Pyndingar


Pyndingar eru aldrei réttlætanlegar

Stjórn­völd og útsend­arar þeirra beita pynd­ingum í skjóli leyndar og refsi­leysis. Pyndingar eru ómann­úðleg refsing sem er beitt af ríkisvaldinu víðs vegar um heiminn í trássi við alþjóðlegt bann.

Pyndingar skaða fólk, ógna réttaríkinu, grafa undan dómskerfinu og valda vantrausti almennings á opinberum stofnunum og ríkisvaldinu. Þær valda þolendum þeirra gífurlegum þjáningum og sársauka. Afleiðingar þeirra eru langvarandi. Enginn er öruggur þegar stjórnvöld leyfa að pyndingum sé beitt. Bann við pynd­ingum er algilt og nær til allra ríkja, óháð því hvort þau hafa samþykkt alþjóðasáttmála sem banna pynd­ingar.

Pynd­ingar eru aldrei réttlætanlegar.

Fimm algengar mýtur um pyndingar

Hvernig réttlæta stjórnvöld beitingu pyndinga?

  • Til að þvinga fram játningar fyrir glæp
  • Til að fá fram upplýsingar
  • Til að bæla niður andstöðu
  • Til að refsa fólki á grimmilegan hátt til að skapa ótta í samfélaginu
  • Í þágu þjóðaröryggis
Pyndingar virka ekki

Algengt er að halda því fram að stundum séu pyndingar eina leiðin til að ná fram upplýsingum til að bjarga mannslífum. Upplýsingar sem er náð fram með pyndingum eru aftur á móti óáreiðanlegar þar sem fólk er tilbúið að segja hvað sem er til að stöðva þjáningarnar og segir því það sem pyndarar vilja heyra. Það eru til aðrar mannúðlegar leiðir sem yfirvöld geta beitt til ná upplýsingum.

Alþjóðalög kveða á um að ekki megi nota játningar sem náðar eru fram með pyndingum sem sönnunargögn.

Aðferðir sem eru notaðar við pyndingar

Pyndingaraðferðir geta verið margs konar.

Líkamlegar pyndingar á borð við barsmíðar og rafstuð eru meðal aðferða. Einnig geta þær verið kynferðislegs eðlis, eins og nauðgun og kynferðisleg niðurlæging, eða sálrænar, líkt og svefnsvipting og langvarandi einangrunarvist.

Þegar við hugsum um pyndingar og aðra illa meðferð kemur yfirleitt í hugann aðferðir á borð við rafstuð, álagsstellingar og vatnspyndingar. Slíkum grimmilegum aðferðum er enn beitt í mörgum löndum með reglubundnum hætti.

Pyndingar og ill meðferð geta þó einnig átt við um ómannúðlegar aðstæður í fangelsum, einangrunarvist og synjun á læknismeðferð.

Pyndingartól eru einnig notuð eins og gaddakylfur og raflostsvesti. Fyrirtæki halda áfram að selja slík tól. Enginn ætti að græða á pyndingartólum sem eru til þess eins að valda sársauka.

pyndingartól sem þarf að banna

Hvar þrífast pyndingar?

Baráttan gegn pynd­ingum og annarri illri meðferð á á brattann að sækja. Víða um heim er fólk pyndað í fangelsum á lögreglu-, varðhalds- og herstöðvum og á öðrum stöðum á vegum yfir­valda.

Pynd­ingar þrífast ekki aðeins þar sem harð­stjórar og einræð­is­herrar ráða ríkjum. Stjórn­völd sem gerast sek um pynd­ingar eru alls konar.

Amnesty Internati­onal hefur á árunum 2009-2013 skráð pynd­ingar og aðra illa meðferð í 141 ríki, þriðjung allra ríkja. Í mörgum þessara landa eiga pynd­ingar sér stað með reglu- og kerf­is­bundnum hætti en annars staðar er um einangruð tilfelli að ræða.

Einungis er um að ræða tilfelli sem hægt var að staðfesta og voru nógu trúverðug til að kalla á rannsókn og því gæti raunveruleg tala verið hærri.

„Stríðið gegn hryðjuverkum“

Í kjölfar árás­innar í Banda­ríkj­unum þann 11. sept­ember 2001 endur­skil­greindu mörg ríki pyn­dingar og illa meðferð undir því yfirskyni að fórna þyrfti rétt­indum sumra til að vernda almanna­heill. Það væri hernaðarnauðsyn og/eða í sjálfs­vörn.  

Skil­grein­ingin á pyndingum var þrengd. Notaðar voru „léttvægari“ aðferðir eins og kynferð­is­lega niður­læg­ingu, svefnskerð­ingu, truflun á skynfærum, hita-, kulda og vatnspyndingar. Þessar aðferðir geta valdið miklum sálrænum skaða, jafnvel til frambúðar, þó ekki sjáist ummerki um líkam­lega áverka.

Þegar örfá ríki réttlættu pyndingaraðferðir í „stríðinu gegn hryðjuverkum“ gaf það öðrum ríkjum grænt ljós, ríkjum sem vildu nota pynd­ingar í nafni þjóðarör­yggis. Það varð til þess að pynd­ingum var beitt gegn pólitískum andstæðingum, gagnrýn­endum og aðgerðasinnum.

Pynd­ingar og ill meðferð verða ekki leyfi­legar þó hugtökunum séu gefin önnur nöfn.

©Alli McCracken/Amnesty International

Gvantanamó-fangabúðirnar

Gvantanamó-fangabúðirnar voru stofnaðar af Bandaríkjunum í janúar 2002. Þær hafa orðið táknrænar fyrir gróf mannréttindabrot Bandaríkjanna í nafni þess að berjast gegn hryðjuverkum. Hundruð einstaklinga hafa verið í haldi þar árum saman án ákæru og sætt pyndingum, sem Bandaríkin kalla „sterkari yfirheyrsluaðferðir“ (e. „enhanced interrogation techniques”).

Fyrrum fangar hafa greint frá því að þeir hafi verið pyndaðir með vatni þar sem vatni var hellt yfir þá til að líkja við drukknun, þeir hafi sætt svefnskerðingu, þurft að hlusta á ærandi tónlist, þurft að þola nístandi kulda og verið þvingaðir í álagsstellingar. Amnesty International hefur barist fyrir því að fangar í Gvantanamó verði leystir úr haldi án tafar eða ákærðir fyrir glæpi í samræmi við alþjóðalög. Í byrjun janúar 2025 voru 15 fangar enn í haldi í fangabúðunum.

Bandaríska leyniþjónustan hefur einnig verið með varðhaldsbúðir víðs vegar um heiminn eða svokallaða „svarta staði“ þar sem pyndingar eiga sér stað.

Baráttan gegn pyndingum

Amnesty Internati­onal hefur barist gegn pyndingum í rúmlega 50 ár og margt hefur áunnist í þeirri baráttu.

Samtökin börðust fyrir gerð samn­ings Sameinuðu þjóðanna gegn pynd­ingum og annarri grimmilegri, ómannlegri og vanvirð­andi meðferð eða refs­ingu sem var samþykktur árið 1984 og tók gildi árið 1987. Mikill meirihluti ríkja heims hefur fullgilt samninginn eða 175 aðildarríki.

Þýðing­ar­mikil fækkun á pyndingum og annarri illri meðferð hefur orðið í þeim ríkjum sem taka bann við pynd­ingum og annarri illri meðferð alvar­lega og grípa til aðgerða samkvæmt samningnum gegn pyndingum og valfrjálsri bókun hans og öðrum sáttmálum.

175 aðildarríki merkt blá – mynd frá Sameinuðu þjóðunum.

Ísland

  • Árið 1985 undir­ritaði Ísland samning gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannúðlegri og niður­lægj­andi meðferð og refs­ingu og full­gilti hann árið 1996.
  • Valfrjáls bókun við samninginn var undirrituð árið 2003 og fullgilt árið 2019. Í bókuninni er kveðið á um sérstakt eftirlit innan hvers aðildarríkis með því hvort og þá hvernig réttindi frelsissviptra einstaklinga eru virt.

Varnir gegn pynd­ingum

Ríki þurfa að tryggja öfluga varnagla gegn pynd­ingum og annarri illri meðferð og grípa til eftirfarandi fyrirbyggj­andi aðgerða.

  • Óháðir læknar skoða fanga og lögfræðingar fá að heimsækja fang­elsi og eru ávallt viðstaddir yfirheyrslur.
  • Engin einangrunarvist eða varðhald á leynilegum stöðum.
  • Reglu­legar, ótilkynntar og óheftar eftirlitsheimsóknir á varðhaldsstöðvar frá óháðum aðilum.
  • Öllum föngum eru kynnt rétt­indi sín þegar í stað, þar á meðal að þeir geti lagt fram kvörtun til yfirvalda um illa meðferð og fengið þegar í stað úrskurð dómara um lögmæti hand­tök­unnar.
  • Allar kvart­anir varðandi pynd­ingar og illa meðferð eru rann­sak­aðar af óháðum aðilum á hlut­lægan og skilvirkan hátt.
  • Aðilar ábyrgir fyrir pynd­ingum eru dregnir fyrir rétt.
  • Þolendur pynd­inga eiga rétt á skaðabótum.
  • Í starfs­þjálfun lögreglu, fangvarða og annarra viðkomandi starfa er gefið skýrt til kynna að ill meðferð og pynd­ingar verði aldrei liðnar. Að fylgja skipun yfirmanns rétt­lætir aldrei pynd­ingar eða illa meðferð.
  • Fangar fá að hitta fjöl­skyldu sína og lögfræðing með reglu­legu milli­bili.

Árangur

Moses var handtekinn og pyndaður aðeins 16 ára gamall. Hann var ásakaður um stela nokkrum farsímum. Eftir átta ár í fangelsi var hann dæmdur til dauða.

Moses Akatugba frá Nígeríu var náðaður árið 2015. Þúsundir Íslendinga tóku þátt í alþjóðlegri aðgerð árið 2014 þar sem þrýst var á fylkisstjóra í Nígeríu að náða hann.

Moses lét eftirfarandi orð falla þegar hann var náðaður:

„Ég er djúpt snortinn. Ég þakka Amnesty International og aðgerðasinnum samtakanna fyrir stórkostlegan stuðning sem gerðu mig að sigurvegara í þessum aðstæðum. Félagar Amnesty International og aðgerðasinnar eru hetjurnar mínar. Ég fullvissa þá um að þessi ótrúlegi stuðningur sem þeir hafa sýnt mér er ekki fyrir borð borinn. Með náð guðs mun ég uppfylla væntingar þeirra. Ég heiti því að gerast aðgerðasinni sjálfur og berjast fyrir aðra. Ég þakka einnig fylkisstjóranum fyrir góðverk sitt og að standa við orð sín.“

Samtakamáttur einstaklinga í þágu þeirra sem sæta grófum mannréttindabrotum skilar sér sannarlega.

Saga Moses

Þinn réttur

við handtöku, rannsókn og málsmeðferð


FYLGDU OKKUR Á SAMFÉLAGSMIÐLUM