Mannréttindabarátta: Íslandsdeild Amnesty International vekur athygli á heimsókn Mariselu Ortiz Rivera til Íslands

Marisela Ortiz Rivera mannréttindafrömuður frá Mexíkó flytur fyrirlestur 15. mars kl. 16:00 í stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands. Hún hefur á síðustu sex árum barist ötullega gegn refsileysi vegna kvennamorða í borginni Ciudad Juárez í Norður-Mexíkó, þar sem um 400 konur hafa verið myrtar á hrottalegan hátt á síðustu árum.

Marisela Ortiz Rivera mannréttindafrömuður frá Mexíkó heldur erindi 15. mars kl. 16:00 í stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands. Hún hefur á síðustu sex árum barist ötullega gegn refsileysi vegna kvennamorða í borginni Ciudad Juárez í Norður-Mexíkó, þar sem um 400 konur hafa verið myrtar á hrottalegan hátt á síðustu árum. Marisela Ortiz Rivera kemur til Íslands á vegum Íslandsdeildar Amnesty International.

Marisela Ortiz Rivera hefur barist hetjulega fyrir réttlæti í málum myrtu kvennanna í Ciudad Juárez þrátt fyrir mikið mótlæti. Hún hefur sætt ofsóknum og hótunum vegna baráttu sinnar. Árið 2003 gaf Amnesty International út skyndiaðgerðabeiðni þar sem félagar voru hvattir til að skrifa til stjórnvalda fyrir hennar hönd. Þá höfðu menn elt hana í tveimur bílum og hótað því að myrða hana og fjölskyldu hennar ef hún héldi áfram að tala opinskátt um morðin.

 

Árið 2001 fannst limlest lík hinnar 17 ára Lilia Alejandra García Andrade á yfirgefnu svæði í borginni Ciudad Juárez í Norður-Mexíkó. Marisela Ortiz Rivera var kennari Liliu, hún og móðir stúlkunnar, Norma Andrade, stofnuðu í kjölfarið samtökin Nuestras Hijas de Regreso a Casa til að berjast gegn refsileysi í málum fjölmargra kvenna sem hlotið hafa sömu örlög og Lilia Alejandra García Andrade.

 

Bakgrunnur

 

Árið 1993 hófst alda morða í borginni Ciudad Juárez, sem ekki sér enn fyrir endann á. 400 konur hafa horfið og fundist síðar myrtar. Óþekktur fjöldi kvenna hefur horfið sporlaust. Flest fórnarlambanna eru stúlkur og konur á aldrinum 13-22 ára og meirihluti þeirra stundar nám eða starfar í verksmiðjum fjölþjóðlegra fyrirtækja í borginni. Fimmtungur kvennanna þurfti að sæta kynferðisofbeldi og/eða limlestingum áður en þær voru myrtar. Morðin á konunum í Ciudad Juárez er því ein hræðilegasta birtingarmynd kynbundins ofbeldis í heiminum.

 

Þrátt fyrir það hefur almennt refsileysi ríkt í málum fórnarlambanna. Morðingjarnir hafa í fæstum tilfellum fundist. Einnig er efast um sekt þeirra fáu einstaklinga sem hafa hlotið dóm þar sem grunur leikur á að þeir hafi verið pyndaðir til að játa á sig sekt. Rannsóknir hafa ennfremur leitt í ljós að allt að 170 lögreglumenn er grunaðir um alvarleg afglöp í starfi. Enginn þeirra hefur þó verið sóttur til saka. Þrátt fyrir loforð stjórnvalda um að taka á málum af festu bendir flest til þess að morðunum verði stungið undir stól án þess að réttlætið nái fram að ganga.