Đoàn Thị Hồng var handtekin ólöglega í september 2018 og hefur verið í haldi síðan án þess að mál hennar hafi verið tekið fyrir af dómstólum. Fjölskylda Đoàn Thị Hồng fékk ekki að hitta hana fyrr en 4. september 2019, 11 mánuðum eftir að hún var tekin höndum, og tók þá eftir heilsubrestum hjá henni. Við krefjumst þess að yfirvöld leysi Đoàn Thị Hồng úr haldi þar sem hún er samviskufangi og hefur einungis nýtt rétt sinn til tjáningarfrelsis á friðsamlegan hátt.
Skráðu þig í sms-aðgerðanetið hér! Sendu svo AKALL í númerið 1900 til að skrifa undir málið.
Đoàn Thị Hồng er hluti af hópi sem berst fyrir innleiðingu kafla tvö í víetnömsku stjórnarskránni frá 2013 en sá kafli tryggir grundvallarmannréttindi allra Víetnama.
Í júní 2018 tók Đoàn Thị Hồng þátt í almennum mótmælum í borginni Hồ Chí Minh þar sem mótmælt var frumvarpi laga sem myndi heimila ríkisstjórninni að ákvarða sérstaka efnahagslögsögu. Ef lögin verða samþykkt gætu erlendir fjárfestar notað landsvæði í allt að 99 ár og notið skattaívilnana. Þetta yki hættu á takmörkuðum tækifærum heimamanna.
Þótt að fjölskylda Đoàn Thị Hồng hafi ráðið fyrir hana lögfræðing sagði hún systur sinni í nýlegri heimsókn að hún þarfnist hans ekki því lögreglan segi að mál hennar taki styttri tíma án lögfræðings. Amnesty International hefur skráð hjá sér svipuð mál í Víetnam þar sem lögreglan sannfærir samviskufanga að nýta ekki lagaleg réttindi sín með loforði um að það hjálpi til við mál þeirra. Aðgangur að lögfræðiaðstoð er nauðsynlegur til að vernda réttindi fanga og yfirvöld verða að virða þau réttindi í stað þess að aftra þeim.
Systir Đoàn Thị Hồng setur reglulega innlegg á samfélagsmiðla og kallar eftir aðstoð samfélagsins. Lögreglan hefur hins vegar sagt Đoàn Thị Hồng og föður hennar að systirin verði að hætta að segja frá málinu á netinu.
Aðstæður í fangelsum í Víetnam eru vægðarlausar, sérstaklega fyrir samviskufanga þar sem þeir þurfa oft að sæta áreitni og illri meðferð, þar á meðal einangrun og pyndingum. Gæsluvarðhöld samviskufanga einkennast oft af heiftúðlegum yfirheyrslum, líkamlegri og andlegri misnotkun og takmörkuðum aðgangi að lögfræðingi og fjölskylduheimsóknum.
SMS-félagar krefjast þess að yfirvöld leysi Đoàn Thị Hồng úr haldi þar sem hún er samviskufangi og hefur einungis nýtt rétt sinn til tjáningarfrelsis á friðsamlegan hátt.
