Réttlát orkuskipti


Yfirlit

Loftslagsbreyt­ingar ógna fjölmörgum mann­rétt­indum á borð við rétt til vatns, heilsu og lífs. Loftslags­váin eykur kerf­is­lægan ójöfnuð og mismunun.

Alþjóða­hag­kerfið þarf því að hverfa frá notkun jarðeldsneytis og snúa sér að endurnýjanlegri orku.

En hætta er á að orku­skiptin brjóti á mann­rétt­indum fólks og valdi umhverf­is­spjöllum þar sem þau krefjast stóraukn­ingar á námugreftri á málmi og steinefnum. Breyti námu­fyr­ir­tæki og stærstu kaupendur þeirra ekki um stefnu er hætta á að það bitni á mann­rétt­indum samfé­laga eins og frumbyggjasamfé­lögum í grennd við námu­vinnslu. Verði það ekki gert er réttlát og sjálfbær framtíð ekki tryggð.

Nú er kominn tími til að grípa til aðgerða sem tryggja umhverf­i­svæn og mannréttindamiðuð orkuskipti.

Hvað felst í orkuskiptunum?

Stjórn­völd og ýmis iðnaður á alþjóða­vísu eru nú þegar að færa sig í átt að endurnýjanlegri orku. Til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis hefur orðið veruleg aukning á notkun á endurhlaðanlegum rafhlöðum fyrir rafmagns­bíla og orkugeymslur.

Kóbalt, kopar, nikkel og liþíum eru helstu efnin í endur­hlað­an­legum rafhlöðum fyrir rafmagns­bíla og strætisvagna. Þessar rafhlöður eru einnig mikið notaðar í tæki eins og farsíma, fartölvur, myndavélar og rafmagnsverkfæri. Árið 2030 má búast við að tvöfalt meiri eftir­spurn verði eftir nikkel, áttfalt meiri eftir mangan og tífalt meiri eftir kóbalt og liþíum miðað við fram­leiðslu í byrjun þessa áratugar.

Stjórn­völd og fyrir­tæki sem tengjast þessum alþjóð­lega iðnaði stytta sér oft leið með því að líta fram hjá mannréttindastöðlum, öryggisreglum og umhverfisvernd til að græða sem mest. Alþjóðleg risafyrirtæki líta ítrekað fram hjá umhverfis- og fjár­málaglæpum eða eru jafnvel viðriðin slíka glæpi.

Stjórn­völd bregðast oft skyldum sínum til að bæta fyrir og rann­saka opin­berlega spillingu, umhverf­is­mengun, brot á rétt­indum vinnu­afls og enn síður að lögsækja fyrir slík brot. Það er nánast óheyrt að fyrir­tæki bæti fyrir skaða sem samfélög verða fyrir vegna námugröfts.

Næstu árin má búast við að verk­smiðjur auki veru­lega fram­leiðslu á rafhlöðum. Fjárfest­ingar í jarðefnaeldsneyti munu í auknum mæli dragast saman og meira verður um fjárfestingar í endurnýjanlegri orku. Þessi fjárfesting er þó oft gerð án áreið­an­leika­könn­unar um að fjárfest­ingin ýti ekki undir brot á rétt­indum.

Fyrir­tæki og fjárfestar einblína eingöngu á útþenslu frekar en auðlind­arnýtni, endurnýtingu og endurvinnslu. Þrýst er á meiri námugröft á steinefnum en á sama tíma eykst sóunin.

Ríki, fyrir­tæki, fjár­festar og neyt­endur hafa nú tæki­færi til að skuld­binda sig til að styðja orku­skipti þar sem tryggt er að mannréttindi séu virt og vernduð.

Áhrif á mannréttindi

Aukin notkun endurhlaðanlegra rafhlaðna hefur haft neikvæð áhrif á svæðum sem eru rík af steinefnum eins og í svokölluðum „liþíumþríhyrningi“ í Suður-Ameríku og á kóbaltnámusvæði Lýðstjórnarlýð­veld­isins Kongó þar sem iðnað­urinn í tengslum við það hefur lengi verið óheftur.

Amnesty Internati­onal hefur rann­sakað ítar­lega hættur sem stafa af námugrefti vegna orku­skipta sem geta bitnað á mann­rétt­indum og umhverfinu.

  • Lýðstjórnarlýð­veldið Kongó: Heilu samfé­lögin eru þvinguð af heim­ilum sínum og rækt­ar­land tekið af þeim fyrir stækk­andi námu­iðnað sem sækist eftir kóbalti og kopar. Börn allt niður í sjö ára eru látin grafa eftir málmi í námunum fyrir lág laun og við hættu­legar aðstæður.
  • Salar de Atacama í Síle, Argentínu og Bólivíu: Námugröftur eftir liþíum og kopar er ógn við rétt­indi frum­byggja sem þar búa og rétt þeirra til sjálfsákvörð­unar. Vatnsbólum og vist­kerfi á svæðunum er einnig ógnað sem hefur áhrif á lífsviðurværi og menn­ingu þessara samfélaga.

Fyrir­tækjum í námugreftri steinefna ber skylda til að tryggja mann­rétt­indi hvar sem viðskipti eru stunduð og vinna að úrbótum þegar brotið er á rétt­indum fólks í tengslum við starf­semi þeirra eða af hálfu viðskipta­tengsla. Binda þarf tafar­laust enda á barna­þrælkun, þvingaða brott­flutn­inga, mengun og hættu­legar vinnu­að­stæður.

Um allan heim hefur illa útfærð meðferð úrgangs frá námu­iðn­að­inum leitt til langvar­andi meng­unar sem skaðar heilsu fólks án þess að nokkur aðili sé látinn bera ábyrgð á hreinsun eða úrbótum. Á sama tíma er lagt kapp á að finna nýjar auðlindir af steinefnum fyrir rafhlöður með námugreftri á hafs­botni. Það stofnar vistkerfi sjáv­ar­botns í alvarlega hættu með óafturkallanlegum hætti og ógnar lífsvið­ur­væri samfé­laga sem lifa við sjóinn.

Orku­skipti eru bráðnauðsynleg eftir því sem lofts­lagsváin eykst. Lausnir mega þó ekki að vera á kostnað mannrétt­inda.

Hver er lausnin?

Hægt er að komast hjá því að mannréttindabrot séu hluti af orkuskiptum. Það er ólíðandi að orkuskipti tengist misbeit­ingu vinnu­afls, eign­asviptingum og umhverfisspjöllum.

Stjórn­völd sem tengjast verðmætakeðju endurhlað­anlegra rafhlaðna hafa nú tæki­færi til að móta stefnu í orku­skiptum þar sem mannréttindi eru tryggð.

Fyrir­tæki sem hafa markað sig sem leiðandi í sjálf­bærni á alþjóða­vísu verða að setja mann­rétt­indi og umhverf­ismál í forgang til að forðast að dýpka þann ójöfnuð og óréttlæti sem nú þegar er til staðar.

Fyrir­tæki, fjár­festar og stjórn­völd geta komið í veg fyrir mannréttindabrot og náttúruspjöll með mannréttindamið­aðri nálgun í tengslum við verð­mæta­keðju rafhlaðna.

Amnesty Internati­onal hefur gefið út meginreglur fyrir fyrir­tæki og stjórn­völd sem er ætlað að koma í veg fyrir brot á mannrétt­indum og umhverfisspjöll í tengslum við framleiðslu á endurhlaðanlegum rafhlöðum.

Megin­regl­urnar eru leið­bein­andi reglur um þau skref sem stjórnvöld og fyrir­tæki verða að taka til að koma í veg fyrir slík brot. Um 70 alþjóðleg samtök og einstaklingar hafa lýst yfir stuðn­ingi sínum við þeim.

Amnesty Internati­onal hefur gert rann­sóknir og áköll sem tengjast orku­skiptum. Má þar nefna skýrslu um þvingaða brottflutninga í Lýðstjórn­arlýðveldinu Kongó vegna námugraftar. Í tengslum við rannsóknina var ákall til stjórn­valda þar í landi um að stöðva þvingaða brottflutninga og mannréttinda­brot í grennd við kopar- og kóbalt­námu.

Hvað þarf að gera?

Stjórnvöld

Tilmæli Amnesty International til stjórnvalda:

  • Tryggja hröð orku­skipti í átt að eingöngu endurnýjanlegri orku, krefjast saman­tektar um kolefn­isspor rafhlaðna og standa gegn öllum gerðum af námugreftri á hafs­botni.
  • Setja lög sem krefja fyrirtæki að virða mannréttindi og vernda umhverfið, meðal annars með því að sjá til þess að fyrir­tæki hafi eftirlit með birgða­keðju sinni.
  • Tryggja að lögum og reglugerðum um umhverfisvernd og mannrétt­indi sé framfylgt. Hætta þarf að beita hagrænum hvötum fyrir jarð­efna­eldsneyti á borð við niður­greiðslur, skattaívilnun, lán eða afskriftir.
  • Rann­saka og taka á málum sem tengjast brotum á mannréttindum og umhverfisvernd.
  • Vernda baráttu­fólk fyrir umhverf­is­vernd og frumbyggja svo hægt sé að tryggja þátttöku þessara hópa í rétt­látum orkuskiptum.
  • Tryggja úrræði fyrir samfélög sem finna fyrir afleið­ingum námugröfts.
  • Refsa fyrir mútur og spillingu námu­fyr­ir­tækja, bræðslu­vera, fram­leið­enda og annarra fyrirtækja sem græða á orku­skiptum.
  • Setja lokafrest á sölu nýrra bruna­hreyf­ils­bíla og innleiða stefnu um að draga úr bílferðum, þar á meðal að fækka bílum á vegum.
  • Setja lágmarks­staðla fyrir orku­skil­virkni í vörum og farar­tækjum til að spara rafmagn og auðlindir.
  • Setja lágmark á líftíma rafhlaðna fyrir rafmagnsbíla og önnur raftæki.
  • Krefjast viðgerða á rafhlöðum eða að þeim sé safnað saman fyrir endurvinnslu og fjár­festa í rannsóknum sem er ætlað að betr­um­bæta hönnun og endur­vinnslu rafhlaðna.

Fyrirtæki

Tilmæli Amnesty International til fyrir­tækja:

  • Fyrir­tæki tryggi að starfsemi þeirra, dótturfyrirtækja og birgðasala fylgi alþjóð­legum stöðlum um umhverf­is­vernd og mannrétt­indi. Það felur meðal annars í sér að tryggja mannrétt­indi með því að sjá til þess að fylgst sé vel með og gripið verði til aðgerða vegna mannréttindabrota og umhverf­isáhrifa.
  • Fyrir­tæki tryggi að starfsemi þeirra þaggi ekki niður í röddum samfé­laga sem verða fyrir áhrifum vegna námugröfts, þá sérstak­lega frum­byggja og baráttu­fólks til verndar umhverfinu og mannréttindum. Nauðsynlegt er að hlusta á raddir þessa fólks til að tryggja rétta nálgun.
  • Atvinnu­veit­endur virði réttindi verka­fólks í samræmi við alþjóð­lega staðla.
  • Fyrir­tæki geri mannréttindamiðað áhættumat á öryggisaðgerðum. Mútur og spilling mega aldrei eiga sér stað og það þarf að sjá til þess að slíkt líðist ekki.
  • Fram­leið­endur rafhlaðna verða að auka hlut­fall endur­vinn­an­legs efnis í rafhlöðum og hanna rafhlöður sem auðvelt er að taka í sundur fyrir endur­vinnslu efnis.
  • Allir bíla­fram­leið­endur skipti út bruna­hreyflum eins fljótt og hægt er.
  • Fram­leið­endur rafhlaðna hafni steinefnum sem koma frá sjáv­ar­botni.

Alþjóð­legir staðlar á borð við leið­bein­andi megin­reglur Sameinuðu þjóð­anna um viðskipti og mann­rétt­indi (e. UN Guiding Principles on Business and Human Rights) er leið­ar­vísir um hvað þarf að gera til að virða mann­rétt­indi í starf­sem­inni og hvernig úrræði þarf að veita fyrir þann skaða sem starf­semin veldur eða á þátt í.

Stjórnvöld og fyrirtæki þurfa að tryggja að lausnir í átt að hreinni orku valdi ekki fólki eða umhverfinu skaða.

Megin­reglur Amnesty International fyrir fyrirtæki og stjórnvöld.


FYLGDU OKKUR Á SAMFÉLAGSMIÐLUM