Miðausturlönd: Nýrri bylgju mótmæla mætt með hörku

Samkvæmt ársskýrslu Amnesty International um ástand mannréttinda í Miðausturlöndum (Norður-Afríka þar meðtalin) beittu stjórnvöld á svæðinu sér af hörku gegn mótmælendum sem kölluðu eftir réttlæti og pólitískum umbótum á árinu 2019.

Í skýrslunni er greint frá því hvernig stjórnvöld beittu sér gegn mótmælendum í stað þess að hlusta á kröfur þeirra. Kúgunin beindist bæði að friðsömum gagnrýnendum á götum úti og á netinu.

Helstu atriði úr skýrslunni:

  • Staða mannréttinda í 19 löndum í Miðausturlöndum
  • Bylgja mótmæla í Alsír, Írak, Íran og Líbanon vekur vonir fólks
  • Ríflega 500 myrtir í Írak og rúmlega 300 í Íran í grimmilegum aðgerðum gegn mótmælum
  • Ofsóknir gegn friðsömum gagnrýnendum og baráttufólki gegn mannréttindum
  • 136 samviskufangar í haldi í 12 löndum vegna tjáningar á netinu

Mótmæli

Mótmælin í Miðausturlöndum fylgdu í takt við mótmæli um heim allan þar sem fólk hélt út á götur til að krefjast réttinda sinna, allt frá Hong Kong til Chile:

  • Í Írak og Íran beittu stjórnvöld grimmilegum aðgerðum gegn mótmælendum sem leiddu til dauða hundruð einstaklinga.
  • Í Líbanon beitti lögregla ólögmætu og óhóflegu valdi til að tvístra mótmælendum.
  • Í Alsír beittu stjórnvöld fjöldahandtökum og málsóknum til að berja niður mótmæli.
  • Í Súdan beittu öryggissveitir sér harkalega gegn fjöldamótmælum sem að lokum leiddi til pólitískts samkomulags við hreyfinguna sem leiddi mótmælin.

„Árið 2019 var ár mótspyrnu í Miðausturlöndum. Þetta var einnig ár sem sýndi að vonin lifir enn. Þrátt fyrir blóðugar afleiðingar uppreisna í Sýrlandi, Jemen og Líbíu árið 2011 og versnandi mannréttindaástands í Egyptalandi hefur trú fólksins  á samstöðu sem afli til breytinga verið endurvakin.“

Heba Moayef, framkvæmdastjóri Amnesty International í Miðausturlöndum og Norður-Afríku

Aðför gegn mótmælendum á götum úti

Stjórnvöld í Miðausturlöndum beittu margvíslegum aðferðum til að brjóta á bak aftur mótmæli almennings. Þúsundir mótmælenda voru handteknir að geðþótta og sums staðar var harkalegum og jafnvel banvænum aðgerðum beitt.

  • Í Írak féllu að minnsta kosti 500 einstaklingar á árinu 2019. Mótmælendur sýndu gríðarlega þrautseigju þrátt fyrir að standa frammi fyrir leyniskyttum og táragassprengjum.
  • Samkvæmt áreiðanlegum gögnum voru rúmlega 300 einstaklingar myrtir í Íran af öryggissveitum landsins á einungis fjórum dögum, dagana 15. til 18. nóvember, í tilraun stjórnvalda til að brjóta á bak aftur mótmæli. Þúsundir einstaklinga voru handteknir og margir sættu þvinguðu mannshvarfi og pyndingum.
  •  Ísraelskar hersveitir myrtu tugi Palestínubúa sem mótmæltu í Gaza og á Vesturbakkanum.
  • Fjöldamótmæli í Alsír urðu til þess að Abdelaziz Bouteflika forseti landsins sagði af sér embætti eftir 20 ár á valdastólnum. Stjórnvöld reyndu að brjóta á bak aftur mótmæli með fjöldahandtökum og málsóknum gegn mótmælendum.
  • Fjöldamótmæli í Líbanon, sem hófust í október og leiddu til afsagnar ríkisstjórnarinnar, byrjuðu að mestu friðsamlega. Í nokkur skipti voru mótmælendur beittir ofbeldi og öryggissveitir brugðust skyldu sinni að vernda friðsama mótmælendur sem urðu fyrir árásum frá stuðningsfólki pólitískra andstæðinga.
  • Í Egyptalandi brutust út mótmæli í september sem komu stjórnvöldum að óvörum. Þau brugðust við með fjöldahandtökum á rúmlega 4000 einstaklingum.

Kúgun gegn andófi á netinu

Stjórnvöld réðust ekki aðeins gegn mótmælendum á  götum úti heldur einnig fólki sem nýtti tjáningarfrelsi sitt á netinu. Fjölmiðlafólk, bloggarar og aðgerðasinnar sem skrifuðu færslur eða settu myndbönd á samfélagsmiðla sem voru álitin gagnrýnin á stjórnvöld voru handtekin, yfirheyrð og sættu málsóknum. Samkvæmt tölum Amnesty International voru 136 einstaklingar í 12 löndum handteknir fyrir friðsama tjáningu á netinu. Stjórnvöld misnotuðu einnig vald sitt til að hindra aðgang fólks l að  upplýsingum eða deilingu þeirra.

  • Í Íran lokuðu stjórnvöld nánast alveg fyrir aðgengi að netinu þegar mótmæli stóðu yfir til að stöðva dreifingu myndbanda og mynda af öryggissveitum sem myrtu og særðu mótmælendur. Áfram var lokað fyrir samfélagsmiðla eins og Facebook, Telegram, Twitter og YouTube.
  • Í Egyptalandi trufluðu stjórnvöld notkun samskiptaforrita í tilraun sinni til að hindra frekari mótmæli.
  • Vefsíður voru ritskoðaðar af egypskum og palestínskum stjórnvöldum.

Nokkur ríki beittu einnig háþróaðri tækni í eftirliti á netinu gegn baráttufólki fyrir mannréttindum. Rannsókn Amnesty International beindi athygli að tveimur mannréttindasinnum frá Marokkó sem voru skotmark njósnahugbúnaðar, þróaður af ísraelska fyrirtækinu NSO Group. Sama hugbúnaði hafði áður verið beitt gegn aðgerðasinnum í Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmunum auk starfsmanns Amnesty International.

Amnesty International skráði 367 mannréttindasinna sem voru settir í varðhald (þar af voru 240 handteknir að geðþótta eingöngu í Íran) og 118 voru sóttir til saka árið 2019. Talan er þó að öllum líkindum hærri.

„Það að stjórnvöld í Miðausturlöndum sýna ekkert umburðarlyndi gagnvart friðsamri tjáningu á netinu lætur í ljós ótta þeirra við mátt hugmynda sem stangast á við þeirra. Stjórnvöld verða að leysa alla samviskufanga úr haldi án tafar og skilyrðislaust og hætta að áreita friðsama gagnrýnendur og mannréttindasinna.“

 Philip Luther, yfirmaður rannsóknar-og aðgerðadeildar Miðausturlanda og Norður-Afríku hjá Amnesty International.

Vonarglæta

Þrátt fyrir að refsileysi sé útbreitt í Miðausturlöndum náðist sögulegur árangur í að sækja ábyrgðaraðila til saka. .

  • Alþjóðasakamáladómstóllinn gaf út yfirlýsingu um að stríðsglæpir hefðu verið framdir á hernumdu svæðum Palestínu og fóru fram á að hafin yrði rannsókn um leið og lögsaga dómstólsins væri staðfest. Þetta er mikilvægt tækifæri til að binda endi á refsileysi. Dómstóllinn gaf einnig til kynna að rannsókn yrði gerð á mannfalli í mótmælum á Gaza vegna harkalegra aðgerða Ísraela.
  • Sannleiksnefnd í Túnis gaf útlokaskýrslu og 78 réttarhöld hófust sem opnar á möguleikann að draga öryggissveitir til ábyrgðar fyrir ofbeldi fyrri ára.

Réttindi kvenna eiga enn á brattann að sækja á svæðinu og herjað hefur verið á baráttukonur, sérstaklega í Íran og Sádi-Arabíu. Þó áttu einhverjar umbætur  sér stað:

  • Sádi-Arabía innleiddi löngu tímabærar umbætur á kerfi sem skyldar konur til að lúta forsjá karlmanna þar í landi. Það skyggði þó á að fimm baráttukonur fyrir mannréttindum voru áfram í haldi allt árið 2019 fyrir aðgerðir sínar í þágu mannréttinda.

Nokkur Persaflóaríki tilkynntu umbætur til verndar farandverkafólki:

  • Katar lofaði að leggja niður kafala, kerfi þar sem farandverkafólk er skyldugt til að hafa ábyrgðaraðila sem er oftast vinnuveitandi.
  • Jórdanía og Sameinuðu arabísku furstadæmin boðuðu umbætur á kafala.

Farandverkafólk verður þó enn fyrir misbeitingu á svæðinu.

„Stjórnvöld í Miðausturlöndum þurfa að læra að þau geta ekki bælt  niður kröfur fólks um félagsleg-, efnahagsleg og stjórnmálaleg grunnréttindi með því að kúga mótmælendur og fangelsa friðsama gagnrýnendur og baráttufólk fyrir mannréttindum. Í stað þess að brjóta á mannréttindum til að halda völdum verða stjórnvöld að tryggja pólitísk réttindi fólks svo það geti tjáð kröfur sínar og veitt ríkisstjórnum aðhald.“

Heba Moayef, framkvæmdastjóri Amnesty International í Miðausturlöndum og Norður-Afríku.

ÁRSSKÝRSLUNA MÁ LESA HÉR Í HEILD SINNI

Frétt um árskýrslu Amnesty International um ástand mannréttindamála í Asíu árið 2019