Fimm algengar mýtur um pyndingar
Hér má lesa um fimm algengar mýtur um pyndingar
Bann við pyndingum er algilt og nær til allra ríkja, óháð því hvort þau hafa samþykkt alþjóðasáttmála sem banna pyndingar.
1. Pyndingum er aðallega beitt gegn þeim sem eru grunaðir um hryðjuverk eða í stríði
Rannsókn Amnesty International sýnir að pyndingar og önnur ill meðferð er enn vandamál í mörgum löndum sem standa frammi fyrir raunverulegri eða ímyndaðri ógn við þjóðaröryggi, þar með talið hryðjuverkum.
Hins vegar hefur áherslan á pyndingar og aðra illa meðferð í hinu svokallaða „stríði gegn hryðjuverkum“ hjá bandarískum stjórnvöldum í upphafi aldarinnar skekkt heimsmyndina. Rannsókn Amnesty International sýnir greinilega að flestir þolendur pyndinga og annarrar illrar meðferðar á heimsvísu eru ekki hættulegir hryðjuverkamenn heldur fátækt, lítilsvirt og vanmáttugt fólk sem grunað er um glæp og fær því miður sjaldan athygli fjölmiðla eða almennings í heimalandi sínu eða á heimsvísu.
Raunverulegir eða ímyndaðir pólitískir „óvinir“ stjórnvalda sem hafa aldrei borið sprengju eða önnur vopn, þar með taldir mannréttindafrömuðir, pólitískir stjórnarandstæðingar og fjölmiðlafólk, eru tíðir þolendur pyndinga.
Vissulega er pyndingum enn beitt í tengslum við stríðið gegn hryðjuverkum en jafnvel þá er þeim helst beitt til að gera óvininn ómennskan: Raunveruleikinn lítur ekki út eins og í þættinum „24“ eða myndinni „Zero Dark Thirty“.
Á alþjóðavísu eru flestir þolendur ekki beittir pyndingum vegna þess að þeir eru taldir hryðjuverkamenn heldur vegna þess að þeir eru fátækir, öðruvísi eða dirfast að vera á öndverðum meiði við ríkisstjórnina. Hver sem ástæðan er þá er bann við pyndingum og annarri illri meðferð algilt. Pyndingar eru aldrei réttlætanlegar, óháð því hver þú ert eða hvað þú hefur gert.
2. Pyndingar eru eina leiðin til að ná fram upplýsingum
Pyndingar eru frumstætt og bitlaust vopn til að ná fram upplýsingum. Ríki hafa fjölmargar mannúðlegar leiðir til að safna upplýsingum um bæði framda og fyrirhugaða glæpi. Einkum hefur mannúðleg yfirheyrslutækni reynst vera áhrifarík leið til að ná fram upplýsingum um glæpi án þess að það hafi hrikalegar afleiðingar persónulega, félagslega eða lagalega.
3. Sumar pyndingaraðferðir eru ekki svo slæmar
Pyndingar er ekki hægt að flokka eftir stigum. Lagalega eru pyndingar skilgreindar sem verknaður sem veldur miklum sársauka eða þjáningum, líkamlegum jafnt sem andlegum, og er beitt með vilja til að refsa eða ná fram upplýsingum. Engar pyndingar eru „mildar“.
Allar gerðir pyndinga eru fyrirlitlegar og ólöglegar, að meðtöldu rafstuði, barsmíðum, nauðgunum, niðurlægingu, sviðsettum aftökum, bruna, svefnsviptingu, vatnspyndingum, óþægilegum álagsstellingum langtímum saman, notkun naglbíta, lyfja og hunda. Því miður er öllum þessum aðferðum beitt í löndum víðs vegar um heim.
4. Í sumum tilfellum þjóna pyndingar almannaheill
Nei, pyndingar eru aldrei löglegar eða ásættanlegar. Þau lönd sem bregðast því að sækja fólk til saka fyrir pyndingar brjóta alþjóðlega samþykkta staðla.
Lagalega séð er bann við pyndingum og annarri illri meðferð algilt, undir öllum kringumstæðum án undantekninga. Ekki er hægt að slaka á banninu þó að um neyðarástand sé að ræða. Bannið hefur náð það sterkri alþjóðlegri einingu að það nær einnig til þeirra landa sem hafa ekki gerst aðilar að viðeigandi sáttmálum.
Þrátt fyrir það halda stjórnvöld áfram pyndingum af ýmsum ástæðum en aðallega vegna þess að þær gagnast þeim, eða svo telja þau, og hinir ábyrgu eru sjaldan dregnir fyrir dóm. Mikið verk er enn fyrir höndum til að binda enda á þennan hroðalega verknað.
5. Aðeins nokkrar af verstu stjórnvöldum beita pyndingum
Á tímabilinu 2009-2013 greindi Amnesty International frá pyndingum og annarri illri meðferð í 141 landi um heim allan.
Í sumum löndum heyra pyndingar til undantekninga en í öðrum eru þær notaðar kerfisbundið. Jafnvel eitt tilvik pyndinga og annarrar illrar meðferðar er óviðunandi.
Alþjóðlegar rannsóknir, gögn og skráningar Amnesty International síðastliðna fimm áratugi um slík brot sýna fram á að pyndingar þrífast enn.





