Mannréttindabrot í Mið-Afríku: Hundruðum rænt á undanförnum vikum

Leiðtogar í Mið-Afríku og SÞ hafa verið hvött til að tryggja lausn yfir 350 manna, kvenna og barna sem talið er að Andstöðuher drottins (the Lord’s Resistance Army) hafi rænt á undanförnum vikum.

Leiðtogar í Mið-Afríku og SÞ hafa verið hvött til að tryggja lausn yfir 350 manna, kvenna og barna sem talið er að Andstöðuher drottins (the Lord’s Resistance Army) hafi rænt á undanförnum vikum.

Mannránin voru gerð í Mið-Afríkulýðveldinu, Lýðveldinu Kongó og Suður-Súdan meðan Andstöðuherinn var að búast til að undirrita friðarsamkomulag við úgandísku ríkisstjórnina. Samkomulagið átti að binda enda á yfir 20 ára borgarastyrjöld þar sem stríðsglæpir hafa verið tíðir, þar á meðal mannrán og ólögleg dráp og limlestingar á almennum borgurum.

Eins og í Úganda er líklegt að þetta fólk, þar á meðal fjöldi kvenna og barna, verði notað sem barnahermenn og kynlífsþrælar, en engu að síður hefur engin ríkisstjórn á svæðinu reynt að fá fólkið leyst úr haldi.

Ríkisstjórnir Súdan, Mið-Afríkulýðveldisins og Lýðveldisins Kongó, með aðstoð SÞ, verða að snúa bökum saman til að tryggja öryggi og frelsi þeirra sem rænt hefur verið og draga hina seku til ábyrgðar.

 

Konur og stúlkur sem Andstöðuher drottins hefur áður rænt hafa verið neyddar í kynlífsþrælkun, en drengir og menn neyddir til hermennsku og til að fremja óhæfuverk, sem og til að vera burðarmenn undir ránsfeng Andstöðuhersins. Nýjustu átökin urðu nærri Obo, bæ í suðausturhorni Mið-Afríkulýðveldisins, nærri landamærum Lýðveldisins Kongó og Súdan.

Andstöðuher drottins virðist hafa fært bækistöðvar sínar til Mið-Afríkulýðveldisins sunnanverðs til að forðast að yfirmenn í hernum verði handteknir og færðir í hendur Alþjóðlega sakamáladómstólsins í Haag. Þeir eru eftirlýstir fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni. Nýlegar fréttir herma að hermenn á vegum Andstöðuhersins hafi síðan farið yfir landamærin til Lýðveldisins Kongó og rænt þar fólki.

Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn ákærði ýmsa leiðtoga Andstöðuhers drottins árið 2005 fyrir stórfelld mannrán og aðra glæpi gegn mannkyni og stríðsglæpi.

 

Nú starfa fimm öryggissveitir í Mið-Afríkulýðveldinu; her landsins, her Evrópusambandsins, hersveitir SÞ, fjölþjóðaher á vegum ríkja í Mið-Afríku og franskar hersveitir.

Amnesty International hefur farið þess á leit við SÞ og aðrar hersveitir á svæðinu, þar á meðal hersveitir SÞ í Suður-Súdan og Lýðveldinu Kongó að þær hjálpi ríkisstjórnum á svæðinu að leysa fólkið úr haldi.

Einnig hafa samtökin hvatt friðargæslulið og hersveitir ríkisstjórna á svæðinu til að vinna saman til að handtaka alla þá sem Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn hefur lagt fram handtökuskipun gegn, þeirra á meðal leiðtoga Andstöðuhers drottins.