Í dag, á alþjóðlegum mannréttindadegi, lýkur 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi.
Í dag, á alþjóðlegum mannréttindadegi, lýkur 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi. Átakið í ár var tileinkað baráttunni gegn mansali og skrifuðu sautján hundruð Íslendingar undir áskorun til stjórnvalda um að beita sér gegn mansali og samþykkja þverfaglega aðgerðaáætlun til að berjast gegn mansali sem byggi á verndun mannréttinda fórnarlambanna.
Aðstandendur 16 daga átaks fagna því að ríkisstjórnin hafi samþykkt tillögu félagsmálaráðherra og dómsmálaráðherra um að gerð verði aðgerðaáætlun gegn mansali en það er afar ánægjulegt að ríkisstjórnin hafi tekið þessa ákvörðun í tengslum við 16 daga átak.
Aðstandendur 16 daga átaks afhenda dómsmálaráðherra undirskriftir – og þakka fyrir aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar
Aðstandendur 16 daga átaks afhenda félagsmálaráðherra undirskriftir – og þakka fyrir aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar
Árlega verða þúsundir einstaklinga, aðallega konur og börn, fórnarlömb mansals. Talið er að hálf milljón kvenna, hið minnsta, sé á ári hverju flutt frá fátækum löndum jarðar til þeirra ríkari þar sem þær eru þvingaðar til starfa í kynlífsiðnaðinum. Mörgum er rænt og haldið nauðugum, þær eru barðar og niðurlægðar og beittar kynferðislegu ofbeldi við aðstæður sem minna mest á þrælahald.
Mansal ógnar mannréttindum og grundvallargildum í lýðræðissamfélagi en heildastæðar aðgerðir geta komið í veg fyrir að aðilar er stunda mansal tengt kynlífsiðnaði nái að fótfestu á Íslandi. Aðstandendur 16 daga átaks hafa því tekið saman tillögur sem æskilegt væri að stjórnvöld hefðu til hliðsjónar við gerð aðgerðaáætlunar gegn mansali og lýsa sig jafnframt reiðubúna til samstarfs um gerð áætlunarinnar.
