Heimurinn situr á félagslegri, pólitískri og efnahagslegri tímasprengju sem sækir orku sína til vaxandi mannréttindakreppu. Þetta er meðal þess sem kemur fram i ársskýrslu Amnesty International 2009.
Ársskýrsla AI 2009
Heimurinn situr á félagslegri, pólitískri og efnahagslegri tímasprengju sem sækir orku sína til vaxandi mannréttindakreppu. Þetta er meðal þess sem kemur fram i ársskýrslu Amnesty International 2009.
Í skýrslunni er greint frá mannréttindabrotum í 157 löndum. Skýrslunni fylgir samantekt, þar sem gerð er grein fyrir ástandi mannréttinda í öllum heimsálfum. Inngang ritar Irene Khan aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
Að baki efnahagskreppunni er mannréttindakreppa sem færist í aukana. Efnahagsleg niðursveifla hefur aukið mannréttindabrot, dregið athyglina frá þeim og skapað ný vandamál. Traðkað var á mannréttindum í nafni öryggis. Nú er þeim skipað aftar í nafni efnahagslegrar uppbyggingar.
Heimurinn þarf á nýju alþjóðlegu átaki í mannréttindamálum að halda – ekki pappírsloforðum heldur skuldbindingu og raunhæfum aðgerðum ríkisstjórna til að aftengja hina tifandi mannréttindatímasprengju. Leiðtogar heimsins verða að fjárfesta jafn ákveðið í mannréttindum og efnahagslífinu.
Milljarðar einstaklinga þjást vegna öryggisleysis, óréttlætis og vanvirðingar. Kreppan snýst um skort á matvælum, vinnu, hreinu vatni, landi og húsnæði og einnig um mismunun, aukið ójafnræði, útlendingahatur og rasisma, ofbeldi og kúgun um allan heim.
Jaðar- og frumbyggjasamfélög fengu ekki notið grundvallarréttinda til mannsæmandi lífs, þrátt fyrir hagvöxt í löndum eins og Brasilíu, Mexíkó og Indlandi.
Hundruð þúsunda íbúa fátækrahverfa og dreifbýlisbyggða voru neydd til búferlaflutninga í nafni efnahagslegrar uppbyggingar.
Snarhækkandi matvælaverð jók hungur og sjúkdóma og ríkisstjórnir notuðu matvæli sem pólitískt vopn, sérstaklega í Mjanmar, Norður-Kóreu og Simbabve.
Mismunun og ofbeldi gegn konum hélt áfram.
Ríki sem innflytjendur fara um eða leita til hertu enn aðgerðir til að halda fólki frá; þar fór ESB fremst í flokki í samstarfi við ríki eins og Máritaníu, Marokkó og Líbíu.
Merki eru um aukna ólgu og pólitískt ofbeldi og hættan er að kreppan leiði til meiri kúgunar. Stjórnvöld brugðust harkalega við mótmælum gegn efnahagslegum, félagslegum og pólitískum aðstæðum í löndum eins og Túnis, Egyptalandi, Kamerún og öðrum Afríkuríkjum. Refsileysi vegna brota lögreglu og öryggissveita var algengt.
Kína og Rússland eru sönnun þess að frjálsir markaðir hafa ekki leitt til frjálsra samfélaga. Baráttufólk fyrir mannréttindum, blaðamenn, lögfræðingar, verkalýðsfulltrúar og aðrir sættu áreitni, árásum, eða voru drepnir án þess að refsing kæmi fyrir í öllum heimshlutum á síðasta ári.
Heimsleiðtogar hafa einblínt á aðgerðir til að örva efnahagslíf heimsins en ekki sinnt átökum, sem hafa kostað fjölda manns lífið og leitt til stórfelldra mannréttindabrota.
Fórnarkostnaður í mannslífum vegna átaka, frá Gasa til Darfúr og frá austanverðu Kongó til norðanverðs Sri Lanka, hefur verið hræðilegur og hálfvolg viðbrögð alþjóðasamfélagsins eru hneykslanleg. Gríðarmiklum fjármunum er eytt í að berjast gegn sjóránum undan ströndum Sómalíu en ekki til að stöðva vopnaflæði sem beitt er gegn óbreyttum borgurum í landinu. Hernaðaraðgerðir eru auknar í Afganistan og Pakistan en lítið gert úr áhrifum þeirra á mannréttindi og velferð.
Ef ein kreppan er hunsuð og einblínt á aðra verður slíkt einungis til að magna þær báðar. Efnahagslífið mun ekki ná að vaxa til frambúðar né verður hægt að tryggja sanngirni þess ef ríkisstjórnir taka ekki á brotum sem liggja til grundvallar og auka fátækt, eða átökum sem valda nýjum brotum.
Ný forysta G-20 ríkjanna líður fyrir gamla og mislukkaða nálgun á mannréttindi. Mannréttindabrot, orðagjálfur án aðgerða, stuðningur stjórnvalda við mannréttindi í öðrum löndum meðan þau hunsa þau í eigin ríki og hlífiskjöldur þeirra yfir bandalagsríki svo þau sæti ekki ábyrgð vegna gerða sinna; þetta eykur ekki traust á forystusveit G-20 ríkjanna í mannréttindamálum.
Amnesty International varar við því að ekki sé tekið á mannréttindum með altækum hætti. Leiðtogar heimsins verða ekki trúverðugir eða ná árangri ef þeir takast ekki á við það sem úrskeiðis hefur farið í mannréttindamálum eigin landa og tvöfalt siðgæði er snertir mannréttindi.
Amnesty Internationl hefur fagnað ákvörðun Obama Bandaríkjaforseta um að loka Gvantanamó og hafna pyndingum. Samtökin hvetja hann til að tryggja að þeir sem bera ábyrgð verði sóttir til saka. Ábyrgð styrkir öryggi á alþjóðavettvangi og en veikir það ekki.
Mannréttindakreppan hefur sýnt fram á að mikilla breytinga er þörf og er Amnesty International að hleypa nýrri herferð af stokkunum sem ber heitið „Krefjumst virðingar“ og beinist gegn þeim mannréttindabrotum sem búa að baki fátækt og auka hana.
Fyrsta krafa Amnesty International í nýju herferðinni beinist að Bandaríkjunum og Kína. Bandaríkin viðurkenna ekki efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og Kína viðurkennir ekki borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Báðar ríkisstjórnirnar verða að viðurkenna öll mannréttindi fyrir alla.
Lausn alþjóðlegra vandamála verður að byggja á alþjóðlegum mannréttindagildum – og þeir sem skipa forystusveit heimsins verða að sýna fordæmi.
Sjá frekar á slóðinni:
http://report2009.amnesty.org/
