Tjáningar­frelsið


Verndun tjáningar

Tjáningarfrelsið er undirstaða lýðræðis og nauðsynlegt aðhald fyrir stjórnvöld. Mikilvægt er að fólk geti tjáð sig óttalaust og án þvingana eða ólögmætra afskipta ríkisvaldsins og þannig notið mannréttinda sinna í opnu  og sann­gjörnu samfélagi.

Tjáningarfrelsið felur í sér rétt til að deila upplýsingum, tjá pólítískar, trúarlegar, heimspekilegar eða aðrar skoðanir með friðsamlegum hætti í ýmsu tjáningarformi. Hvort sem það er í máli, ræðu, riti, tónlist, leik­riti, á netinu eða á öðrum opinberum vettvangi.

Tjáningarfrelsið felur einnig í sér réttinn til að tjá persónuleika sinn, meðal annars með klæðaburði, hegðan og látbragði.

Tjáningarfrelsið er verndað í 19. grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og felur í sér réttinn til að leita, taka við og miðla upplýs­ingum og hugmyndum með hvaða hætti sem er.

Tjáningarfrelsið eftir heimshlutum

Frelsi tengd tjáningarfrelsinu

Fjölmiðlafrelsi fellur undir tjáningarfrelsið. Fjölmiðlafrelsi er frelsi til að miðla upplýs­ingum og tjá skoð­anir í hinum ýmsum miðlum (sjónvarpi, útvarpi, hlað­varpi, prent­miðlum og netmiðlum). Fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki í að miðla upplýsingum til almennings. Frjáls fjölmiðlun er grundvöllur í samfélagi sem virðir mannréttindi.

Tjáningarfrelsið rennir einnig stoðum undir önnur mannréttindi eins og hugsana-, samvisku- og trúfrelsi og tryggir að hægt sé að njóta þessara réttinda.

Funda- og félagafrelsi er nátengt tjáningarfrelsinu. Í 20. grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna kemur skýrt fram að við höfum öll rétt á að koma saman með friðsamlegum hætti og mynda félög t.d. verkalýðs- og stjórnmálafélög. Það má þó ekki skylda okkur til að ganga í félag.

Rétturinn til að mótmæla er ekki skilgreindur í alþjóðalögum en nýtur verndar meðal annars á grundvelli fundafrelsis. Fundafrelsi tryggir rétt einstaklinga til að koma saman með friðsamlegum hætti og tjáningarfrelsið tryggir rétt mótmæl­enda til að koma skilaboðum á framfæri.

Mótmæli í Bangkok árið 2021.

Rétturinn til að mótmæla

Rétt­urinn til að mótmæla er ekki skilgreindur í alþjóðalögum en nýtur verndar meðal annars á grund­velli fundafrelsis. 

Fundafrelsið tryggir rétt einstaklinga til að koma saman með friðsamlegum hætti og tjáningarfrelsið tryggir rétt mótmæl­enda til að koma skila­boðum á framæri.

Frelsi til að kalla eftir breyt­ingum og magna slíkt ákall í fjöldahreyf­ingu er mikilvægt í opnu, lýðræð­is­legu og réttinda­miðuðu samfélagi. Mótmæli gera fólki kleift að tjá skoð­anir sínar, krefjast samfé­lags­um­bóta, benda á misrétti, krefjast rétt­lætis vegna mann­rétt­inda­brota og kalla eftir ábyrgð­ar­skyldu stjórnvalda.

Fyrir tilstilli mótmæla getur fólk sem sætt hefur þöggun eða valdníðslu endur­heimt rödd sína, styrk og póli­tískt vald. Mótmæli skapa einnig tæki­færi til að verja og styðja við rétt­indi annarra.

Þannig hefur rétt­urinn til að mótmæla um langa hríð verið mikilvægt vopn í mannréttindabaráttunni og leitt af sér stórkostlegar umbætur, ýmist í þágu tiltekinna hópa samfé­lagsins eða þjóð­fé­lagsins í heild sinni.

Rétturinn til að mótmæla

Alþjóðalög

Samkvæmt alþjóða­lögum eru takmark­anir á tján­ing­ar­frelsinu mjög afmark­aðar. Þessar takmark­anir verða að uppfylla þrenn skil­yrði:

  1. Hafa skýra skil­grein­ingu í lögum
  2. Vernda rétt­indi fólks eða almanna­heill
  3. Vera nauð­syn­legar og hóflegar

Ríkjum ber líka skylda til að banna hatursorð­ræðu sem felur í sér hvatn­ingu. Það á við um haturs­fulla orðræðu sem felur í sér áróður og hvatn­ingu til mismunar, fjand­skapar eða ofbeldis gagn­vart ákveðnum hópum. Hótanir gegn einstak­lingum teljast ekki hatursorð­ræða. Það er þó ekki til almenn viður­kennd skil­greining á hatursorð­ræðu í alþjóðalögum.

 Í 2. mgr. 20. gr. samningsins um borgaraleg og stjórn­málaleg rétt­indi (SBSR) stendur eftir­far­andi um hatursorð­ræðu:

„[Allur] málflutn­ingur til stuðn­ings haturs af þjóð­ernis-, kynþáttar- eða trúarbragðalegum toga spunnið sem felur í sér hvatn­ingu um mismunun, fjand­skap eða ofbeldi [skuli] bann­aður með lögum.“

Tjáning sem er móðg­andi, hneyksl­anleg, trufl­andi eða umdeil­anleg nýtur hins vegar verndar samkvæmt alþjóðalögum.

Brotið á tjáningarfrelsinu

Tjáningarfrelsið gildir um hugmyndir, skoðanir og hugsanir af öllum toga, einnig þær sem eru mjög óþægilegar eða móðgandi.

Víða um heim brjóta stjórnvöld í síauknum mæli á tjáningarfrelsinu og túlka skilgreininguna á „hvatningu til haturs“ mjög vítt til að þagga niður í friðsömum mótmælendum eða þeim sem sýna andóf í ræðu, riti, myndum eða með öðru tjáningarformi. Oft er það í nafni þjóðaröryggis, almannaheilla, menningararfs og baráttunnar gegn hryðjuverkum. Í raun er ætlunin að þagga niður í þeim sem gagnrýna stjórnvöld.

Víða eru hörð viðurlög við að tjá hug sinn. Margra ára fangavist eða háar fjársektir fyrir að gagnrýna stjórnvöld og í sumum tilfellum er fólk jafnvel tekið af lífi.

Kröfur Amnesty International

Amnesty International kallar eftir því að tjáningarfrelsið sé eflt og verndað.

  • Samviskufanga ber að leysa úr haldi skilyrðislaust og án tafar. Amnesty International skilgreinir hvern þann einstakling sem er í fangelsi fyrir það eitt að tjá hug sinn með friðsamlegum hætti sem samviskufanga.
  • Afnema skal refsiákvæði í lögum sem beinast gegn friðsamlegum mótmælendum eða þeim sem tjá hug sinn.
  • Einstaklingar skulu njóta réttar síns til að afla upplýsinga er varða almannahagsmuni en að ríkisstjórnir og fyrirtæki hafi takmarkað aðgengi að upplýsingum um einstaklinga og samtök til verndar friðhelgi einkalífs.
  • Stjórnvöld beiti ekki harkalegum aðgerðum gegn friðsömum mótmælendum.

FYLGDU OKKUR Á SAMFÉLAGSMIÐLUM