Fimm algengar mýtur um pyndingar


Hér má lesa um fimm algengar mýtur um pyndingar

Bann við pynd­ingum er algilt og nær til allra ríkja, óháð því hvort þau hafa samþykkt alþjóðasáttmála sem banna pynd­ingar.

1. Pynd­ingum er aðallega beitt gegn þeim sem eru grunaðir um hryðjuverk eða í stríði

Rann­sókn Amnesty International sýnir að pyndingar og önnur ill meðferð er enn vandamál í mörgum löndum sem standa frammi fyrir raun­veru­legri eða ímynd­aðri ógn við þjóðaröryggi, þar með talið hryðju­verkum.

Hins vegar hefur áherslan á pynd­ingar og aðra illa meðferð í hinu svokallaða „stríði gegn hryðjuverkum“ hjá bandarískum stjórn­völdum í upphafi aldar­innar skekkt heims­myndina. Rannsókn Amnesty Internati­onal sýnir greini­lega að flestir þolendur pynd­inga og annarrar illrar meðferðar á heimsvísu eru ekki hættu­legir hryðju­verkamenn heldur fátækt, lítilsvirt og vanmáttugt fólk sem grunað er um glæp og fær því miður sjaldan athygli fjölmiðla eða almenn­ings í heimalandi sínu eða á heimsvísu.

Raun­veru­legir eða ímynd­aðir póli­tískir „óvinir“ stjórn­valda sem hafa aldrei borið sprengju eða önnur vopn, þar með taldir mannréttindafrömuðir, pólitískir stjórn­arand­stæð­ingar og fjölmiðlafólk, eru tíðir þolendur pynd­inga.

Vissu­lega er pynd­ingum enn beitt í tengslum við stríðið gegn hryðju­verkum en jafnvel þá er þeim helst beitt til að gera óvininn ómennskan: Raun­veru­leikinn lítur ekki út eins og í þætt­inum „24“ eða mynd­inni „Zero Dark Thirty“.

Á alþjóða­vísu eru flestir þolendur ekki beittir pyndingum vegna þess að þeir eru taldir hryðju­verkamenn heldur vegna þess að þeir eru fátækir, öðru­vísi eða dirfast að vera á öndverðum meiði við ríkisstjórnina. Hver sem ástæðan er þá er bann við pynd­ingum og annarri illri meðferð algilt. Pyndingar eru aldrei rétt­læt­an­legar, óháð því hver þú ert eða hvað þú hefur gert.

2. Pynd­ingar eru eina leiðin til að ná fram upplýsingum

Pynd­ingar eru frumstætt og bitlaust vopn til að ná fram upplýs­ingum. Ríki hafa fjöl­margar mann­úðlegar leiðir til að safna upplýs­ingum um bæði framda og fyrir­hugaða glæpi. Einkum hefur mannúðleg yfir­heyrslutækni reynst vera áhrifarík leið til að ná fram upplýs­ingum um glæpi án þess að það hafi hrikalegar afleið­ingar persónu­lega, félagslega eða laga­lega.

3. Sumar pyndingaraðferðir eru ekki svo slæmar

Pynd­ingar er ekki hægt að flokka eftir stigum. Laga­lega eru pynd­ingar skil­greindar sem verkn­aður sem veldur miklum sárs­auka eða þjáningum, líkam­legum jafnt sem andlegum, og er beitt með vilja til að refsa eða ná fram upplýs­ingum. Engar pyndingar eru „mildar“.

Allar gerðir pynd­inga eru fyrir­lit­legar og ólög­legar, að meðtöldu rafstuði, barsmíðum, nauðg­unum, niður­læg­ingu, svið­settum aftökum, bruna, svefnsviptingu, vatns­pyndingum, óþægi­legum álagsstellingum lang­tímum saman, notkun nagl­bíta, lyfja og hunda. Því miður er öllum þessum aðferðum beitt í löndum víðs vegar um heim.

4. Í sumum tilfellum þjóna pynd­ingar almanna­heill

Nei, pynd­ingar eru aldrei löglegar eða ásætt­an­legar. Þau lönd sem bregðast því að sækja fólk til saka fyrir pynd­ingar brjóta alþjóð­lega samþykkta staðla.

Laga­lega séð er bann við pynd­ingum og annarri illri meðferð algilt, undir öllum kring­um­stæðum án undan­tekn­inga. Ekki er hægt að slaka á banninu þó að um neyð­ar­ástand sé að ræða. Bannið hefur náð það sterkri alþjóðlegri einingu að það nær einnig til þeirra landa sem hafa ekki gerst aðilar að viðeigandi sátt­málum.

Þrátt fyrir það halda stjórn­völd áfram pyndingum af ýmsum ástæðum en aðal­lega vegna þess að þær gagnast þeim, eða svo telja þau, og hinir ábyrgu eru sjaldan dregnir fyrir dóm. Mikið verk er enn fyrir höndum til að binda enda á þennan hroðalega verknað.

5. Aðeins nokkrar af verstu stjórnvöldum beita pynd­ingum

Á tímabilinu 2009-2013 greindi Amnesty International frá pynd­ingum og annarri illri meðferð í 141 landi um heim allan.

Í sumum löndum heyra pynd­ingar til undan­tekn­inga en í öðrum eru þær notaðar kerf­is­bundið. Jafnvel eitt tilvik pynd­inga og annarrar illrar meðferðar er óvið­unandi.

Alþjóð­legar rann­sóknir, gögn og skrán­ingar Amnesty Internati­onal síðast­liðna fimm áratugi um slík brot sýna fram á að pynd­ingar þrífast enn.  


FYLGDU OKKUR Á SAMFÉLAGSMIÐLUM