Mannréttindabrot: Dæmi úr ársskýrslu Amnesty International 2008

Þann 7. september 2007 réðust þrír vopnaðir menn á Flora Igoki Tera, sem var í framboði í Meru-héraði í Mið-Kenía. Þeir börðu hana, neyddu hana til að éta mannasaur og hún vöruð við að hafa afskipti af stjórnmálum.

Andóf bælt niður / skoðanakúgun

Kenía:

Þann 7. september 2007 réðust þrír vopnaðir menn á Flora Igoki Tera, sem var í framboði í Meru-héraði í Mið-Kenía. Þeir börðu hana, neyddu hana til að éta mannasaur og hún vöruð við að hafa afskipti af stjórnmálum. Lögregla hefur sagt að rannsókn á málinu standi yfir en enginn hafði sætt ákæru í árslok 2007.

Egyptaland

Í febrúar 2007 varð Karim Amer fyrsti bloggarinn í Egyptalandi sem fangelsaður var fyrir friðsamlega tjáningu skoðana sinna. Áfrýjunarréttur staðfesti fjögurra ára fangelsisdóm yfir honum í mars. Hann er samviskufangi. Meðal ákæranna gegn honum var meðal annars að hann hefði miðlað upplýsingum í þeim tilgangi að raska almannareglu og skaða álit landsins, hvatt til haturs á íslam og vanvirt forsetann.

Brasilía

Kuretê Lopes, 69 ára frumbyggi, dó þegar öryggisvörður skaut hana meðan verið var að bera hana og aðra út af jörðum sem Guarani-Kaiowá ættbálkurinn telur land forfeðra sinna. Í september 2007 voru fjórir leiðtogar Guarani-Kaiowá ættbálksins dæmdir í 17 ára fangelsi fyrir meintan stuld á dráttarvél. Félagasamtök í landinu hafa lýst því yfir að þau telji refsinguna í ósamræmi við afbrotið, hún feli í sér mismunun og sé af pólitískum toga runnin. Í árslok 2007 var verið að vinna að áfrýjun málsins.

Ónóg vernd fyrir farandfólk og hælisleitendur

Marokkó/Vestur-Sahara

Aðfaranótt 31. júlí 2007 drap lögregla tvo farandverkamenn frá Senegal, þá Aboubakr Sedjou og Siradjo Kébe og særði þrjá aðra nálægt Laayoune í Vestur-Sahara. Þeir voru í hópi 30 farandverkamanna sem stjórnvöld segja að hafi reynt að ná til strandar til að komast til Kanaríeyja og hafi neitað að nema staðar þegar þeim var skipað að gera það. Stjórnvöld lýstu því yfir að rannsókn yrði gerð á þessum drápum, en ekki er vitað hverjar niðurstöður hennar eru.

Spánn

Þann 9. júní 2007 dó nígerískur ríkisborgari, Osamuyia Akpitaye, meðan reynt var að vísa honum úr landi með valdi. Að sögn sjónarvotta bundu lögreglumennirnir tveir sem fylgdu honum í fluginu frá Madrid til Lagos hendur hans og fætur og bundu fyrir munn hans, með límbandi að sögn, vegna mótspyrnu hans gegn því að vera vísað úr land. Osamuyia Akpitaye lést skömmu eftir að flugvélin fór í loftið. Krufning leiddi í ljós að hann kafnaði.

Pyndingar og ill meðferð

Írak

Réttlætissamtök fanga (Prisoners’ Association for Justice), sem eru frjáls félagasamtök í Írak, sögðu í október 2007 að þau hefðu tekið viðtöl við fimm börn á aldrinum 13 til 17 ára sem íraskar öryggissveitir höfðu pyndað vegna gruns um að þau tengdust uppreisnarmönnum og vopnuðum hópum.

Kína

Yang Chunlin, baráttumaður fyrir mannréttindum frá Heilongjiang, var handtekinn þann 6. júlí 2007 fyrir, “undirróður gegn ríkisvaldinu”. Hann hafði stutt við lögsókn 40.000 bænda sem höfðu orðið fyrir því að land þeirra var tekið án bóta. Yang Chunlin hafði hjálpað til að safna undirskriftum fyrir bænaskrá sem bar heitið “Við viljum mannréttindi, ekki Ólympíuleika” sem margir bændur skrifuðu undir. Lögregla neitaði honum ítrekað um að hitta fjölskyldu sína og lögfræðinga. Yang Chunlin var pyndaður, þ.á.m með því að hlekkja handleggi hans og fótleggi við hornin á járnbedda og hann neyddur til að matast, drekka og hafa hægðir í þeirri stöðu.

Simbabve

Ráðist var á Nelson Chamisa, sem er þingmaður Lýðræðisumbótahreyfingarinnar (Movement for Democratic Change) í Kuwadzana með járnstöngum fyrir utan alþjóðflugvöllinn í Harare. Talið er að árásarmennirnir séu í öryggissveitum ríkisins. Höfuðkúpa hans brotnaði, hann fékk innvortis blæðingar og svöðusár á andlitið. Í árslok 2007 hafði enginn verið handtekinn fyrir árásina.

Vopnuð átök

Mið-Afríkulýðveldið

Raymond Djasrabaye var einn margra þorpsbúa í Beboura í Paoua sem hersveitir ríkisstjórnarinnar særðu eða drápu í mars 2007. Raymond Djasrabaye var skotinn í handlegginn, fékk drep í sárið og flúði til Tsjad, þar sem þurfti að aflima hann. Faðir hans og móðir voru drepin í árásinni.

Rússland

Að minnsta kosti sex mál komu upp í Ingúsjetíu þar sem lögreglumenn drápu borgara og vitni fullyrtu að viðkomandi hefðu verið teknir af lífi; yfirvöld báru að þeir hefðu veitt vopnaða mótspyrnu. Ættingjar sex ára drengs sem lögreglumenn drápu í árás á heimilið í nóvember 2007 fullyrða að hann hafi verið vísvitandi drepinn. Fólk í varðhaldi var pyndað og sætti illri meðferð í þeim tilgangi að fá fram „játningar“ eða upplýsingar. Að minnsta kosti þrír einstaklingar sem sættu þvinguðu mannshvarfi eða mannráni árið 2007 voru ekki komnir í leitirnar við árslok.

Ofbeldi gegn konum

Fílabeinsströndin

Í júlí 2007 var 16 ára stúlku sem vann sem þjónustustúlka á heimili að sögn nauðgað af syni vinnuveitandans. Hinn meinti árásarmaður var handtekinn en sleppt sama dag. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir lögfræðings fórnarlambsins höfðu yfirvöld ekkert rannsakað málið í árslok 2007.

Sádi-Arabía

Sjö menn nauðguðu tvítugri stúlku, sem er kölluð „al-Qatif stúlkan“, árið 2006 í al-Qatif borg. Þegar málið kom fyrir dómstóla var hún og maður sem var með henni áður en henni var nauðgað dæmd til að þola 90 vandarhögg fyrir khilwa glæp. Nauðgararnir voru dæmdir í eins til fimm ára fangelsi auk vandarhagga. Dómarnir voru allir þyngdir þegar þeim var áfrýjað. Stúlkan og maðurinn sem var með henni voru dæmd í 6 mánaða fangelsi og 200 vandarhögg, en nauðgararnir dæmdir í tveggja til níu ára fangelsi auk vandarhagga. Konungur landsins náðaði stúlkuna í desember 2007 og málið gegn manninum sem var með henni var að sögn látið niður falla.