Mannréttindalögfræðingur leystur úr haldi!

Mannréttindalögfræðingurinn Fabián Nsue Nguema var leystur úr haldi að kvöldi 30. október 2012.

 

Aðallögreglustöðin í Malobo í Miðbaugs-Gíneu

Mannréttindalögfræðingurinn Fabián Nsue Nguema var leystur úr haldi að kvöldi 30. október 2012. Hann var í haldi í þrjá daga án staðfestingar frá yfirvöldum í Black Beach-fangelsinu áður en hann var færður yfir á aðallögreglustöðina í höfuðborginni Malobo í Miðbaugs-Gíneu.

Fabián Nsue Nguema er lögfræðingur manns sem var handtekinn þann 16.október. Hann reyndi að heimsækja skjólstæðing sinn þann 22.október í Black Beach-fangelsinu í Malobo. Hvorki heyrðist frá honum né sást til hans næstu þrjá daga sem vakti ótta um öryggi hans.  

Yfirvöld neituðu að gangast við því að hann væri í haldi þrátt fyrir að sæist til bíl hans á fangelsissvæðinu. Í Black Beach-fangelsinu var honum haldið í einangrun í dimmum klefa. Hann var hvorki pyndaður né sætti annarri illri meðferð.

Þann 25. október milli klukkan hálf tíu og tíu um kvöldið var Fabián Nsue Nguema færður yfir á aðallögreglustöðina í Malobo þar sem honum var haldið án ákæru þangað til hann var látinn laus um klukkan sjö að kvöldi 30. október 2012. Á lögreglustöðinni var hann í haldi í stórum klefa ásamt mörgum öðrum föngum og gat gengið um í klefanum. Kona hans gat heimsótt hann daglega og fært honum mat.

Alþjóðlegur þrýstingur eftir 22. október átti þátt í því að hann var færður úr einangrun og síðan leystur úr haldi.

Bæði handtakan og varðhaldið yfir Fabián Nsue Nguema voru ólögleg. Hann var handtekinn án heimildar þegar hann reyndi að hitta skjólstæðing sinn í fangelsi og var honum haldið langt fram yfir þær 72 klukkustundir sem lög í landinu leyfa.

Í fangelsinu var Fabián Nsue Nguema sagt að skjólstæðingur hans hefði bendlað hann við „tilraun til að veikja landið” án frekari skýringar.

Í mörg ár hefur Fabián Nsue Nguema verið verjandi stjórnarandstæðinga og samviskufanga. Hann hefur margsinnis áður verið áreittur og hrelltur.

Í apríl 2002 var hann handtekinn þegar hann ætlaði að verja hóp pólitískra fanga. Í júlí 2002 var réttað yfir honum vegna ærumeiðinga gegn Obiang, forseta landsins, og hann dæmdur í árs fangelsi. Amnesty International taldi hann vera samviskufanga. Í júní 2005 var Fabián Nsue Nguema rekinn úr samtökum lögfræðinga fyrir meint hegðunarbrot án þess að það væri tilgreint nánar.