Málþing: Beiting einangrunarvistar í gæsluvarðhaldi

Í framhaldi af útgáfu skýrslu Amnesty International í janúar á þessu ári um beitingu einangrunarvistar í gæsluvarðhaldi á Íslandi, hélt deildin málþing í Þjóðminjasafninu þann 18. apríl síðastliðinn. Málþingið fór fram á ensku og bar yfirskriftina, Pre-trial solitary confinement in Iceland: Making progress in line with international obligations.

Fjölda hagaðila var boðið að koma saman og ræða breytingar sem þurfa að eiga sér stað til að Ísland geti staðið við alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar sínar í þessum efnum, hverjar helstu hindranirnar séu í dag og hvernig megi komast yfir þær.

Alls mættu 50 hagaðilar á málþingið en fimm einstaklingar frá mismunandi embættum og stofnunum hérlendis héldu erindi ásamt þremur erlendum sérfræðingum sem komu til landsins í boði Íslandsdeildar Amnesty International. Að erindum loknum fóru fram pallborðsumræður þar sem fyrirlesarar sátu fyrir svörum.

Louise Finer, breskur rannsakandi sem skrifaði skýrsluna fyrir Amnesty, fjallaði um hvaða áþreifanlegu skref íslensk stjórnvöld þyrftu að taka til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar sínar.

Peter Scharff Smith, félagsfræðingur við Háskólann í Osló, fjallaði um sögu einangrunarvistar á Norðurlöndunum og hvaða lærdóm mætti draga af beitingu hennar fyrr og nú.

Borys Wódz, lögfræðingur sem starfað hefur sem yfirmaður hjá Evrópunefnd um varnir gegn pyndingum og ómannlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu frá árinu 1996, greindi frá hvaða lærdóm Ísland gæti mögulega dregið af lagadrögum í Svíþjóð sem ætlað er að draga úr beitingu einangrunarvistar í gæsluvarðhaldi.

Málþingið gekk vonum framar. Íslensk yfirvöld lýstu yfir skýrum vilja til að koma á nauðsynlegum breytingum í lögum og framkvæmd sem tryggja betur réttindi frelsissvipts fólks í einangrun í gæsluvarðhaldi. Ber þar hæst að endurskoða beitingu þessa harðneskjulega úrræðis þegar um viðkvæma hópa ræðir, tryggja að takmörkunum sem hafa ekki jafn skaðleg áhrif sé frekar beitt, auknar kröfur séu settar um nauðsyn þegar kemur að framlengingu einangrunarvistar, koma á skýrri hlutverkaskipan um ábyrgð á mati á geðrænum vanda og sjá til þess að gæsluvarðhaldsfangar í einangrun fái bættari heilbrigðisþjónustu.

Íslandsdeild Amnesty International vill þakka öllum þeim fjölmörgu aðilum sem tóku þátt í málþinginu og bindur ríkar vonir við að í framhaldinu náist mannréttindamiðuð nálgun í málaflokknum í samræmi við alþjóðlegar skyldur Íslands.