastofnunin áætlar að loftslagsbreytingar muni valda 250.000 dauðsföllum á ári á tíma­bilinu 2030 til 2050 vegna sjúk­dóma, vannær­ingar og ofhitnunar.

Réttur til heilsu felur í sér að við höfum öll rétt á að njóta bestu mögu­legu líkam­legrar og andlegrar heilsu. Loftslagsbreyt­ingar auka hættu á nátt­úru­ham­förum. Fólk, og þá sérstak­lega börn, sem upplifir nátt­úru­ham­farir getur í kjöl­farið þjáðst af áfall­a­streituröskun. Helstu heilsuáhrif lofts­lags­breyt­inga samkvæmt milliríkjanefnd um lofts­lags­breyt­ingar (IPCC) hjá Sameinuðu þjóð­unum eru aukin hætta á líkamstjóni, sjúk­dómum og dauðsföllum meðal annars vegna mikilla hita­bylgja og elda ásamt aukinni hættu á vannær­ingu vegna minnkandi fæðu­fram­leiðslu á fátækari svæðum heims.

Réttur til vatns og hrein­lætis er mikil­vægur til að njóta heilsu. Bráðnun jökla og íss, minnk­andi regn­magn, hækkandi hita­stig og sjávarmál vegna loftslagsbreytinga eru meðal þátta sem hafa áhrif á gæði og magn vatns­birgða jarðar. Nú þegar hafa um 785 milljónir einstak­linga um heim allan ekki aðgang að öruggu vatni eða hrein­læti. Loftslagsbreytingar munu aðeins auka enn frekar á þennan vanda.

Réttur til viðun­andi lífskjara fyrir okkur og fjölskyldu okkar felur í sér réttinn til viðun­andi húsnæðis. Veðurtengdar hamfarir sem tengjast loftslags­breyt­ingum valda nú þegar flóðum og gróð­ureldum sem hrekja fólk frá heim­ilum sínum vegna eyðileggingarinnar. Þurrkar geta einnig valdið umtalsverðum óhagstæðum breyt­ingum á umhverfi og hækkandi sjávarmál ógnar heimilum milljóna fólks um heim allan sem býr á láglendum svæðum.

Réttlát orkuskipti

Loft­lags­breyt­ingar valda fordæma­lausri mann­rétt­inda­neyð. Nú þegar veldur bruni jarðefnaeldsneytis dauðsföllum og umhverf­isspjöllum.

Bráðnauð­syn­legt er fyrir mann­kynið að hætta að brenna jarðefnaeldsneyti og færa sig yfir í endurnýjanlega orku. Endurhlað­an­legar rafhlöður eru ómissandi þáttur í orkuskiptunum.

Réttlát orku­skipti í átt að endur­nýj­an­legri orku munu ávallt þurfa námu­vinnslu, land og auðlindir.

Nú er kominn tími til að grípa til aðgerða sem tryggja umhverfisvæn og mannréttindamiðuð orkuskipti.

Vandinn

Lofts­lags­breyt­ingar munu valda okkur öllum skaða ef stjórn­völd um heim allan grípa ekki til aðgerða.

Sveiflur á meðal­hita hafa ávallt átt sér stað á jörð­inni. Núver­andi hækkun hita­stigs er þó mun hraðari en nokkurn tímann áður. Aukinn styrkur gróðurhúsalofttegunda í andrúms­loftinu er af mannavöldum. Þessi aukning veldur hækkun á meðal­hita á jörð­inni á hraða sem lifandi verur ná ekki að aðlagast.

Brennsla jarð­efna­eldsneytis, eins og kola, olíu og gass, er ein helsta uppspretta losunar gróðurhúsaloftteg­unda í öllum atvinnu­vegum. Meira en 70% losunar heims er vegna þess.

Fremstu aðilar í vísindum sem meta loftslagsbreytingar hafa gefið út aðvörun þess efnis að losun gróðurhúsalofttegunda verði að hafa náð hámarki fyrir árið 2025 í síðasta lagi og að minnka þurfi losunina um 43% fyrir árið 2030 til að hækkun meðalhita haldist innan við 1,5°C og til að hindra gífurlegar hörmungar.

Sum samfélög og hópar koma líklega til með að finna meira fyrir áhrifum þeirra, einna helst jaðar­hópar og hópar sem sæta mismunun. Þar á meðal fólk í þróunarlöndum og þá sérstak­lega fólk sem býr á strandsvæðum og litlum eyja­ríkjum.

Oft eru það lönd sem bera minnstu ábyrgðina á loftslagsbreyt­ingum sem finna mest fyrir áhrifum þeirra.

Mál: Barátta stúlkna í Amazon-skógi

Í Amazon-skóginum í Ekvador berjast níu ungar stúlkur fyrir því að olíufyrirtæki stöðvi gasbruna á svæðinu sem veldur mikilli mengun og aukinni tíðni krabbameins meðal íbúa.

Ekvador er einn helsti framleiðandi hráolíu á Amazon-svæðinu. Yfirvöld og fyrirtæki í Ekvador ógna Amazon-svæðinu með stefnu sinni, löggjöf og jarðefnavinnslu (aðallega olíu- og námuvinnslu).

Gasbruni er notaður í olíuvinnslu til að brenna jarðgas sem er auka­afurð vinnslunnar. Í Amazon-skóginum í Ekvador eru 447 gasbrunar. Þeir eru um 400°C heitir og brenna allan sólarhringinn, allan ársins hring. Þeir hafa brunnið áratugum saman með tilheyr­andi umhverfisskaða og heilsutjóni fólks í nágrenninu.  

Hægt er að nota annars konar tækni við olíuvinnsluna sem hefur síður neikvæð áhrif á umhverfið og mannréttindi fólks. Þrátt fyrir það hafa olíufyrirtæki ekki sýnt áhuga á að nýta þessa tækni, meðal annars vegna aukins kostnaðar.

Upplýsingagjöf og óþvingað samþykki frumbyggja er ekki tryggt á svæðinu sem hefur haft áhrif á landsvæði þeirra, umhverfi, heilsu, vatnsból og fæðuöflun. Frumbyggjar og aðgerðasinnar í Ekvador eiga einnig á hættu að verða fyrir árásum fyrir baráttu sína fyrir umhverfisvernd. 

Níu stúlkur frá Amazon-svæðinu fóru í mál við stjórn­völd í Ekvador þar sem þær kröfðust lögbanns á gasbruna í nágrenni þeirra á þeim grundvelli að brotið sé á mannréttindum þeirra. Héraðsdómstóll úrskurðaði stúlkunum í hag en þrátt fyrir þennan úrskurð eru enn gasbrunar á svæðinu.

Amnesty Internati­onal á Amer­íku­svæðinu styður baráttu stúlknanna fyrir stöðvun gasbruna í tengslum við olíuvinnslu á Amazon-svæðinu.

Loftslagsváin er áríðandi mál og okkar hlutverk er að vekja athygli á áhrifum loftslagsbreytinga á mannréttindi fólks.

Amnesty International er í samstarfi við fjölmarga hópa í lykillöndum til að þrýsta á stjórnvöld og fyrirtæki sem eru að hindra framþróun. Við styðjum einnig við ungt fólk, frumbyggja, verkalýðsfélög og samfélög sem finna fyrir áhrifum loftslags­breytinga.

Þörf er á hraðari og sanngjarnari breytingum í átt að kolefnishlutlausum efnahagi þar sem tekið er tillit til alls fólks.

Hröð orkuskipti úr jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýjanlega orku er því nauðsynleg. Nýta þarf tæknilausnir sem eru sannreyndar og umhverf­i­svænar til að lífi fólks eða lífríki jarðar verði ekki fórnað.

Stjórnvöld verða einnig að krefja fyrirtæki um að virða mannréttindi í orkuskiptunum.

Kröfur Amnesty International

Amnesty International kallar eftir því að stjórnvöld:

  • Leggi sig fram við að hindra að hækkun meðalhita jarðar verði umfram 1,5°C.
  • Dragi úr losun gróðurhúsaloftteg­unda þannig að hún verði engin í síðasta lagi árið 2050. Ríkari lönd ættu að gera það enn hraðar. Árið 2030 verður losun heims að vera helmingur losunar árið 2010.
  • Hætti notkun og framleiðslu jarð­efnaeldsneytis (kola, olíu og gass) eins fljótt og hægt er.
  • Gæti þess að aðgerðir gegn lofts­lags­breyt­ingum brjóti ekki á mannrétt­indum og dragi úr ójöfnuði frekar en að auka hann.
  • Tryggi að allir einstaklingar, sérstak­lega þeir sem finna mest fyrir áhrifum loftslagsbreyt­inga eða umskipta yfir í efnahag án jarðefna­eldsneytis, fái allar nauðsynlegar upplýsingar og geti tekið þátt í ákvarð­ana­töku um framtíð þeirra.
  • Deili ábyrgð­inni með sanngjörnum hætti. Ríkari lönd verða að veita fjárhagslegan og tæknilegan stuðning til fólks í þróunarlöndum til að styðja við endur­nýj­an­lega orku og aðlögun vegna loftslagsbreyt­inga. Þau verða einnig að veita þeim skaðabætur sem þjást mest vegna eyði­legg­ingar af völdum loftslagsbreytinga og tryggja rétt fólks sem missir heimili sín eða á það á hættu vegna loftslagsbreytinga.
  • Tryggi að aðgerðir í tengslum við lofts­lags­vána taki mið af kröfum þeirra hópa og samfé­laga sem finna mest fyrir áhrifum loftslagsbreyt­inga. Nauðsynlegt er að taka tillit til kyns, kynþáttar, stéttar, uppruna, fötl­unar og komandi kynslóða til að tryggja loftslags­rétt­læti.

FYLGDU OKKUR Á SAMFÉLAGSMIÐLUM