fimm pyndingartól sem þarf að banna


Banna þarf pyndingartól

Því miður eru pyndingar algengar í mörgum löndum. Þó að pyndingar séu bannaðar á alþjóðavísu eru pyndingartól enn þá markaðssett og seld um heim allan. Á alþjóðlegum vopna- og öryggissýningum geta stjórnvöld skoðað tól sem eru framleidd í þeim eina tilgangi að valda ótta og sársauka.

Það er tími til kominn að banna þessi hræðilegu tól. Fyrirtæki eiga ekki að græða á sársauka og þjáningum fólks. Amnesty International kallar eftir því að ríki á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna samþykki ályktun og vinni að því að útbúa regluverk til að banna pyndingartól að fullu.

Reynslusaga

Fangi í Bandaríkjunum lýsti því hvernig var að fá rafstraum frá beltinu:

„Sársaukinn var svo mikill að ég hélt að ég væri í raun og veru að deyja.“

Gaddakylfur

Hvað eru gaddakylfur?

Kylfur sem eru með göddum úr málmi eða hörðu plasti eru hannaðar til þess eins að valda sársauka og þjáningum. Sumar kylfur hafa gadda út um allt en aðrar aðeins á efsta hlutanum. Við löggæslu þjóna þessi vopn engum öðrum tilgangi en að pynda og beita illri meðferð.

Hverjir eru að selja gaddakylfur?

Kína er aðalframleiðandi þessa pyndingartóls. Evrópusambandið hefur bannað allan inn- og útflutning og kynningu á gaddakylfum í Evrópulöndum á grundvelli þess að þær séu hannaðar til að valda þjáningum og eru ekki áhrifaríkari en venjulegar kylfur í uppþotum eða í sjálfsvörn.

Hverjir eru að kaupa gaddakylfur?

Þrátt fyrir bann Evrópusambandsins fann rannsakandi Amnesty International gaddakylfur til sölu í París á vopnasýningu árið 2017 ásamt öðrum tólum sem eru einnig ólögleg.

Reynslusaga

Lögreglan í Kambódíu er sögð beita gaddakylfum og þær hafa einnig verið fluttar til öryggissveita í Nepal og Tælandi.

Í júní 2003 skrásetti Mannréttindanefnd Asíu (e. Asian Human Rights Commission – AHRC) mál Ramesh Sharma sem missti hægra augað eftir að hafa verið barinn með járngaddakylfu af lögreglu í Katmandú.

Rafkylfur

Hvað eru rafkylfur?

Rafkylfur gefa frá sér öflugan rafstraum. Rafkylfur og önnur rafvopn eins og rafbyssur og rafskjöldur gera lögreglu auðvelt fyrir að valda verulegum sársauka með einum hnappi, jafnvel rafstraumi á viðkvæma líkamshluta. Hægt er að gefa rafstuð ítrekað án þess að það skilji eftir sig varanleg líkamleg ummerki. Þess vegna eru rafkylfur eitt vinsælasta pyndingartólið og hefur Amnesty International skráð beitingu þeirra um heim allan.

Hverjir eru að selja rafkylfur?

Rafkylfur eru framleiddar og notaðar víða í Kína en Omega Research Foundation hefur einnig skráð nokkur fyrirtæki staðsett í Evrópusambandinu sem framleiðendur. Omega fann fyrirtæki í Rússlandi skráðan söluaðila og sölufulltrúa í mörgum ríkjum, meðal annars í Hvíta-Rússlandi, Kasakstan, Úkraínu, Íran, Ísrael, Sádi-Arabíu, Suður-Afríku og Víetnam.

Hverjir eru að kaupa rafkylfur?

Amnesty International og aðrir hafa skráð notkun rafkylfna í löndum víða um heim, þar á meðal í Kirgistan, á Filippseyjum, í Rússlandi og Kína.

Reynslusaga

Amnesty International hefur skráð tilvik þar sem ítalska lögreglan beitti ítrekað rafkylfum gegn farand- og flóttafólki, einkum til að þvinga fólk til að gefa fingraför sín á lögreglustöðvum. Einn 16 ára strákur frá Súdan sagði Amnesty International sögu sína:

„Eftir þrjá daga fóru þeir með mig í „rafmagnsherbergið“. Þar var mér gefið rafstuð með kylfu, mörgum sinnum á vinstri fótlegg og síðan á hægri fótlegg, bringu og maga. Ég var of máttvana, ég gat ekki streist á móti.“

Stólar með fjötrum

Hvað eru stólar með fjötrum?

Fangar eru festir í stólum sem eru með margs konar fjötrum og handjárnum og eru festir við stólinn á mörgum stöðum, við úlnliði, olnboga, axlir, bringu, mitti, læri og/eða ökkla. Þessir stólar eiga ekki að vera notaðir í löggæslu þar sem hægt er að beita öðrum aðferðum sem valda ekki skaða. Ef einstaklingur er látinn sitja lengi eftirlitslaus í stólnum getur það leitt til alvarlegra áverka og dauða. Stólum með fjötrum er oft beitt með öðrum pyndingaraðferðum og annarri illri meðferð, til dæmis til að þvinga mat ofan í viðkomandi eða berja með rafkylfu.

Hverjir selja stóla með fjötrum?

Kínversk fyrirtæki hafa markaðssett slíka stóla til löggæslustofnana innanlands. Einnig eru stólarnir framleiddir í Bandaríkjunum og notkun þeirra hefur verið skráð í tengslum við misbeitingu í fangabúðum í Gvantanamó.

Hverjir eru að kaupa stóla með fjötrum?

Amnesty International hefur skráð tilfelli um notkun þeirra í kínverskum fangelsum og af löggæsluaðilum sem beita þeim á niðurlægjandi og sársaukafullan hátt. Árið 2016 var birt hrollvekjandi myndband af unglingi sem var með poka yfir höfuðið og fastur í stól með fjötrum í norðurhluta Ástralíu. Eftir alþjóðleg mótmæli hætti Ástralía notkun þessara stóla í unglingafangelsum en það er áfram leyft í fangelsum fyrir fullorðna.

Reynslusaga

Tang Jitian, fyrrum saksóknari og lögfræðingur í Peking, greindi Amnesty International frá því þegar hann var pyndaður af öryggisgæsluaðilum í mars 2014.

„Ég var festur við járnstól, sleginn í andlitið, sparkað í fæturna og barinn svo fast í höfuðið með plastflösku fullri af vatni að ég missti meðvitund.“

Rafbelti

Hvað eru rafbelti?

Rafbelti gefa frá sér mikinn rafstraum í gegnum rafskaut sem eru sett nálægt nýrum og valda gífurlegum sársauka. Sumir fangar hafa þurft að bera beltið tímunum saman undir stöðugum ótta við að kveikt verði á því með fjarstýringu. Önnur líkamleg áhrif frá rafbeltum geta verið þróttleysi í vöðvum, ósjálfrátt þvag- og saurlát, hjartsláttatruflanir, flog og bólgurákir á húð.

Hverjir selja rafbelti?

Rafbelti og annar tækjabúnaður sem hægt er að bera (eins og vesti) eru framleidd af fyrirtækjum um heim allan. Vitað er um framleiðendur í Bandaríkjunum, Suður-Afríku, Singapúr og Kína og birgðasala í löndum eins og Indlandi og Ísrael.

Hverjr eru að kaupa rafbelti?

Þetta tæki hefur verið notað í sumum löndum til að hafa stjórn á föngum, til dæmis í Suður-Afríku og nokkrum fylkjum Bandaríkjanna.

Hálsfjötrar

Hvað eru hálsfjötrar?

Hálsfjötrar eru fjötrar sem eru festir um hálsinn og stundum er einnig hægt að festa þær við fjötra á úlnliðum. Þessar ólar valda sársauka en eru einnig niðurlægjandi og hættulegar. Þrýstingur á hálsinn getur skaðað kokið eða valdið köfnun.

Hverjir eru að selja hálsfjötra?

Rannsókn Amnesty International í samstarfi við Omega Research Foundation sýndi að að minnsta kosti eitt kínverskt fyrirtæki framleiddi þessa hálsfjötra.

Hverjir eru að kaupa hálsfjötra?

Í rannsókn okkar kemur fram að hálsólar hafa verið markaðssettar til kínverskra löggæsluaðila. Það er verulegt áhyggjuefni þar sem ásakanir um pyndingar kínverskra stjórnvalda eru algengar. Þjóðarbrot í minnihluta og baráttufólk fyrir mannréttindum eru í mestri hættu.

Skref í rétta átt

Árið 2006, eftir margra ára baráttu Amnesty International og Omega Research Foundation, innleiddi Evrópusambandið fyrsta lagalega bindandi regluverkið til að ná stjórn á viðskiptum á „pyndingartólum“. Baráttan heldur áfram og er nú kallað eftir slíku alþjóðlegu regluverki.

Sameinuðu þjóðirnar tóku mikilvægt skref í átt að banni við pyndingartólum í lok maí 2022 með útgáfu á skýrslu sérfræðinga. Þessi skýrsla getur rutt veginn fyrir laga­lega bind­andi alþjóðasamningi og er því þýðing­ar­mikill áfangi. Alls­herj­ar­þing Sameinuðu þjóð­anna bað sérfræðingahóp stjórn­valda um að kanna nýjar leiðir til að koma á reglum um pynd­ing­artól árið 2021 en það eru ekki til neinar mann­rétt­inda­mið­aðar alþjóðlegar reglur um viðskipti með slík tól. Sérfræð­inga­hóp­urinn segir að slíkt bann geti verið „fyrirbyggj­andi til að hindra mannréttindabrot“. 

Amnesty Internati­onal kallar eftir afdráttarlausu banni við pynd­ing­ar­tólum og fagnar meðal annars þeim tilmælum í skýrsl­unni um að alþjóðastaðlar verði að banna fram­leiðslu og viðskipti á tólum sem eru í grunninn grimmileg löggæslutól.



FYLGDU OKKUR Á SAMFÉLAGSMIÐLUM