Mannshvörf og pyndingar í Sýrlandi

Allt frá því að mótmælin hófust í Sýrlandi í febrúar 2011 hafa þúsundir grunaðra stjórnarandstæðinga verið handteknir og ekkert spurst til þeirra í lengri tíma.

 

Nokkrir þeirra horfnu einstaklinga, sem Amnesty International berst fyrir

Allt frá því að mótmælin hófust í Sýrlandi í febrúar 2011 hafa þúsundir grunaðra stjórnarandstæðinga verið handteknir og ekkert spurst til þeirra í lengri tíma. Sumir hafa horfið í bókstaflegri merkingu og eftir standa örvæntingarfullar fjölskyldur sem vita ekkert um örlög ástvina sinna. Nokkrum þeirra sem sætt hafa þvinguðu mannshvarfi í Sýrlandi hefur verið sleppt eftir margra mánaða einangrunar- eða leynivist. Það kallast „þvingað mannshvarf“ þegar stjórnvöld svipta fólk frelsi sínu, halda því í leynilegu varðhaldi og neita að upplýsa um örlög þeirra eða dvalarstað, eða svipta það lífi (sjá nánari skýringar hér að neðan á því hvað fellur undir „þvinguð mannshvörf”). Margir sem leystir voru úr haldi í Sýrlandi greina frá hryllilegum pyndingum og illri meðferð. Fjöldi annarra telst enn til horfinna. Þvinguð mannshvörf hafa einkennt stjórnartíð al-Assad fjölskyldunnar frá upphafi. Amnesty International hefur rannsakað og skráð fjölda þvingaðra mannshvarfa í Sýrlandi allt frá seinni hluta sjöunda áratugarins: http://www.amnesty.org/en/library/info/MDE24/002/1995/en

 

Taktu þátt í aðgerð á netákallssíðu okkar og þrýstu á sýrlensk stjórnvöld!

 

Ekki er vitað um afdrif 22 manna sem Amnesty International berst fyrir. Þeir eru:

Mohamed Bachir Arab, handtekinn í Aleppo  2. nóvember 2011; Anas al-Shogre, handtekinn í Banias 14. maí 2011; Muhammad Yassin Al Hawmi, handtekinn í Daraya  4. maí 2012; Abd al-Akram al-Sakka, handtekinn í Daraya 15. júlí 2012; Hussein ‘Essou, handtekinn í al-Hasakah 3. september 2011;‘Imad Walid Kharsa, handtekinn í Hama 24. ágúst 2011; Mazen Darwish, Hussein Gharir, Hani al-Zitani, Mansour al-Omari og Abd al-Rahman Hamada, allir handteknir 16. febrúar 2012 í Damaskus;Yahya Shurbaji, Ma’an Shurbaji, Mazen Zyadeh og Mohamed Tayseer Khoulani, allir handteknir 16. apríl 2012 í Daraya; Mahmoud Al Refaai, handtekinn 16. febrúar í Damaskus; Mohamed Osama og Abdulsalam Al Baroudi, handteknir 18 febrúar 2012 í Damaskus; Shibal Ibrahim, handtekinn 22. september 2011 í Qamishly; Salam Othman, handtekinn 28. ágúst 2011 í Aleppo; Ammar al-‘Aabsi, handtekinn í desember 2011 í Aleppo; Dhia al-Din al-‘Aabsi, handtekinn í febrúar 2012 í Aleppo; og Ahmad Hani Bakhsu, handtekinn 25. júní 2012 Anadan.

Nánar um þvinguð mannshvörf:

Lagaleg vernd nær ekki til „horfinna“ fanga sem eru einangraðir frá umheiminum og algjörlega á valdi gæslumanna sinna. Þeir hafa engan aðgang að lögfræðingum, ættmennum eða læknum. Þeim er oft haldið í langvinnu varðhaldi sem jafnan byggir á geðþóttaákvörðunum, án þess að þeir sæti ákæru eða komi fyrir dóm. Lögmæti handtöku og varðhalds er ekki metið af dómara eða sambærilegu yfirvaldi og fangarnir geta ekki mótmælt. Engir óháðir aðilar, innlendir eða alþjóðlegir, hafa eftirlit með aðstöðu og meðferð fangana. Leyndin sem ríkir yfir varðhaldinu greiðir fyrir yfirhylmingu frekari mannréttindabrota, m.a. pyndinga eða illrar meðferðar, og gerir stjórnvöldum kleift að skorast undan ábyrgð.

 Þvinguð mannshvörf og leynilegt varðhald teljast til illrar meðferðar og pyndinga, og er þá tekið tillit til þjáningar fanga sem geta ekki haft samband við utanaðkomandi, m.a. fjölskyldumeðlimi, og vita ekki hvort að þeir verða nokkurn tímann frjálsir eða fái að sjá fjölskyldur sínar á ný. Það sama á við um þær þjáningar sem fjölskyldur „horfinna“ einstaklinga þurfa að líða þegar þeim er neitað um vitneskju um örlög ættingja sinna. Slíkt brýtur jafnframt gegn banni við pyndingum og illri meðferð. Fjölskylda og vinir bíða oft í árafjöld, á milli vonar og ótta, eftir fréttum sem aldrei berast af ástvinum. Þau vita ekki hvort horfinn ástvinur snýr nokkru sinni til baka og geta hvorki syrgt né aðlagast missinum. Stundum tilkynna fjölskyldur ekki einu sinni mannshvarfið, annars vegar af ótta við hefndaraðgerðir stjórnvalda og hins vegar vegna algerrar afneitunar yfirvalda á tilvist hins horfna. 

Fyrir utan brot á réttinum til að vera hlíft við pyndingum og annarri illri meðferð, brjóta þvinguð mannshvörf á fjölda annarra mannréttinda, eins og rétti einstaklings á viðurkenningu fyrir lögum, rétti til frelsis og persónuöryggis, rétti til fjölskyldulífs, rétti til mannúðlegra aðstæðna í varðhaldi og réttinum til lífs, í þeim tilfellum sem hinir horfnu eru líflátnir. Í mörgum tilvikum má líta á þvinguð mannshvörf sem glæpi gegn mannkyninu.