Réttindi hinsegin fólks
Hinsegin réttindi
Hinsegin er regnhlífarhugtak yfir allt það fólk sem er ekki gagnkynhneigt og/eða fellur ekki að viðmiðum samfélagsins um hefðbundið kyn.
Um heim allan verður fólk fyrir mismunun og árásum sökum þess hvern það elskar, hvernig það kýs að tjá kyn sitt eða upplifir það, og í raun fyrir að vera það sjálft!
Birtingarmyndir þess geta verið margs konar og má þar nefna uppnefningar, einelti, erfiðleikar að fá vinnu og viðeigandi heilbrigðisþjónustu. Stundum getur mismunun ógnað lífi hinsegin fólks. Í fjölmörgum tilfellum verður hinsegin fólk fyrir áreitni á götum úti, sætir barsmíðum og er jafnvel myrt, einungis fyrir að vera það sjálft.
Mismununin sem hinsegin fólk verður fyrir kann að byggja á:
- Kynheigð: Hverjum þú laðast að kynferðislega og tilfinningalega.
- Kynvitund: Upplifun fólks af eigin kyni. Kynvitund hefur ekki með kynfæri, líffræði eða útlit að gera.
- Kyntjáningu: Hvernig þú tjáir kyn þitt, til dæmis með klæðaburði, hárgreiðslu og líkamstjáningu.
- Líffræðilegum kyneinkenni: Hormónastarfsemi, kynkirtlar, kynlitningar, kyn- og æxlunarfæri. Intersex fólk hefur ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni.
Skýrsla Amnesty International
No shame in Diversity: The right to health for people with variations of sex characteristics in Iceland
Staða intersex fólks innan heilbrigðiskerfisins á Íslandi
Ofbeldi ríkisvaldsins gegn hinsegin fólki
Við öll erum vernduð gegn mismunun á grundvelli kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar og líffræðilegum kyneinkennum samkvæmt alþjóðalögum.
Samt sem áður hafa mörg lönd sem hafa skrifað undir alþjóðlega mannréttindasamninga innleitt lög sem mismuna einstaklingum á grundvelli þess.
Í heiminum eru 64 lönd sem banna samkynhneigð en mörg þessara laga eiga uppruna sinn frá nýlendutímum Evrópu.
Dauðarefsing getur legið við kynferðislegu samneyti fólks af sama kyni í nokkrum löndum eins og Íran, Sádí-Arabíu, Jemen, Súdan, Brunei, Úganda, Máritaníu og sumum svæðum í Nígeríu.

Árangur
Sameiginlegt erfiði og þrautseigja aðgerðasinna og samtaka um heim allan hefur skilað raunverulegum árangri.
Í byrjun árs 2025 hafa 38 lönd samþykkt samkynja hjónaband í lögum. Þeirra á meðal eru Argentína, Kanada, Írland, Malta, Suður-Afríka, Úrúgvæ og Ísland.
Taívan varð fyrsti staðurinn í Asíu til að lögleiða samkynja hjónaband 2019. Kosta Ríka varð fyrsta ríkið í Mið-Ameríku til að samþykkja samkynja hjónaband árið 2020.
Í byrjun árs 2025 tóku í gildi lög um lögleiðingu samkynja hjónabands í tveimur löndum: Liechtenstein og Taílandi.
Intersex fólk
Intersex einstaklingur fæðist með ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni sem falla ekki undir dæmigerð kyneinkenni konu eða karlmanns. Áætlað er að 1,7% einstaklinga á heimsvísu fæðist með ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni.
Intersex er regnhlífarhugtak sem nær yfir fólk sem er ekki hægt að flokka líffræðilega sem annaðhvort karl- eða kvenkyns. Sum ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni eru sjáanleg strax við fæðingu, önnur koma í ljós við kynþroskaaldurinn, þegar reynt er að geta barn eða uppgötvast fyrir hreina tilviljun.
Sumir þessara einstaklinga kjósa að lýsa sér sem „intersex“, aðrir ekki. Mikilvægt er að intersex fólk fái sjálft að ákveða sitt kyn, rétt eins og annað fólk, og þá hvort og hvernig læknisfræðilegar aðgerðir það vilji gangast undir.

Trans fólk

Trans er regnhlífarheiti yfir fólk sem fer út fyrir það sem er talið hefðbundið kyn. Sumt fólk upplifir sig sem karla, sumt upplifir sig sem konur, sumt upplifir sig sem blöndu af hvoru tveggja, annað upplifir sig hvorki sem konu né karl.
Mikilvægt er að hafa í huga að trans einstaklingar leita sér ekki allir heilbrigðisþjónustu og þeir sem leita sér hennar gangast ekki allir undir sama ferlið. Sumt trans fólk óskar þess ekki að gangast undir kynfæraaðgerð þó það gangist undir hormónameðferð og aðrir vilja undirgangast hvorugt.
Það að vera trans hefur ekkert með kynhneigð að gera. Þú getur verið trans karlmaður og laðast að öðrum karlmönnum og þú getur verið trans kona og laðast að öðrum konum.
Viðurkenning á kyni
Bæði trans- og intersex fólk sætir mismunun og upplifir neikvæð áhrif af kynbundnum staðalímyndum, trans fólk vegna þess að kynvitund þess er á skjön við það kyn sem því er úthlutað við fæðingu og intersex fólk vegna þess að líkamar þess eru ekki í samræmi við dæmigerð einkenni karla og kvenna.
Í sumum löndum fær trans fólk lagalega viðurkenningu á kyni sínu. Víða þarf það að gangast undir niðurlægjandi ferli í þessum tilgangi, meðal annars til að fá greiningu og mat frá sálfræðingi og/eða geðlækni á kynáttunarvanda og að gangast undir óafturkræfa ófrjósemisaðgerð sem brýtur gegn mannréttindum þess.
Að skylda trans fólk til að gangast undir ónauðsynlegar læknismeðferðir til að fá lagalega viðurkenningu á kyni sínu er brot á réttinum til bestu mögulegu heilsu samkvæmt alþjóðalögum, til að mynda í samningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Mikilvægt er fyrir trans fólk að fá skilríki í samræmi við kynvitund sína, ekki aðeins til að ferðast heldur einnig fyrir daglegt líf.
Á Íslandi tóku ný lög nr. 80/2019 gildi í júní 2019 en meginbreytingin sem þeim fylgir er sú að trans fólki verður frjálst að gera breytingar á kynskráningu sinni án þess að þurfa fyrst greiningu á svokölluðum „kynáttunarvanda” af hálfu heilbrigðiskerfisins með tilheyrandi biðtíma og óvissu. Áður þurftu einstaklingar að vera undir eftirliti teymisins í 18 mánuði og lifa í „gagnstæðu kynhlutverki“ í ár áður en þeir gátu breytt kyni og nafni og kyni í Þjóðskrá.
Gleðiganga
Gleðiganga (e. Pride) þjónar því hlutverki að fagna fjölbreytileikanum en er líka kröfuganga um að vernda og virða réttindi hinsegin fólks. Oft eru viðburðir tengdir gleðigöngu skipulagðir út árið í ýmsum löndum, allt eftir landsvæðum. Í Bandaríkjunum og Evrópu hefst tímabilið oft í júní en í Suður-Afríku varir tímabilið frá febrúar til mars. Á Íslandi er gangan í ágúst og hefur vaxið og dafnað frá því að fyrsta gangan var gengin árið 2000.
Upphaf hennar má rekja til uppreisnar gegn lögregluofbeldi á hinsegin barnum Stonewell Inn í New York í Bandaríkjunum. Lögregla réðst inn á barinn þann 28. júní 1969 sem leiddi til nokkurra daga átaka milli hinsegin samfélagsins og lögreglunnar. Réttindabarátta hinsegin fólks í Bandaríkjunum varð í kjölfarið öflugri.
Gleðiganga er þó bönnuð í nokkrum löndum, þar á meðal í Rússlandi, Sádi-Arabíu, Úganda og Tyrklandi. Hert lög voru sett á í Ungverjalandi 2025 sem beindust gegn gleðigöngunni. Fjöldi fólks mætti þó á gleðigönguna í Búdapest sama ár í mótmælaskyni.

Hvað er Amnesty International að gera?
Amnesty berst gegn allri þeirri mismunun sem hinsegin fólk kann að verða fyrir, hvar sem er í heiminum.
Við hlustum á reynslu hinsegin fólks og leggjum fram tilmæli til stjórnvalda og annarra áhrifamikilla leiðtoga til að bæta löggjöf. Má þar nefna að rannsókn okkar á réttindum intersex fólks var sú fyrsta sinnar tegundar með mannréttindamiðaðri nálgun og hafði áhrif á að ný lög voru sett á hér á Íslandi, í Danmörku, Finnlandi, Grikklandi og Noregi. Amnesty International gerði fyrstu rannsóknina í Danmörku og Þýskalandi og í kjölfarið var gerð rannsókn á Íslandi.
Þrátt fyrir að enginn vafi leiki á því að margt hefur áunnist í baráttu hinsegin fólks er enn langt í land og mikil vinna er fyrir höndum. Amnesty International vinnur ötullega með aðgerðasinnum um allan heim að hinum ýmsu baráttumálum hinsegin fólks með því að þrýsta á stjórnvöld sem brjóta á mannréttindum þessa hóps, með söfnun undirskrifta, mótmælafundum, rannsóknum, þátttöku í gleðigöngum og fræðslustarfi svo fátt eitt sé nefnt.
„Við erum að tala um að skorið er í viðkvæma vefi sem hefur afleiðingar til lífstíðar, allt vegna staðalímynda um hvernig stúlkur eða strákar eiga að líta út. Spurningin er, í hverra þágu er inngripið, því rannsókn okkar sýnir að þetta er skelfileg lífsreynsla fyrir þá sem fyrir því verða.“
Laura Carter, rannsakandi hjá Amnesty International um stöðu intersex fólks.
Rannsókn Amnesty Interntional
FIRST, DO NO HARM
Skýrsla Amnesty International um stöðu intersex fólks í Danmörku og Þýskalandi





