Meirihluti aðspurðra á Írlandi vilja afglæpavæða fóstureyðingar

Samkvæmt nýlegum niðurstöðum skoðanakönnunar á vegum Amnesty International eykst þrýstingur á írsk stjórnvöld að endurbæta fóstureyðingarlöggjöf í landinu sem er ein sú harðasta í heimi. 

Samkvæmt nýlegum niðurstöðum skoðanakönnunar á vegum Amnesty International eykst þrýstingur á írsk stjórnvöld að endurbæta fóstureyðingarlöggjöf í landinu sem er ein sú harðasta í heimi.

Skoðanakönnunin, sem rannsóknar og markaðsfyrirtækið Red C ýtti úr vör fyrir Amnesty International, leiddi í ljós að meirihluti Íra er ekki kunnugt um að fóstureyðing sé glæpur í landinu. Könnunin leiddi einnig í ljós að yfirgnæfandi meirihluti aðspurðra er andsnúin refsiákvæðum í lögum gegn konum sem leita sér fóstureyðingar eða gegn læknum sem verða við fóstureyðingum.

67% aðspurða voru fylgjandi afglæpavæðingu fóstureyðinga, 25% andsnúinn. 81% aðspurðra voru fylgjandi löglegri fóstureyðingu í einhverjum tilvikum.  

„Ljóst er að viðhorf almennings á Írlandi til fóstureyðinga hefur tekið miklum breytingum. Fólk sýnir þeim aðstæðum sem konur finna sig í meiri skilning og trúir því staðfastlega að ekki eigi að refsa konum sem leita sér fóstureyðingar,“ segir Colm O’Gorman framkvæmdastjóri Amnesty International á Írlandi. „Skoðanakönnunin sýnir fram á að írska þjóðin stendur mun framar írskum stjórnvöldum í skoðun sinni á fóstureyðingum. Sú umræða sem við verðum að eiga um fóstureyðingar á Írlandi mun reynast krefjandi en hún verður að eiga sér stað. Írsk stjórnvöld verða að hlusta á írsku þjóðina. Afglæpavæðing fóstureyðinga er ekki eingöngu mannréttindamál – það er vilji almennings á Írlandi að afglæpavæðing fóstureyðinga nái fram að ganga. Það þýðir að afnema verður breytingarlög á írsku stjórnarskránni um bann við fóstureyðingum sem tóku gildi árið 1983.“

Niðurstöður skoðanakönnunarinnar:

64% Íra vissu ekki að refsing lægi við fóstureyðingu á Írlandi þegar líf konu er ekki í hættu.

Aðeins 9% aðpurðra vissu að refsing sem varðar allt að 14 ára fangelsi liggur við fóstureyðingum í landinu.

Aðeins 7% aðspurðra voru hlynntir því að konur sem leita sér fóstureyðingar geti átt yfir höfði sér allt að 14 ára fangelsisdóm.

Einungis 13% aðspurðra voru fylgjandi því að læknar hlytu 14 ára fangelsisdóm fyrir að framkvæma ólöglega fóstureyðingu.

71% aðspurðra voru þeirrar skoðunar að refsing vegna fóstureyðingar ýtti undir þjáningar og skömm þeirra kvenna sem gengust undir fóstureyðingu.

65% aðspurðra töldu fóstureyðingarbannið ýta konum út í að leita sér óöruggra fóstureyðinga.

68% aðspurðra töldu að fóstureyðingarbannið stöðvaði ekki konur í að leita sér fóstureyðingar.

Samkvæmt skoðanakönnuninni voru 70% aðspurðra sammála um að réttur kvenna til að leita sér fóstureyðingar heyrði til mannréttinda, þegar þungun er afleiðing nauðgunar eða sifjaspells, þegar líf eða heilsa konu eða stúlku er í hættu eða þegar um alvarlega eða lífshættulega fósturgalla ræðir. Þann 25. júní 2015 áréttaði nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna að réttur kvenna til fóstureyðingar væri mannréttindi og skoraði á írsk stjórnvöld að breyta fóstureyðingarlöggjöfinni í samræmi við alþjóðleg mannréttindaviðmið.

81% aðspurðra Íra fylgjandi rýmri löggjöf um fóstureyðingar en nú er í gildi. Hlutfall þetta telur til 36% Íra sem eru þeirrar skoðunar að leyfa eigi fóstureyðingar þegar líf konu eða stúlku er stefnt í hættu, þegar þungun er afleiðing nauðgunar eða sifjaspells eða þegar um alvarlega fósturgalla er ræða og 45% sem vilja ganga skrefinu lengra og leyfa konum að eiga frjálst val um fóstureyðingu. Aðeins 9% aðspurðra voru fylgjandi núverandi fóstureyðingarlöggjöf sem leyfir eingöngu fóstureyðingar þegar líf konu eða stúlku er í mikilli hættu. „Það sem kom okkur á óvart var hversu fáir þátttakendur í skoðanakönnuninni neituðu að svara spurningum eða höfðu enga skoðun á því sem spurt var um,“ segir Bryan Cox framkvæmdastjóri rannsóknar og markaðsfyrirtækisins Red C.

Skoðanakönnunin er hluti af herferð Amnesty International þar sem áhersla er lögð á að írsk stjórnvöld fylgi mannréttindaákvæðum um fóstureyðingar.

Starfsfólk RED C tók rúmlega 1000 símaviðtöl við írska borgara um gjörvallt landið frá 11. til 14. maí 2015. Stærð þýðisins réðst af aldri, kyni og félagslegri og efnahagslegri stöðu.

Þann 9. júní 2015 gaf Amnesty International út skýrsluna, Hún er ekki glæpamaður: Áhrif laga um fóstureyðingar á Írlandisem sýnir að fóstureyðingarlöggjöf á Írlandi brýtur í bága við alþjóðleg mannréttindalög. Eftir að skýrslan kom út áréttuðu Sameinuðu þjóðirnar að írsk stjórnvöld yrðu að breyta fóstureyðingarlöggjöfinni.

Amnesty International lét gera skoðanakönnunina áður en skýrsla samtakanna kom út til að kanna almenningsálitið áður en til áhrifa skýrslunnar kæmi.