Mannréttindi á aðventu

16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi er að hefjast og þar kennir margra grasa eins og endra nær.

16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi er að hefjast og þar kennir margra grasa eins og endra nær.

Aðalþema átaksins í ár er mansal og eru allir félagar hvattir til að skrifa undir áskorun átaksins til íslenskra stjórnvalda um aðgerðir gegn mansali. Þú getur skrifað undir á netinu með því að smella á hnappinn hér að neðan:

 

 

Jafnframt hvetur Amnesty International þig til að skrifa undir bréf til yfirvalda í Grikklandi þar sem þau eru hvött til að grípa til aðgerða gegn mansali en Grikkland er algengur viðkomustaður fyrir konur sem seldar eru í vændi. Þú getur skrifað undir á netinu með því að smella á hnappinn hér að neðan:

 

 

Amnesty International stendur jafnframt fyrir eftirfarandi viðburðum á meðan átakinu stendur.

Kvikmyndahátíð fimmtudaginn 29. október í Hinu húsinu kl. 18-20

Amnesty International, Jafningjafræðslan, Mannréttindaskrifstofan og Félag kvenna af erlendum uppruna standa fyrir kvikmyndahátíð. Eftirfarandi kvikmyndir verða sýndar:

The Price of Life

Kvikmynd um aðgerðir gegn mansali í Króatíu og sýnir viðtöl við konur sem hafa verið seldar milli landa.

Killers Paradise

Árið 2005 voru 665 konur myrtar í Guatemala en enginn morðingjanna náðist. Enginn rannsakar morðin og vitni þora ekki að leysa frá skjóðunni. Hver skaut laganemann Claudinu Velasquez? Hver pyndaði og myrti hina 13 ára Stephanie Lopez? Hver myrti óþekkta konu sem fannst limlest í ruslapoka?

Rosita

Þekktasta heimildarmyndin um kynferðisofbeldi í Rómönsku Ameríku. Fylgst er með hinni 9 ára Rositu sem verður þunguð í kjölfar nauðgunar og þeim áleitnu spurningum sem samfélagið þarf að svara í kjölfarið varðandi réttindi barnsins, fóstureyðingar, kynferðisbrot og kaþólskuna.

Bréfamaraþon laugardaginn 8. desember kl. 13-17:30

Hið árlega bréfamaraþon er tækifæri fyrir félaga að hittast og láta gott af sér leiða í þágu mannréttinda á aðventunni. Þátttakendur skrifa kort til þolenda mannréttindabrota sem geta verið ómetanleg huggun á erfiðum tímum.

Bréfamaraþonið verður haldið í hliðarsal Hornsins, Hafnarstræti 15 í Reykjavík, AkureyrarAkademíunni á Akureyri og í Edinborgarhúsinu á Ísafirði.

Iðandi mannréttindastarf á aðventu. Upplestur og tónlist í Iðuhúsinu 10. desember kl. 20

Í tilefni af alþjóðlega mannréttindadeginum stendur Amnesty International fyrir iðandi uppákomu þar sem lesið verður upp úr bókunum Hermaður gerir við grammófón, Frjáls, Velkominn til Bagdad, Um langan veg og Í felulitum við friðargæslu í Bosníu með breska hernum. Tatu Kantomaa leikur á harmonikku.

Frekari upplýsingar um dagskrá átaksins má finna á eftirfarandi slóð:
http://www.mannrettindi.is/media-old/logo/vidburdir_16_dagar_2007.doc