Mannréttindabrot í Súdan: Alþjóðadagur í þágu Darfur sunnudaginn 29. apríl

Sunnudaginn 29. apríl er alþjóðadagur í þágu Darfur-héraðs í Súdan. Amnesty International hefur miklar áhyggjur af ástandinu í Darfur.

Sunnudaginn 29. apríl er alþjóðadagur í þágu Darfur-héraðs í Súdan. Amnesty International hefur miklar áhyggjur af ástandinu í Darfur. Íbúarnir hljóta litla sem enga vernd með þeim afleiðingum að 200.000 manns hafa látið lífið og yfir 2 milljónir misst heimili sín og dvelja nú í búðum þar sem hætt er við að þeir veikist, sé nauðgað eða láti lífið. Fjórar milljónir einstaklinga þurfa á mannúðaraðstoð að halda en ráðist er á mannúðarsamtök og starfsfólkið er flæmt í burtu. Súdanska ríkisstjórnin heldur því fram að alþjóðasamfélagið hafi engan rétt á að veita íbúum Darfur þá vernd sem þeir þurfa nauðsynlega á að halda. Yfirvöld tefja jafnframt fyrir komu öflugs friðargæsluliðs til héraðsins.

Á alþjóðlegum degi í þágu Darfur taka fjölmörg félagasamtök höndum saman til að krefjast verndar fyrir íbúa héraðsins. Fólk um heim allan mun standa fyrir viðburðum til að ýta undir þessa kröfu. Hér á Íslandi stendur Amnesty International fyrir undirskriftasöfnun í Kolaportinu á sunnudag.

Við viljum einnig bjóða þér að taka þátt í þessari aðgerð með því að rita nafn þitt á undirskriftalista á slóðinni http://www.globefordarfur.org/petition.html.