Hin súdanska Meriam Yehya
Ibrahim, sem var dæmd ófrísk til dauða fyrir villutrú í vor, lenti á Ítalíu
snemma morguns 24. júlí ásamt fjölskyldu sinni. Hún var leyst úr haldi þann 23.
júní eftir að áfrýjunardómstóll sýknaði hana.
Hin súdanska Meriam Yehya Ibrahim, sem var dæmd ófrísk til dauða fyrir villutrú í vor, lenti á Ítalíu snemma morguns 24. júlí ásamt fjölskyldu sinni. Hún var leyst úr haldi þann 23. júní eftir að áfrýjunardómstóll sýknaði hana. Daginn eftir var hún handtekin á ný á flugvellinum þegar hún reyndi að yfirgefa Súdan með fjölskyldu sinni. Hún var ákærð fyrir fölsun og fyrir að gefa upp rangar upplýsingar þar sem hún var með skilríki frá suðursúdanska sendiráðinu í Khartoum. Eiginmaður Meriam er frá Suður-Súdan ásamt því að vera með bandarískt vegabréf. Í kjölfarið dvöldu þau í bandaríska sendiráðinu í Khartoum fram að brottför hennar. Ákærur á hendur henni hafa ekki verið felldar niður. Amnesty International hefur fylgst náið með máli hennar allan tímann en hefur ekki tekið afstöðu til ákærunnar eða ákvörðunar Meriam um að yfirgefa Súdan.
Það sem skiptir máli er að súdönsk yfirvöld endurskoði lögin sem Meriam var dæmd eftir svo aðrir þurfi ekki að ganga í gegnum sömu raunir og hún.
Afnema þarf 126. grein og 146. grein í refsilögum Súdan sem gera villutrú og hórdóm að glæp. Það brýtur gegn alþjóðalögum sem tryggja rétt einstaklinga til hugsanafrelsis, trúfrelsis, tjáningafrelsis, samviskufrelsis og félagafrelsis. Það, að villutrú sé refsiverð, brýtur gegn bráðabirgðastjórnarskrá Súdans frá árinu 2005. Þar, í 35. grein, er greint frá því að enginn skuli þvingaður til að taka upp trú gegn eigin sannfæringu og að allir hafi rétt til trúfrelsis. Til að súdönsk löggjöf samræmist eigin stjórnarskrá þarf að afnema þessar lagagreinar.
Súdönsk yfirvöld verða að sjá til þess að hætt verði að nota hýðingar til refsingar. Hýðingar brjóta gegn alþjóðalögum sem banna pyndingar og aðra illa meðferð.
Meriam var hlekkjuð þegar hún var í haldi. Það er grimmileg og ómannúðleg meðferð sem brýtur gegn alþjóðalögum um illa meðferð. Það sem gerði þetta enn verra í hennar tilfelli var að hún var komin átta mánuði á leið með sitt annað barn.
Súdönsk yfirvöld skulu lýsa yfir aftökuhléi í landinu sem fyrsta skrefinu í átt að afnámi dauðarefsingarinnar.
Yfir milljón manns tóku þátt í aðgerðum Amnesty International um heim allan í máli Meriam. Ýmsar deildir Amnesty International fóru með undirskriftir beint í súdanska sendiráðið og áttu með þeim fund.
Amnesty International áleit Meriam vera samviskufanga sem var dæmd einungis fyrir trúarskoðanir sínar.
Bakgrunnur:
Meriam Yehya Ibrahim var handtekin og kærð fyrir hórdóm í ágúst 2013 eftir að fjölskyldumeðlimur hafði tilkynnt hana fyrir að vera gift kristnum manni frá Suður-Súdan. Samkvæmt sjaría-lögum í Súdan má múslímsk kona ekki giftast manni sem er ekki múslimi og því er slíkt hjónaband álitið vera hórdómur. Í febrúar 2014 bættist við ákæra um villutrú þegar Meriam fullyrti að hún væri kristin en ekki múslimi. Móðir hennar, sem var kristin, ól hana upp í kristinni trú þar sem að faðir hennar, sem var múslimi, var fjarverandi í æsku hennar. Meriam var sakfelld 11. maí fyrir villutrú og hórdóm og þremur dögum síðar var hún dæmd til dauða eftir að hafa neitað að afneita trú sinni. Hún var einnig dæmd til hýðingar fyrir hórdóm. Hún var leyst úr haldi 23. júní eftir að áfrýjunardómstóll sýknaði hana.
