Talið er að minnst 500 einstaklingar hafi verið handteknir í átökum herforingja-stjórnarinnar og mótmælenda í Myanmar. Samkvæmt heimildum Amnesty International voru um 1160 pólitískir fangar fyrir í fangelsum landsins og fjöldi samviskufanga.
Talið er að minnst 500 einstaklingar hafi verið handteknir í átökum herforingja-stjórnarinnar og mótmælenda í Myanmar. Samkvæmt heimildum Amnesty International voru um 1160 pólitískir fangar fyrir í fangelsum landsins og fjöldi samviskufanga.
Átökin mögnuðust að kvöldi 25. september í fyrrum höfuðborginni Yangon ásamt fleiri borgum. Talið er að minnst 9 manns hafi látist. Flestir voru handteknir 25. og 26. september og meðal þeirra eru hundruð munka frá Yangon. Amnesty International telur að hinir handteknu eigi á hættu að vera pyndaðir eða látnir sæta annars konar illri meðferð. Fregnir herma að öryggissveitir hafi lamið mótmælendur með kylfum, notað táragas og skotið viðvörunarskotum.
Amnesty International hefur þungar áhyggjur af því að friðsamleg mótmæli séu bæld niður á ofbeldisfullan hátt sem geri ástand mannréttinda enn verra í Myanmar. Herforingjastjórn hefur farið með völdin í Myanmar frá árinu 1962 og mannréttindi í landinu hafa verið fótum troðin um árabil.
Amnesty International hefur farið fram á bæði við Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og aðildarlönd Sambands Suðaustur-Asíuríkja (Association of Southeast Asian Nations, ASEAN) að grípa tafarlaust til árangursríkra aðgerða til að vernda réttinn til friðsamlegra mótmæla í Myanmar og forðast frekari stigmögnun ofbeldis og mannréttindabrota. Ríki heims verða að þrýsta á yfirvöld í Myanmar að takast á við núverandi neyðarástand án þess að grípa til ofbeldis.
Íslandsdeild Amnesty International hefur sent út aðgerðabeiðni til félaga í deildinni þar sem m.a. er farið er fram á að hinir handteknu verði leystir tafarlaust úr haldi. Íslandsdeildin hvetur fjölmiðla til að vekja athygli á aðgerðinni og hvetja almenning til að senda bréf til utanríkisráðherra Myanmar.
