Munkar og aktívistar í Myanmar hafa tjáð Amnesty International að mótmæli gegn ríkisstjórninni hafi verið bæld niður með grimmilegum hætti.
Munkar og aktívistar í Myanmar hafa tjáð Amnesty International að mótmæli gegn ríkisstjórninni hafi verið bæld niður með grimmilegum hætti.
Aktívistar, sem staðið hafa í eldlínu baráttunnar, hafa í viðtölum sagt frá yfirstandandi aðgerðum ríkisstjórnarinnar, þar á meðal næturárásum, geðþóttahandtökum og hörmulegum varðhaldsaðstæðum. Meðal þeirra, sem rætt hefur verið við, eru Mie Mie, Htay Kywe og Nay Tin Myint.
Þessar frásagnir sjónarvotta fylgja í kjölfar handtöku sex einstaklinga í síðustu viku, þeirra á meðal Htay Kywe, Mie Mie og aktívistans Aung Thu, sem öll eru hluti stúdentahóps 1988-kynslóðarinnar.
„Við höfum séð lögregluna krefjast peninga frá fjölskyldum hinna handteknu til að þeim verði sleppt úr haldi. Ungt fólk á leið í vinnu og skóla er ekki einungis stöðvað og athugað, heldur einnig rænt,“ sagði Mie Mie stuttu áður en hún var handtekin.
Íbúar landsins, sem flúið hafa að landamærunum við Tæland, hafa sagt frá ofbeldi óeirðalögreglu gegn mótmælendum og áhorfendum, þar á meðal konum og munkum.
„Sumir hinna særðu voru svo blóði drifnir að þú gast ekki séð hvaðan blóðið streymdi. Sumir munkanna týndu efri hluta skikkju sinnar. Ég sá óbreytta borgara reyna að hjálpa særðum munki. Flest sára þeirra voru höfuðsár. Óeirðalögreglan miðaði á höfuðið,“ sagði 31 árs gamall munkur sem fylgdist með átökum mótmælenda og lögreglu í bænahúsinu í Shwe Dagon þann 26. september.
Skömmu áður en hann var handtekinn sagði Htay Kywe, sem þá var í felum: „alþjóðasamfélagið verður að sýna einhug til að koma í veg fyrir frekari brot.“ Hann hvatti einnig alþjóðasamfélagið til að „hjálpa eins mikið og það getur“ til að koma í veg fyrir frekari brot.
Htay Kywe, Mie Mie og Aung Thu tóku þátt í fyrstu mótmælunum í ágúst, en neyddust fljótlega til að fara í felur þegar stjórnvöld hófu leit að þeim sem talin voru ábyrg fyrir mótmælunum, þá sérstaklega Htay Kywe. Þann 21. ágúst voru 13 lykilaktívistar í stúdentahópi 88-kynslóðarinnar handteknir í næturárás.
Áframhaldandi handtökur brjóta í bága við loforð sem stjórnvöld í Myanmar gáfu nýverið að starfa með Sameinuðu þjóðunum. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna sendi þann 11. október frá sér ályktun þar sem harmað var það ofbeldi, sem beitt var til að brjóta mótmælin á bak aftur og lýst yfir mikilvægi þess að öllum pólitískum föngum yrði sleppt sem fyrst.
Ekki er enn ljóst hve margir eru enn í haldi yfirvalda, né hafa yfirvöld í Myanmar gefið upplýsingar um þá, sem hafa verið handteknir, hvar fólk sé í haldi, við hvaða aðstæður og hvers vegna það hafi verið handtekið.
Þó að ríkisfjölmiðlar í Myanmar hafi gefið í skyn að vel yfir 2000 einstaklingar hafi verið handteknir stangast þær tölur á við tölur sem fulltrúi Myanmar gaf öryggisráðinu þann 12. október.
Ríkisblöðin hafa varað við því að þeir sem hafi verið handteknir vegna mótmælanna eigi yfir höfði sér langa fangelsisdóma. Í ríkisfjölmiðlinum Nýja ljós Myanmar sagði nýverið: „Ákæra verður hvern þann sem handtekinn er fyrir að brjóta lögin með þessum hætti og fangelsa ef hann er fundinn sekur“.
Enn berast fréttir af húsleit, eftirliti og áreitni gagnvart fólki sem tók þátt í mótmælunum. Að sögn er fjölskyldumeðlimum og nágrönnum grunaðra mótmælenda einnig ógnað.
Samtökin Aðstoð fyrir pólitíska fanga, sem staðsett eru í Tælandi, hafa greint frá því að félagi í Þjóðarlýðræðishreyfingunni, helsta stjórnarandstöðuflokknum, hafi látist í varðhaldi sökum pyndinga. Ko Win Shwe, sem var 42 ára, var að sögn handtekinn ásamt fjórum öðrum þann 26. september vegna þátttöku þeirra í mótmælum.
Aðrir, sem vitað er að hafi verið handteknir, eru meðal annars Zargana og Par Par Lay, sem eru frægir grínistar og fyrrum samviskufangar.
Amnesty International hefur gagnrýnt harðlega ofbeldið gagnvart friðsömum mótmælendum og hefur alvarlegar áhyggjur af öllum þeim sem eru í haldi um landið allt. Samtökin hafa hvatt stjórnvöld í landinu til að tryggja að einstaklingar í varðhaldi sæti ekki pyndingum eða annarri illri meðferð og að þeim verði sleppt úr haldi tafarlaust.
Þú getur krafist þess að mótmælendum verði sleppt með því að grípa til aðgerða hér.
