Sýrland


Uppreisn gegn kúgun

Í mars 2011 gerðu Sýrlendingar uppreisn þar sem þeir söfnuðust saman og kröfðust umbóta og frelsis frá kúgun stjórnvalda. Stjórnvöld brugðust við af hörku sem endaði í hrikalegum vopnuðum átökum fram til ársins 2024. Ríkisstjórn Bashar al-Assad var steypt af stóli 8. desember 2024 og endaði þar með 54 ára einræðistíð Assad-fjölskyldunnar í Sýrlandi. 

Hundruð þúsunda einstaklinga voru drepin og milljónir flúðu heimili sín á þessu tímabili. Stjórnvöld beittu fjöldahandtökum að geðþótta og þvinguðum mannshvörfum til að brjóta niður alla andstöðu.  

Frá árinu 2011 er áætlað að um 100 þúsund einstaklingar í Sýrlandi hafi horfið. Langstærsti hluti þeirra bar ríkisstjórn Assad ábyrgð á. Vopnaðir stjórnarandstöðuhópur báru einnig ábyrgð á hvarfi þúsunda einstaklinga, meðal annars Hay’at Tahrir al-Sham (HTS) og Íslamska ríkið, Syrian Democratic Forces (SDF) og og vopnaður hópur sjálfstæðra yfirvalda í norður- og austurhluta Sýrlands.  

RIFF kvikmyndahátíðin 2025

5 SEASON OF REVOLUTION

Heimildarmynd sýnd í boði Amnesty International

Þvingað mannshvarf

Skilgreining

Þvingað mannshvarf á við þegar yfirvöld eða aðilar á þeirra vegum handtaka einstakling en þvertaka fyrir það eða neita að gefa upp upplýsingar um hvar viðkomandi er í haldi eða hvað hefur orðið um hann.

Það þýðir að einstaklingurinn nýtur engra lagalegra réttinda í haldi.

Þetta hugtak á við um ríkisfulltrúa, þeirra á meðal sýrlensk stjórnvöld en einnig líka við byltingarstjórn, líkt og sjálfstæð yfirvöld í norður- og austurhluta Sýrland.

Mannshvörf er víðtækara hugtak sem nær þá líka yfir vopnaða hópa ótengdum stjórnvöldum þar sem þvinguð mannshvörf eiga aðeins við þegar stjórnvöld eiga með einhverjum hætti þátt í mannshvörfunum.

Þvingað mannshvarf getur talist sem stríðsglæpur í stríðsátökum og glæpur gegn mannúð ef því er beitt með víðtækum eða kerfisbundnum hætti gegn óbreyttum borgurum.

Kúgunaraðferð

Amnesty International hefur skráð fjölmörg tilfelli af pyndingum, þvinguðum mannshvörfum og fjöldamorðum sem hluta af kerfisbundnum árásum gegn óbreyttum borgurum og teljast til glæpa gegn mannúð sem áttu sér stað undir stjórn Assad. Þvinguðum mannshvörfum var beitt til að brjóta niður andstöðu og þeim beitt meðal annars gegn aðgerðasinnum, mótmælendum, fjölmiðlafólki, læknum, nemendum og mannúðarstarfsfólki. 

Sumir voru þó aðeins á röngum stað, á röngum tíma og voru handteknir af handahófi eða vegna þess að einstaklingar höfðu tilkynnt þá til yfirvalda og sakað þá um andstöðu eða grunsamlegt athæfi. Árið 2017 í skýrslu Amnesty International um Saydnaya-herfangelsið var greint frá því að ríkisstjórn Assad hafi tekið þúsundir einstaklinga í varðhaldi af lífi án dóms og laga.  

ACT NOW

MAIN CALL TO ACTION

Fall ríkisstjórnar Assad

Í nóvember 2024 hófu vopnuðu stjórnarandstöðuhóparnir HTS og SNA í bandalagi við aðra vopnaða hópa, hernaðarsókn og náðu fyrst yfirhöndinni í Aleppo og að lokum höfuðborginni Damaskus sem leiddi til þess að Bashar al-Assad forseti landsins og fjölskylda hans flúðu land þann 8. desember. Þann 29. janúar 2025 var Ahmed al-Sharaa, fyrrum leiðtogi HTS, útnefndur bráðabirgðaforseti af hersveit hernaðaraðgerða Sýrlands. Í lok mars 2025 var ný ríkisstjórn mynduð undir stjórn al-Sharaa forseta. Í maí 2025 setti forsetinn á laggirnar tvær nefndir um mannshvörf. 

Þegar vopnaðir stjórnarandstöðuhópar náðu yfirráðum leystu þeir einstaklinga úr haldi í varðhaldsmiðstöðvum á vegum ríkisstjórnar Assad. Opnun fangelsa, þar á meðal alræmda Saydnaya-herfangelsisins við Damaskus, var bæði tákn fyrir endalok þessarar kúgunaraðferðar stjórnvalda og fall Assad-fjölskyldunnar af valdastóli.

©OMAR HAJ KADOUR/AFP via Getty Image
Damaskus í Sýrlandi, 16. desember 2024. Fjölskyldur leita að skilríkjum ástvina sinna sem fundust í byggingum og fangelsum á herflugvelli. ©Chris McGrath/Getty Images

Leit fjölskyldna

Fréttir um fanga sem voru frelsaðir spurðust út og margar fjölskyldur biðu í ofvæni eftir því hvort ástvinir þeirra væru á meðal þeirra sem höfðu lifað af. Fjölskyldur flykktust að fangelsum, varðhaldsmiðstöðvum, líkhúsum og fjöldagröfum í leit að ástvinum sínum.  

Þúsundir fanga losnuðu úr Sadnaya-herfangelsinu og öðrum fangelsum og varðhaldsmiðstöðvum á vegum ríkisstjórnar Assad. Engin mannúðaraðstoð beið þeirra en margir þeirra höfðu í áraraðir þolað hræðilegar aðstæður og sætt pyndingum. Margir þjáðust vegna líkamlegra og andlegra veikinda.  

Lausn fanga og fall ríkisstjórnarinnar veitti fjölskyldum þvingaðra mannshvarfa von en olli þeim einnig sársauka. Skortur var á tafarlausri og skipulagðri leit, mikið var um upplýsingaóreiðu og mörgum sönnunargögnum var eytt. Í ringulreiðinni í kjölfar 8. desember var fjölmörgum fangelsisskjölum stolið eða þau eyðilögð. Skjölin hefðu getað veitt upplýsingar um hvar horfnum ástvinum var haldið og hvort viðkomandi væri enn á lífi.

Mikilvægi þess að gera upp fortíðina

Fyrrum fangar sögðu Amnesty International að mikilvægt væri að fá skaðabætur og ná fram réttlæti til að lina þær kvalir  sem þeir hafi mátt þola eftir hryllinginn. Margir fundu fyrir skeytingarleysi eftir lausn þeirra og höfðu ekki efni á læknishjálp.  

Sýrlensk stjórnvöld bera höfuðábyrgð á að sannleikurinn komi í ljós, tryggja réttlæti og að veita skaðabætur og stuðning vegna þúsunda einstaklinga sem hurfu í Sýrlandi. 

Mikilvægt er að fá upplýsingar um örlög og staðsetningu allra einstaklinga sem hurfu, óháð því hvort það var af völdum stjórnvalda eða vopnaðra hópa, til að tryggja að fjölskyldur og þolendur fái að vita sannleikann, réttlætinu verði fullnægt og þau fái skaðabætur.  

Amnesty International styður fjölskyldur hinna horfnu þar til sýrlensk stjórnvöld hafa tryggt réttindi þeirra. Þrátt fyrir að ríkisstjórnin þurfi að takast á við efnahagslegar áskoranir og að öryggi í landinu fari versnandi vegna aukins ofbeldis milli mismunandi hópa í landinu þá verður samt sem áður að hefja strax leit að horfnum einstaklingum.  

Fjölskyldur halda á myndum af ástvinum sem hafa horfið.

 
„Eldurinn innra með okkur verður ekki slökktur fyrr en við vitum sannleikann. Við komum hingað til að krefjast réttlætis, til að gerendur verði dregnir til ábyrgðar. Réttlæti er samfélag sem er frjálst undan pyndingum, undan mannshvörfum og kúgun.“

Hiyam Burhan, eiginmaður hennar sætti þvinguðu mannshvarfi. 

Hvað þarf að gera?

Leitin að horfnum einstaklingum er flókin, krefst margskonar úrræða og er langvarandi verkefni. Grípa þarf til margs konar aðgerða af mismunandi aðilum og verulega skuldbindingu.

Leitin felst meðal annars í því að:

  • Safna, varðveita og greina gögn og skjöl frá fyrrum varðhaldsmiðstöðvum og fangelsum og bjarga gögnum úr símum, tölvum og eftirlitskerfum. 
  • Finna og grafa upp fjöldagrafir til að auðkenna líkamsleifar sem krefst sérfræðimenntunar í réttarlæknisfræði. 
  • Safna saman vitnisburði frá þolendum, fyrrum embættisfólki og öðrum einstaklingum með mikilvæga vitneskju. Bjóða þarf vernd í skiptum fyrir upplýsingarnar.  
  • Útbúa þarf miðlægan gagnagrunn um horfna einstaklinga. 
Tímalína
  • 1980-90
  • Stjórnvöld beita þvinguðum mannshvörfum sem kúgunaraðferð.
  • 2011: Byltingin í Sýrlandi hefst þar sem stjórnvöld hófu að beita þvinguðum mannshvörfum í massavís. 
  • 2011: Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna setur á laggirnar sjálfstæða alþjóðlega rannsóknarnefnd til að rannsaka brot Sýrlands á alþjóðalögum frá mars 2011. 
  • 2013 – 2024: Vopnaðir hópar ótengdir stjórnvöldum, þar á meðal Íslamska ríkið og HTS, beita mannshvörfum og morðum. 
  • 2014: Svokallaðar Ceasar-myndir eru birtar sem sýna víðtæka beitingu pyndinga, ómannúðlegar aðstæður og dauðsföll í Sýrlandi. 
  • 2016: Sameinuðu þjóðirnar setja á laggirnar IIIM (International, Impartial and Independent Mechanism) sem er sjálfstæður og óháður eftirlitsaðili og gegnir því hlutverki að aðstoða við að rannsaka og sækja til saka gerendur sem hafa brotið alvarlega gegn alþjóðalögum.  
  • 2017: Amnesty International kemst að þeirri niðurstöðu að glæpir gegn mannúð hafi verið framdir í Saydnaya-fangelsinu í skýrslunni „Human Slaughterhouse“. 
  • 2018: Stjórnvöld gefa út dánarvottorð fyrir fjölskyldur margra þolenda þvingaðra mannshvarfa. 
  • 2021: Fjöldagrafir í Najha og á öðrum stöðum eru taldar bera líkamsleifar fólks sem hvarf. 
  • 2023: Sameinuðu þjóðirnar setja á laggirnar IIMP (Independent Institution on Missing Persons in Syria) sem er sjálfstæð stofnun um horfna einstaklinga í Sýrlandi og til stuðnings fjölskyldum þeirra.  
  • 2024: Bashar al-Assad er steypt af valdastói og einstaklingar í haldi stjórnvalda eru frelsaðir.
  • 2025 Nefnd um mannshvörf innanlands er sett á laggirnar í Sýrlandi. 

FYLGDU OKKUR Á SAMFÉLAGSMIÐLUM