Hið alþjóðlega bréfamaraþon Amnesty International var haldið í fimmta sinn á Íslandi laugardaginn 13. desember og fór þátttakan fram úr björtustu vonum. Á þessum árlega viðburði hittast Amnesty-félagar og aðrir sem láta sér annt um mannréttindi og skrifa bréf og jólakort til þolenda mannréttindabrota sem og til þeirra sem bera ábyrgð á brotunum.
Í ár tóku tíu sveitarfélög um land allt þátt í viðburðinum en leitað var eftir þátttöku almenningsbókasafna á mörgum stöðum þar sem þau eru víða miðpunktur mannlífs og mikilvægir samkomustaðir. Bréfamaraþon hafa ósjaldan verið haldin á bókasöfnum erlendis með góðum árangri og var það jafnframt raunin hérlendis.
Að þessu sinni tók Íslandsdeild Amnesty International fyrir fimmtán mál frá Írak, Japan, Erítreu, Kóngó, Kambódíu, Mexíkó, Moldavíu, Íran, Nepal, Mósambík, Ísrael, Jórdaníu, Indlandi og Sri Lanka. Einnig setti deildin saman tillögur að kveðjum til þolenda mannréttindabrota og fjölskyldna þeirra, og útbúin voru fjórar gerðir af fyrirframskrifuðum póstkortum. Eitt til stuðnings mannréttindafrömuðinum Aung San Suu Kyi sem setið hefur í stofufangelsi í Mjanmar síðastliðin 18 ár, annað vegna þvingaðs mannshvarfs í Pakistan, hið þriðja til að þrýsta á stjórnvöld á Ítalíu vegna mismununar Roma-fólks þar í landi og að lokum til nýkjörins forseta Bandaríkjanna til að þrýsta á um lokun Gvantanamo fangabúðanna.
Samtals voru 1921 bréf og kort send frá Íslandi þetta árið og er það fimmfalt fleiri en í fyrra.
Bókasafn Grindavíkur sendi frá sér 60 bréf og kort, bókasafn Reykjanesbæjar 35, Selfoss 65, Kringlusafn 61, bókasafn Hafnarfjarðar 110, og bókasafn Akraness 56.
Frá Akureyri voru send 444 bréf og kort, Ísafirði 86, Egilsstöðum 158, Höfn í Hornafirði 276, og 628 frá Reykjavík.
Íslandsdeild Amnesty International sendir öllu því góða fólki sem stóð að framkvæmd bréfamaraþonsins og þeim mikla fjölda sem tók þátt, innilegustu þakkarkveðjur fyrir að láta sig mannréttindi svo miklu varða.
