Í aðdraganda 62. allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna sendi Íslandsdeild Amnesty International utanríkisráðherra bréf, þar sem vakin var athygli á ýmsum mannréttindaáherslum samtakanna og ráðherra hvattur til taka undir þær á allsherjarþinginu.
Í aðdraganda 62. allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna sendi Íslandsdeild Amnesty International utanríkisráðherra bréf, þar sem vakin var athygli á ýmsum mannréttindaáherslum samtakanna og ráðherra hvattur til taka undir þær á allsherjarþinginu. Íslandsdeild Amnesty International vakti sérstaka athygli á nokkrum málum sem eru til umfjöllunar á allsherjarþinginu og samtökin leggja áherslu á að nái fram að ganga. Ríkisstjórn Íslands er m.a. hvött til að styðja eftirfarandi mál bæði í ræðum og yfirlýsingum í sameiginlegu þingi svo og í einstökum nefndum:
Allsherjarþingið samþykki tillögu um að öll ríki heims sem enn beita dauðarefsingum geri hlé á aftökum og að framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skili skýrslu um framfylgd samþykktarinnar til næsta allsherjarþings SÞ.
Alþjóðlegur samningur um vopnaviðskipti byggi á alþjóðlegum mannréttinda- og mannúðarlögum. Samningurinn verður að tryggja að ríki heimili ekki flutning og sölu á vopnum til landa þar sem líklegt er að beiting þeirra leiði til alvarlegra brota á mannréttinda- og mannúðarlögum.
Ísland styðji tillögu þar sem pyndingar og önnur, grimmileg, ómannleg og vanvirðandi meðferð eða refsingar eru fordæmdar og bannaðar í öllum tilfellum.
Starf Sameinuðu þjóðanna í þágu kvenna verði styrkt, bæði skipulags- og fjárhagslega.
