Marokkó: Úígúri í hættu

Idris Hasan, Úígúri sem býr í Tyrklandi, var handtekinn í júlí 2021 í Marokkó vegna þess að hann var eftirlýstur af Interpol. Kínversk yfirvöld skilgreina hann sem hryðjuverkamann vegna starfa sem hann hefur unnið fyrir úígúrísk samtök. Lög í Kína skilgreina hryðjuverk með víðtækum og óljósum hætti og þeim hefur verið beitt til að ofsækja Úígúra og aðra múslimska minnihlutahópa. Þann 15. desember 2021 staðfestu dómstólar í Marokkó framsal Idris Hasan. Hann er enn í varðhaldi og í mikilli hættu að verða framseldur til Kína þar sem hann verður líklega pyndaður og fangelsaður að geðþótta.

Skráðu þig í sms-aðgerðanetið hér.

Idris Hasan er 34 ára tölvuhönnuður sem hefur búið í Tyrklandi síðan 2012 með konu sinni og þremur börnum. Hann er frá Korla, Xinjiang og Úígúri að uppruna. Hann var handtekinn 19. júlí á flugvelli í Marokkó þegar hann millilenti á leið sinni til Vestur-Evrópu þar sem hann upplifði sig ekki lengur öruggan í Tyrklandi. 

Í 3. grein í samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri meðferð kemur fram að bannað er að framselja einstaklinga á staði þar sem þeir eiga á hættu að sæta grimmilegri meðferð. Marokkó er hlutaðili að þessum samningi. 

Þrátt fyrir það komust dómstólar í Marokkó að þeirri niðurstöðu að það ætti að framselja hann. Nefnd Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum fer fram á að Idris verði ekki framseldur. Vegna mikils alþjóðlegs þrýsting er Idris enn í Marokkó. 

Síðan 2017 hefur ríkisstjórn Kína haldið uppi kerfisbundnu ofbeldi gegn múslimum sem búa í Xinjiang. Talið er að yfir milljón einstaklinga hafi sætt varðhaldi að geðþótta síðan þá.  

Sms-félagar krefjast þess að yfirvöld í Marokkó hætti við framsal Idris Hasan.