Metþátttaka í bréfamaraþoninu 2012!

Árlegt bréfamaraþon Amnesty International fór fram um land allt dagana 6. til 15. desember 2012 og aldrei fyrr hafa jafn mörg aðgerðakort til yfirvalda og kveðjur til fórnarlamba mannréttindabrota verið send utan.

Nemendur í Menntaskólanum við Hamrahlíð skrifuðu undir tæplega 3.000 aðgerðakort til stjórnvalda sem brjóta mannréttindi

 Árlegt bréfamaraþon Amnesty International fór fram um land allt dagana 6. til 15. desember 2012 og aldrei fyrr hafa jafn mörg aðgerðakort til yfirvalda og kveðjur til fórnarlamba mannréttindabrota verið send utan. Auk þeirra sem skrifuðu undir aðgerðakort tóku félagar í sms-neti okkar og netákallinu virkan þátt í bréfamaraþoninu og þrýstu á stjórnvöld víða um heim að láta af mannréttindabrotum.

Alls söfnuðust 28.649 undirskriftir og undirskrifuð aðgerðakort til stjórnvalda víða um heim og persónulegar kveðjur til þolenda mannréttindabrota. Þetta er vel rúmlega tvöföldun frá bréfamaraþoninu 2011!

Á annan tug bókasafna víðs vegar um landið lögðu bréfamaraþoni samtakanna lið, auk þess sem einstaklingar á Akureyri, Egilsstöðum, Ísafirði, Höfn í Hornafirði og Þórshöfn tóku þátt og skipulögðu viðburði sem tókust með prýði.

Þá tóku átta skólar þátt í bréfamaraþoninu: Menntaskólinn við Hamrahlíð, Menntaskólinn í Borgarnesi, Menntaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn við Sund, Kvennaskólinn í Reykjavík, Fjölbrautaskólinn í Ármúla, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti og Framhaldsskólinn á Laugum. 

Við sendum öllu því góða fólki um land allt sem stóð að framkvæmd bréfamaraþonsins og þeim mikla fjölda sem tók þátt innilegustu þakkarkveðjur fyrir að láta sig mannréttindi svo miklu varða!