Mannréttindabrot í Kína!

Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa mörg undanfarin ár vakið athygli á mannréttindabrotum sem viðgangast í Kína og birt fjölmargar skýrslur um þau brot.

 

 

Lögregla í Kína handtekur Falun Gong mótmælanda

Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa mörg undanfarin ár vakið athygli á mannréttindabrotum sem viðgangast í Kína og birt fjölmargar skýrslur um þau brot. Félagar í samtökunum hafa skrifað kínverskum yfirvöldum fjölda bréfa vegna málefna einstaklinga í landinu sem sætt hafa mannréttindabrotum.

Á síðustu árum hefur ekki dregið úr kúgun á pólitískum andstæðingum stjórnarinnar, þvert á móti. Mannréttindafrömuðir, lýðræðissinnar, verkalýðsleiðtogar og trúarhópar sæta harðræði í landinu og tjáningarfrelsið er fótum troðið. Kínversk stjórnvöld hafa á undanförnum árum aukið allt eftirlit og reynt í síauknum mæli að hafa stjórn á aðgengi almennings að internetinu. Lög og reglugerðir hafa verið sett sem að heimila lokun internetkaffihúsa, inngrip í tölvupóst fólks, lokun aðgangs að leitarvélum, erlendum fréttasíðum og öðrum heimasíðum, með efni sem talið er ,,óæskilegt” af kínverskum yfirvöldum. Þeir sem dreifa því sem kínversk stjórnvöld kalla ,,ríkisleyndarmál” á internetinu geta átt dauðadóma yfir höfði sér.

Amnesty International hefur miklar áhyggjur vegna aukins fjölda mála þar sem fólk er dæmt til margra ára fangelsisvistar án þess að njóta réttlátrar dómsmeðferðar. Kínversk yfirvöld hafa í auknum mæli fært fólk í  gæsluvarðhald án ákæru og dóms, jafnvel árum saman. Auk þess hafa fjölmörg dæmi um pyndingar og aðra ómannúðlega meðferð á föngum borist Amnesty International.

Dauðarefsingum er beitt í Kína og meira en  fimmtíu mismunandi brot geta leitt til dauðadóms, þar á meðal eru spilling, mútur, neysla og sala á eiturlyfjum, ofbeldisglæpir, skattsvik og hórmang.  Amnesty International birtir ekki lengur tölur yfir aftökur í landinu, en slíkar upplýsingar eru meðhöndlaðar sem ríkisleyndarmál í Kína.  Amnesty International er ljóst að þær upplýsingar sem samtökin hafa um fjölda aftaka endurspegla ekki í raunveruleikann heldur eru einungis toppurinn á ísjakanum og að raunverulegar tölur um aftökur séu mun hærri.  Fólk er tekið af lífi með því að skjóta það og einnig með banvænum sprautum.  Aftökur fara oft fram strax eftir að dómur hefur verið felldur.

Kína er aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum en þrátt fyrir það eru

pyndingar og önnur slæm meðferð fanga mjög útbreiddar í landinu. Meðal fórnarlamba pyndinga er fólk sem er í haldi vegna gruns um glæpsamlegt atferli og pólitísk afskipti, áhorfendur að mótmælum, farandverkafólk, útigangsfólk, konur sem grunaðar eru um vændi og  meðlimir ýmissa trúarhópa sem ekki eru viðurkenndir af stjórnvöldum.  Slík brot eru framin í margvíslegum ríkisstofnunum; fangelsum, lögreglustöðvum, meðferðarstofnunum fyrir fíkla, vinnubúðum, sjúkrahúsum, á heimilum fólks, vinnustöðum og jafnvel á götum úti.  Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa birt fjölmörg mál einstaklinga sem sætt hafa pyndingum í Kína.  Játningar fengnar með pyndingum eru samkvæmt alþjóðalögum ekki heimilar sem sönnunargögn í réttarhöldum. Í Kína eru slíkar játningar iðulega notaðar við réttarhöld.  Algengustu pyndingaaðferðirnar eru barsmíðar, spörk, raflost, einstaklingar eru hengdir upp á höndunum, þeir hlekkjaðir og festir í sársaukafullri líkamsstellingu og fólki meinað um svefn og næringu.

Fjölda fólks er haldið í fangelsum og vinnubúðum án dóms og laga, þar sem þeim er gert að undirgangast ,,endurmenntun í gegnum vinnu”.  Meðal þeirra sem sætt hafa slíkri meðferð eru meðlimir í ýmsum söfnuðum, trúarhreyfingum og lífsspekihreyfingum.  Amnesty International hefur miklar áhyggjur af því að fjöldi fólks er sendur í slíkar búðir án þess að réttað sé í málum þeirra. Fjölmargir sem neita að ganga af trú sinni eru sendir í slíkar búðir, fangelsi eða geðsjúkrahús. Á síðustu árum hafa ofsóknir á hendur ýmsum trúarhópum aukist mjög mikið.  Í landinu eru lög sem banna alla svokallaða ,,villutrúarhópa”.  Á grundvelli þessara laga hafa ýmsar hreyfingar og söfnuðir sætt ofsóknum, fangelsunum og pyndingum.  Meðal þeirra hreyfinga sem voru bannaðar á grundvelli laganna er Falun Gong, ýmsir kristnir söfnuðir, auk fleiri hópa.  Múslimar og fylgjendur Dalai Lama hafa sætt ýmsum höftum og takmörkunum á frelsi til trúariðkunar. Fjöldi fólks situr í fangelsum og hefur verið sendur í ,,endurhæfingabúðir” í kjölfar samþykktar ofangreindra laga.  Amnesty International hefur ítrekað lýst yfir áhyggjum af því að í mörgum tilfellum þegar réttarhöld fara fram hafa dómar verið ákveðnir af yfirvöldum áður en réttarhöldin hefjast.  Lágmarksreglur um réttláta málsmeðferð eru hundsaðar í réttarsölum landsins. Samtökin hafa einnig áhyggjur af æ fleiri tilfellum þar sem fólki er haldið í stofufangelsi í lengri tíma. Einn þeirra er Chen Guangcheng og eiginkona hans. Eftir að hann var látin laus úr fangelsi fyrir um tveimur árum hafa hann og eiginkona hans verið í stofufangelsi og er jafnvel meinað að fara út úr húsi til að leita sér læknisaðstoðar. Eiginkona Liu Xiaobo, friðarverðlaunahafa Nóbels 2010, hefur verið haldið í stofufangelsi en eiginmaður hennar afplánar nú 11 ára fangelsi í kjölfar óréttlátra réttarhalda fyrir að „hvetja til undirróðurs gegn ríkisvaldinu“.

Á undanförnum árum hafa kínversk yfirvöld beitt  sér af hörku gegn verkafólki þegar það hefur mótmælt uppsögnum, kjaraákvæðum uppsagna, lélegum og oft hættulegum aðbúnaði á vinnustöðum, spillingu meðal stjórnenda og vanefndum á launagreiðslum.  Verkalýðsfrömuðir hafa án árangurs reynt að stofna óháð verkalýðsfélög. Fólk hefur sætt refsingum fyrir tilraunir til að stofna verkalýðsfélög, þátttöku í verkföllum og fyrir að tala um réttindi verkafólks.  Óháð verkalýðsfélög eru enn bönnuð í landinu. Margir hafa verið sendir í ,,endurhæfingabúðir”, öðrum varpað í fangelsi eða vistaðir nauðugir á geðsjúkrahúsum. Lögfræðingar og blaðamenn sem hafa reynt að verja mótmælendur hafa sjálfir orðið fyrir ofsóknum og verið handteknir. Einn þeirra er lögfræðingurinn Gao Zhisheng en ekki hefur neitt til hans spurst frá því hann var handtekinn í febrúar árið 2009.

Í Xinjiang Uighur sjálfstjórnarsvæðinu hafa verið framin gróf mannréttindabrot; fjöldahandtökur, pyndingar, handahófskenndar handtökur og óréttlát málsmeðferð í réttarhöldum. Þeir sem sæta fyrst og fremst slíkum ofsóknum í héraðinu er Uighur fólkið, sem eru múslimar. Þúsundum þeirra er haldið í fangelsum. Í Tíbet er trúfrelsi ekki virt og hundruð samviskufanga bak við lás og slá, flestir þeirra eru munkar og nunnur.  Amnesty International hefur miklar áhyggjur af ömurlegum aðbúnaði og því mikla harðræði sem beitt er í fangelsum í Tíbet.  Kristnir hópar víða um Kína, bæði kaþólskir, lúterskir og aðrir kristnir hópar, hafa mátt sæta ofsóknum, fangelsunum og ýmsu harðræði.  Í Alþýðulýðveldinu Kína gjalda margir fyrir trúariðkanir sínar eða lífsafstöðu með lífi sínu.

Árið  1989 börðu kínversk stjórnvöld andóf námsmanna og lýðræðissinna niður í blóðbaði á Torgi hins himneska friðar. Fjöldi fólks lét lífið og þúsundir manna voru fangelsaðir fyrir andbyltingaráróður.  Amnesty International hefur öruggar heimildir fyrir því að hluti þessa fólks situr enn í fangelsum eða er í vinnubúðum. Amnesty International hefur ítrekað farið fram á við kínversk yfirvöld að óháð rannsókn fari fram á atburðunum á Torgi hins himmneska friðar, gerð verði grein fyrir afdrifum fórnarlamba blóðbaðsins og þeir sem enn eru í haldi verði látnir lausir án skilyrða.  Auk þess hafa samtökin farið fram á að aðstandendur fórnarlambanna fái bætur og að hinir ábyrgu verðir látnir svara til saka.

Að lokum vill Íslandsdeild Amnesty International vekja athygli á alþjóðlegum vopnaviðskiptasamningi sem unnið er að á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Samtökin hafa nokkrar áhyggjur af afstöðu kínverskra stjórnvalda til samningsins, en þau hafa m.a. lagst gegn því að samningurinn byggi á alþjóðlegum mannréttinda-og mannúðarlögum. Rannsóknir og skýrslur samtakanna endurspegla ítrekað hversu vanmáttugt allt eftirlit er með flutningi og sölu vopna, skotfæra og annarra tækja og tóla. Vopn rata aftur og aftur í hendur þeirra sem beita þeim til alvarlegra glæpa og brota gegn alþjóðlegum mannréttinda- og mannúðarlögum.  Alþjóðlegur vopnaviðskiptasamningur verður að fela í sér ákvæði sem draga í raun úr þeirri hættu að vopn og annar búnaður verði notaður til að fremja alvarleg mannréttindabrot. Samningurinn þarf að uppfylla allar kröfur sem felast í „gullnu reglunni“ sem m.a. felur í sér að öll ríki framkvæmi ítarlegt áhættumat í hverju tilfelli til að greina hvort hætta sé á að vopnunum verði beitt í andstöðu við alþjóðleg mannréttinda- og mannúðarlög og að ríki stöðvi sölu vopna ef hætta er á að þeim verði beitt til að fremja alvarleg mannréttindabrot.  Amnesty International leggur ríka áherslu á að  við gerð samningsins sé mannréttindavernd í heiðri höfð og með honum verði hægt að stöðva alvarleg mannréttindabrot og bjarga lífum fólks.

Með þessu bréfi fylgja tvær skýrslur samtakanna. Önnur lýtur að dómsmálum og nýju lagafrumvarpi[1] og hin að  vopnaflutningum Kínverja til Súdan[2]. Skýrslur Amnesty International eru örugg heimild og byggja á ítarlegum rannsóknum. Íslandsdeild Amnesty International hvetur þig til að vekja máls á ástandi mannréttinda í Kína í viðræðum yðar við Wen Jiabao og krefjast úrbóta sem og að leggja áherslu á mikilvægi þess að alþjóðlegur vopnaviðskiptasamningur byggi á mannréttindum.

[1] People´s Republic of China, Bringing China´s Criminal Procedure Law in Line with International Standards, ASA 17/007/2012

[2] Sudan: No End to Violence in Darfur,Arms Supplies Continue Despite Ongoing Human Rights Violations, AFR 54/007/2012