MANNRÉTTINDAGRUNNSKÓLI ÁRSINS SAFNAÐI 7192 UNDIRSKRIFTUM!

Árleg herferð Amnesty International, Þitt nafn bjargar lífi, árið 2021 gekk vel en að þessu sinni söfnuðust alls 66.180 undirskriftir vegna tíu mála á aðgerðakort, í sms-aðgerðaneti, netákalli og á vefsíðu herferðarinnar, auk þess sem nokkur hundruð skrifuðu stuðningskveðjur til þolenda og fjölskyldna þeirra.

Stórsigur Háteigsskóla

Háteigsskóli í Reykjavík kom sá og sigraði í keppninni MANNRÉTTINDAGRUNNSKÓLI ÁRSINS í ár. Nemendur skólans söfnuðu hvorki meira né minna en 7.192 undirskriftum til stuðnings þolendum mannréttindabrota sem sjónum var beint að í herferðinni árið 2021. Þá var skólinn einnig hlutskarpastur í fjölda undirskrifta miðað við nemendafjölda og safnaði hver nemandi að meðaltali 51 undirskrift. Alþjóðaskólinn á Íslandi, sem lenti í öðru sæti, safnaði 538 undirskriftum í heildina eða 15 undirskriftum á hvern nemanda. Í framhaldsskólakeppninni árið 2021 hlaut Kvennaskólinn í Reykjavík titilinn MANNRÉTTINDAFRAMHALDSSKÓLI ÁRSINS með 1.416 undirskriftum. Þá sigraði Menntaskóli Borgarfjarðar með fjölda undirskrifta miðað við nemendafjölda en skólinn safnaði 472 undirskriftum í heildina eða rúmlega fjórum undirskriftum á hvern nemanda.

Mál Ciham og Mikita áhrifamest

Flestar undirskriftir söfnuðust vegna átakanlegra mála tveggja ungmenna í haldi stjórnvalda, Ciham Ali frá Erítreu og Mikita Zalatarou frá Hvíta-Rússlandi.

Alls tóku 13 staðir um land allt þátt í undirskriftasöfnun á aðgerðakort, á kaffihúsum, bókasöfnum og jólamörkuðum og gekk söfnunin vel en samtals náðist að safna 7.051 undirskrift á kortin.

Heimsókn Wendy Galarza hápunktur

Hápunktur herferðarinnar var heimsókn Wendy Andreu Galarza, aðgerðasinna og feminista, og Edith Olivares Ferreto, framkvæmdastjóra Amnesty International í Mexíkó, til landsins. Mál Wendy var eitt þeirra tíu mála sem tekin voru fyrir í Þitt nafn bjargar lífi en hún greindi frá máli sínu og baráttu sinni gegn ofbeldi og morðum á konum í heimalandi sínu á málþingi sem haldið var í Háskóla Íslands í lok nóvember.

Til að minna á herferðina voru einnig ýmsar áberandi byggingar víða um land baðaðar gulu ljósi og gámi komið fyrir á Skólavörðuholti til að vekja fólk til umhugsunar um þær skelfilegu aðstæður sem talið er Ciham Ali frá Erítreu búi við í haldi stjórnvalda.

Íslandsdeild Amnesty International óskar baráttufólki fyrir mannréttindum innilega til hamingju með árangurinn að þessu sinni. Samtakamátturinn skiptir öllu máli!

Vala fræðslustjóri veitir stjórn nemendafélags Háteigsskóla viðurkenningu fyrir frábæran árangur.
Árni ungliða- og aðgerðastjóri afhendir fulltrúa nemenda Kvennaskólans í Reykjavík viðurkenningu.
Sölvi G. Gylfason kennari og Daníel Fannar Einarsson fulltrúi nemenda Menntaskóla Borgarfjarðar voru glaðir með árangurinn.