Mannréttindaskóli ársins 2019 – Er þinn skóli skráður?

Nú líður að stærsta árlega viðburði Amnesty International, Þitt nafn bjargar lífi (áður Bréf til bjargar lífi). Þá skrifar fjöldi fólks nafn sitt á bréf til stjórnvalda sem brjóta mannréttindi og krefst réttlætis fyrir þolendur. Samtímis munu hundruð þúsunda einstaklinga víða um heim gera slíkt hið sama.

Eins og fyrr blásum við til samkeppni meðal grunn- og framhaldsskóla landsins þar sem nemendum gefst tækifæri til að safna sem flestum undirskriftum fyrir sinn skóla, vinna farandbikar og hljóta titilinn Mannréttindagrunnskóli ársins og Mannréttindaframhaldsskóli ársins.

Keppt er í tveimur flokkum á hvoru skólastigi. Annars vegar keppa skólarnir um að safna sem flestum undirskriftum á landsvísu og hins vegar um söfnun flestra undirskrifta miðað við nemendafjölda. Þannig gefst smærri skólum tækifæri til að vinna til verðlauna.

Í ár beinir herferðin sjónum að börnum og ungu fólki í þeim tilgangi að styðja þau, veita þeim styrk og gera þeim kleift að halda áfram að bjóða valdhöfum sem bregðast hlutverki sínu, birginn og þannig breyta ásýnd okkar á heiminum.

En Þitt nafn bjargar lífi er ekki einungis keppni um fjölda undirskrifta því herferðinni fylgir kennsluefni um málin þar sem nemendum gefst tækifæri til að kafa dýpra í heim mannréttinda og mannréttindabrota. Kennsluefnið má finna hér.

Þitt nafn bjargar lífi er tilvalið sem þemaverkefni eða viðbót við jólaviðburð innan skólans eða í nærsamfélaginu.

Keppnin stendur frá 25. október til 31. desember 2019.

Ætlar þinn skóli að taka þátt? Skráning og frekari upplýsingar um fyrirkomulag má nálgast í síma 5117900 eða með því að senda tölvupóst á amnesty@amnesty.is

Fyrirkomulag keppninnar Mannréttindaskóli ársins

Keppnin gefur grunnskólanemum tækifæri til að grípa til aðgerða og þrýsta á stjórnvöld að virða og vernda mannréttindi borgara sinna. Einnig fá nemendur tækifæri til að kafa dýpra í heim mannréttinda og mannréttindabrota.

Utanumhald verkefnisins er í höndum kennara og/eða nemenda. Nemendur kynna sér málin og skrifa bréf/skrifa undir bréf til valdhafa sem geta haft áhrif og gert breytingar. Nemendur geta einnig skrifað þolendum og/eða aðstandendum stuðningskveðju.

Eftir að hafa kynnt sér málin er kjörið að kynna þau fyrir öðrum nemendum, kennurum og starfsfólki, fjölskyldum og fleirum ef vill.

Hægt er að skrifa undir á þrjá vegu (veljið eina leið):

  1. Skrifa undir tilbúin bréf á amnesty.is (Muna að velja skólann af flettilista!).
  2. Fá send aðgerðakort frá Íslandsdeild AI (senda aftur til Íslandsdeildar, gjaldfrjálst).
  3. Skrifa sín eigin bréf og stuðningskveðjur (senda til Íslandsdeildar, gjaldfrjálst).

Mikilvægt er að skrifa undir/senda bréf til Íslandsdeildar ekki síðar en 31. desember 2019 svo hægt sé að telja þau með í keppninni í ár og senda þau áfram á stjórnvöld.

Árangur og úrslit árið 2018

Bréf til bjargar lífi 2018 (í ár Þitt nafn bjargar lífi) heppn­aðist einstak­lega vel þar sem söfn­uðust 76.341 undir­skriftir á Íslandi til stuðn­ings þolendum mann­rétt­inda­brota víða um heim. Þá hafa jákvæðar breyt­ingar átt sér stað í nokkrum þeirra mála sem tekin voru fyrir í herferðinni í fyrra og sýnir það hve megnugur samtaka­mátt­urinn er.

Kvenna­skólinn í Reykjavík og Fram­halds­skólinn á Laugum voru Mann­rétt­inda­fram­halds­skólar ársins 2018 og Háteigs­skóli og Alþjóða­skólinn á Íslandi voru Mannrétt­inda­grunn­skólar ársins 2018.