Mexíkó: Kynferðisofbeldi er beitt á kerfisbundin hátt sem pyndingaraðferð til að knýja fram játningar kvenna

Ný rannsókn sem Amnesty International ýtti úr vör leiddi í ljós að af hundrað konum sem samtökin ræddu við og sættu handtöku í Mexíkó, urðu flestar fyrir kerfisbundnu kynferðisofbeldi af hálfu öryggissveita ríkisins, í þeim tilgangi að ná fram sem flestum játningum. 

Ný rannsókn sem Amnesty International ýtti úr vör leiddi í ljós að af hundrað konum sem samtökin ræddu við og sættu handtöku í Mexíkó, urðu flestar fyrir kerfisbundnu kynferðisofbeldi af hálfu öryggissveita ríkisins, í þeim tilgangi að ná fram sem flestum játningum. Með játningar undir höndum gátu öryggissveitirnar státað sig af því að verða „ágengt í baráttunni gegn hömlulausri og skipulagðri glæpastarfssemi“ í landinu.
Allar konurnar, sem haldið var í fangelsi og tjáðu Amnesty International frá pyndingum og annarri illri meðferð sem þær sættu, greindu jafnframt frá reynslu sinni af kynferðislegri áreitni og andlegri misbeitingu bæði við yfirheyrslur og í varðhaldi lögreglu og hers. Sjötíu og tvær konur greindu frá því að hafa sætt kynferðisofbeldi við handtöku eða á einhverjum tímapunkti í kjölfar handtöku. Þrjátíu og þrjár konur greindu Amnesty International frá því að þær hafi sætt nauðgun.
Sextíu og sex konur kærðu ofbeldið til yfirvalda en rannsókn fór aðeins fram í tuttugu og tveimur málum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Amnesty International hefur undir höndum hefur engin sakfelling átt sér stað í kjölfar umræddra rannsókna.
„Sögur þessarra kvenna varpa ljósi á það hversu hrikalegar þær pyndingar eru sem konur þurfa að sæta í Mexíkó. Kynferðisofbeldi sem pyndingaraðferð er orðin hluti af yfirheyrslum í landinu. Konur á jaðri samfélagsins eru í mestri hættu á að verða fyrir barðinu á herferð stjórnvalda í svokallaðri „baráttu gegn fíkniefnum“. Þær eru auðveld bráð stjórnvalda sem hafa meiri áhuga á að sýna hversu mörgum þeir koma á bak við lás og slá, fremur en að handsama raunverulegu glæpamenn,“ segir Erika Guevara-Rosas, framkvæmdastjóri Ameríkuteymis Amnesty International.
Flestar konurnar sem Amnesty International ræddi við höfðu sætt kynferðisofbeldi, raflosti, barsmíðum, þukli og káfi á meðan á yfirheyrslu stóð eða í varðhaldi. Meirihluti þeirra sætti ásökunum um að tilheyra skipulagðri glæpa- eða fíkniefnastarfssemi. Margar kvennana voru málaðar sem glæpamenn í fjölmiðlum um leið og játning lá fyrir en flestar þeirra eru tekjulágar og hafa því ekki ráð á tilhlýðilegri lögfræðiaðstoð.
Þann 12. febrúar 2013 var Mónicu, 26 ára gamalli, fjögurra barna móður, hópnauðgað af sex lögreglumönnum, gefið raflost á kynfæri, sætti kæfingu með plastpoka og höfði hennar var dýft í vatnsfötu, í borginni Torreón í Coahila-fylki í norðurhluta Mexíkó. Meðlimir öryggissveita reyndu að þvinga hana til að játa aðild sína að glæpagengi. Mónica var einnig neydd til að horfa upp á eiginmann sinn og bróður sæta pyndingum.
Þegar pyndingarnar voru yfirstaðnar hélt lögreglan með Mónicu, eiginmann hennar og bróður, til ríkissaksóknara. Á leiðinni þangað lét eiginmaður Mónicu lífið í örmum hennar í kjölfar pyndinganna sem hann mátti þola. Síðar var hún þvinguð til að skrifa undir játningu þar sem hún játaði á sig aðild að eiturlyfjahring.  
Þrátt fyrir skýrslu sem Mannréttindanefnd Mexíkó gaf út í ágúst 2014, þar sem staðfest er að Mónica hafi sætt pyndingum, hefur enginn gerandi verið dreginn til ábyrgðar. Mónica er enn í fangelsi og bíður dómsúrskurðar vegna ákæru um aðild að skipulagðri glæpastarfsemi. Í apríl 2016 gaf Mannréttindanefnd Mexíkó út tilmæli þess efnis að rannsókn á máli hennar færi fram. Mónica er enn á bak við lás og slá.
Skortur á réttlæti
Samkvæmt gögnum frá umboðsmanni Mexíkó voru 12.000 kærur, vegna pyndinga og annarrar illrar meðferðar, sendar á ýmsar stofnanir umboðsboðsmanns landsins. Þar af voru 8.943 fórnarlömb karlmenn og 3.618 konur. Á árunum 2013 og 2014 tvöfaldaðist fjöldi kæra sem ríkissaksóknara landsins bárust vegna pyndinga en einungis örfáar þeirra hafa verið rannsakaðar.
Saksóknarar, dómsstólar og aðrir löggæsluaðilar bregðast enn því hlutverki sínu að rannsaka, ákæra og refsa opinberum aðilum sem gerast sekir um nauðgun eða annað kynferðisofbeldi og dæma slíkt ofbeldi sem hluta af pyndingum og annarri illri meðferð.
Þrátt fyrir gífurlegan fjölda kæra um kynferðisobeldi gegn konum og stúlkum af hálfu hermanna og lögreglu í Mexíkó þá sendi herinn Amnesty International skriflega tilkynningu sem segir að ekki einum einasta hermanni hafi verið vísað úr hernum á árunum 2010 til 2015 vegna nauðgunar eða kynferðisofbeldis. Herinn greindi ennfremur frá því að einungis fjórir sjóliðar hafi verið leystir frá störfum á sama tímabili. Einn sjóliði sem hlaut dóm og sat í fangelsi vegna kynferðisofbeldis var tímabundið leystur frá störfum og verður honum mögulega gert að koma aftur til starfa að fangavist lokinni.
„Þessi misbrestur sem hefur orðið á því að framfylgja viðeigandi rannsóknum og dómum sendir þau hættulegu skilaboð að nauðgun kvenna og stúlkna eða önnur beiting kynferðisofbeldis til að knýja fram játningar sé umborin og í raun samþykkt,” segir Erika Guevara-Rosas.
Konur og stúlkur fá mjög sjaldan tilhlýðilega læknisaðstoð eða sálfræðiþjónustu í kjölfar nauðgunar eða annars konar kynferðisofbeldis. Fjörtíu og níu konur af hundrað sem Amnesty International ræddi við sögðu að sú læknisaðstoð sem þær fengju í kjölfar handtöku væri annað hvort „slæm“ eða „mjög slæm“ og nítján þeirra sögðu læknisaðstoðina vera „í meðallagi“. Að auki hefur yfirvöldum mistekist að bregðast hratt við því að tryggja fullnægjandi réttarlæknisskoðunum á konum sem að sögn hafa sætt pyndingum eða annarri illri meðferð.
Sakamál í Mexíkó eru ennþá með þeim hætti að sönnunarbyrðin hvílir á einstaklingnum sem kærir pyndingar eða aðra illa meðferð. Slíkt brýtur í bága við alþjóðleg mannréttindalög og viðmið. Þá styðjast dómarar enn við sannanir sem fengnar eru frá saksóknara án þess að efast um lögmæti þeirra og útiloka ekki sönnunargögn sem fengin eru fram með pyndingum eða annarri illri meðferð.
Mannréttindanefnd Mexíkó gegnir hlutverki umboðsmanns verndar og virðingar mannréttinda í landinu og hefur gefið út tugi tilmæla um pyndingar og aðra illa meðferð á undanförnum árum. Engu að síður bliknar sá fjöldi tilmæla í samanburði við fjölda kæra sem nefndinni hefur borist. Á árunum 2010 og 2015 tók Mannréttindanefndin á móti 7.048 kærum um pyndingar og aðra illa meðferð en gaf einungis út 62 tilmæli. Nefndin bregst oft því hlutverki sínu að gefa fórnarlömbum pyndinga og annarrar illrar meðferðar afrit af málskjali þeirra og að ráðleggja þeim í framhaldi af niðurstöðu rannsóknar.  
Hættuleg leynd
Á meðan á rannsókn Amnesty International stóð neituðu stjórnvöld í Mexíkó að afhenda samtökunum mikilvægar upplýsingar. Innanríkisráðuneytið kom í veg fyrir að rannsakendur Amnesty International hefðu aðgengi að fleiri konum í fangelsi og í sumum tilfellum meinuðu þau rannsakendum inngöngu í fangelsi. Að auki höfnuðu yfirmenn hersins og flotans beiðni samtakanna um fund.
„Tilhneiging stjórnvalda í Mexíkó að reyna að hylma yfir vanda landsins er fullkomlega óraunhæf. Í stað þess að leggja allt kapp á að fela skýrslur um pyndingar og aðra illa meðferð ættu stjórnvöld að beina orku sinni í átt að útrýmingu pyndinga í eitt skipti fyrir öll með því að tryggja að gerendur verði dregnir til ábyrgðar og þolendur hljóti skaðabætur,“ segir Erika Guevara-Rosas.
Tækifæri til aðgerða
Stjórnvöld verða tafarlaust að grípa til aðgerða til að takast á við og fyrirbyggja kynferðisofbeldi og pyndingar gegn konum. Innanríkisráðuneytið kom nýverið á laggirnar starfshóp um „kynferðislegar pyndingar” en honum er ætlað að leiða saman yfirvöld í sambandsríkjum Mexíkó í þeim tilgangi að vinna gegn og rannsaka pyndingar. Á þeim níu mánuðum sem liðnir eru frá stofnun starfshópsins hefur hann verið óvirkur og ekkert orðið ágengt í þeim þremur málum sem lögð hafa verið fyrir hópinn.
Mexíkanska þingið hefur nú til umræðu löngu tímabær almenn frumvarpsdrög um pyndingar. Enda þótt sumir þættir þess séu jákvæðir þá verður löggjafinn að tryggja ákvæði sem fyrirbyggja notkun sönnunargagna, sem fengin eru með pyndingum eða annarri illri meðferð, í sakamálum, nema sem sönnun þess að pynding eða önnur ill meðferð hafi átt sér stað, þegar um málshöfðun gegn gerendum pyndinga ræðir.
HÉR MÁ LESA SKÝRSLU AMNESTY INTERNATIONAL SURVIVING DEATH: POLICE AND MILITARY TORTURE OF WOMEN IN MEXICO