Amnesty International lýsti því yfir í dag að stefna Barack Obama Bandaríkjaforseta í hinu svokallaða, stríði gegn hryðjuverkum á fyrstu 100 dögunum í embætti, einkennist fremur af loforðum um breytingar en raunverulegum aðgerðum.
Myndband Amnesty International um fyrstu 100 daga nýs Bandaríkjaforseta
Amnesty International lýsti því yfir í dag að stefna Barack Obama Bandaríkjaforseta í hinu svokallaða, stríði gegn hryðjuverkum á fyrstu 100 dögunum í embætti, einkennist fremur af loforðum um breytingar en raunverulegum aðgerðum.
Samtökin fögnuðu yfirlýsingum forsetans, sem hann sendi frá sér aðeins tveimur sólarhringum eftir embættistöku, um lokun fangabúðanna í Gvantanamó innan árs, að binda enda á rekstur leynilegra fangelsa í umsjá Leyniþjónustu Bandaríkjanna og varpa hulunni af þeirri leynd sem ríkti hjá fyrrverandi ríkisstjórn undir stjórn Bush í „stríðinu gegn hryðjuverkum“.
Uppgjör við fortíðina verður hins vegar ekki að veruleika fyrr en Bandaríkjastjórn fylgir því eftir í verki að loka öllum ólögmætum leynifangelsum, sækir alla til saka sem báru ábyrgð á pyndingum og öðrum alvarlegum mannréttindabrotum á tímum Bush-stjórnarinnar, og tryggir að fórnarlömb þessara mannréttindabrota fái raunverulegar bætur.
Þetta mat Amnesty International byggir á nýútkominni skýrslu samtakanna sem fjallar um aðgerðir nýrrar ríkisstjórnar í stefnumálum Bandaríkjanna í „stríðinu gegn hryðjuverkum“.
Skýslan varpar ljósi á ýmislegt sem ber vott um jákvæða þróun í þessum efnum á fyrstu hundrað dögum Obama í embætti, þar með talið tilskipanir um lokun Gvantanamó, lokun leynifangelsa og ný viðmið í yfirheyrsluaðferðum sem eiga að útiloka harkalegri yfirheyrslutækni.
En í skýrslunni kemur ennfremur fram að skilaboð Barack Obama á fyrstu hundrað dögunum í forsetaembættinu eru misvísandi.
Barack Obama Bandaríkjaforseti skipaði fyrir um birtingu fjögurra leynilegra minnisblaða um samþykktir og notkun Leyniþjónustu Bandaríkjanna (CIA) á yfirheyrsluaðferðum sem samsvara pyndingum og illri meðferð á föngum. Obama hefur fordæmt þessar yfirheyrsluaðferðir en jafnframt sagt að þeir sem þær stunduðu verði ekki dregnir til ábyrgðar ef í ljós kemur að hinir sömu fylgdu eftir lagalegum ráðleggingum frá Dómsmálaráðuneytinu í þessum efnum. Forsetinn undirstrikaði ennfremur að hann kysi fremur að líta til framtíðar en fortíðar og að sú ákvörðun að hrinda rannsókn í framkvæmd væri í höndum dómsmálaráðherra landsins.
Forsetinn gaf út tilskipun um lokun Gvantanamó fangabúðanna í náinni framtíð en gaf engin fyrirheit um að fangarnir muni hljóta réttláta málsmeðferð og að réttað verði yfir þeim í bandarískum dómstólum eða að öðrum kosti verði þeir tafarlaust leystir úr haldi. Framtíð hinna 240 fanga sem enn sæta varðhaldsvist í Gvantanamó er þar af leiðandi óljós enn sem komið er. Aðeins einn fangi hefur verið leystur úr haldi frá því í janúar og enginn sætt kæru. Raunar sætir fjöldinn allur af föngum varðhaldsvistun um ótilgreindan tíma, þrátt fyrir úrskurð bandarískra ríkissaksóknara um tafarlausa lausn þeirra úr haldi.
Ennfremur fyrirskipaði Obama lokun allra leynifangelsa í umsýslu Leyniþjónustunar og lagði bann við slíkum rekstri í framtíðinni en skyldi þann möguleika eftir opinn að bandaríska Leyniþjónustan getur enn numið fólk á brott og haldið því föngnu til skemmri tíma.
Forsetinn lagði fram tilskipun sem leggur bann við pyndingum og annarri illri meðferð en samþykkir sérlegan leiðarvísi bandaríska hersins þar sem lagt er fram leyfi til að svipta fanga svefni og setja þá í einangrun til lengri tíma, auk þess að vekja og ýta undir ótta fangans með þeim hætti sem brýtur í bága við alþjóðlegt bann við pyndingum og annarri illri meðferð.
Barack Obama lýsti því yfir að horfið yrði frá þeirri leynd sem fylgdi aðgerðum Bush-stjórnarinnar í „stríðinu gegn hryðjuverkum“, en upplýsingum um 500 einstaklinga sem haldið er föngnum í herstöð Bandaríkjanna í Bagram er ennþá haldið frá almenningi.
Forsetinn styðst ekki við orðanotkun fráfarandi ríkisstjórnar, eins og, „stríð gegn hryðjuverkum“ og „ólögmætir bardagamenn“, en styðst ennþá við lög um stríðsrekstur fremur en hegningarlög og mannréttindi í allri umræðu um leiðir til að sporna við hryðjuverkum.
Í skýrslu Amnesty International kemur ennfremur fram að Obama og ríkisstjórn hans hefur mistekist að standa vörð um mannréttindi með því að:
(1). Fullyrða að þeir útsendarar í Leyniþjónustu Bandaríkjanna sem studdust við lagalegar ráðleggingar Dómsmálaráðuneytisins verði ekki sóttir til saka jafnvel þó hinir sömu hafi gerst sekir um pyndingar eins og vatnspyndingar. Þetta samsvarar refsileysi fyrir glæpi sem bannaðir eru samkvæmt alþjóðalögum og er í sjálfu sér ennfremur refsivert í alþjóðalögum.
(2). Meina fólki af erlendum uppruna sem er í haldi á bandarískum flugvelli í Bagram í Afganistan um réttinn til málsmeðferðar fyrir bandarískum dómstólum.
(3). Taka ekki skrefið til fulls og hafna refsileysi fyrir þau víðtæku mannréttindabrot sem tengjast „stríðinu gegn hryðjuverkum. Þó er tekið fram í skýrslunni að undir lok hundrað daga tímabilsins í embætti hafi Obama sýnt vilja til að styðja við rannsókn beggja flokka á Bandaríkjaþingi á stefnu og aðgerðum sem notaðar voru við yfirheyrslur.
Allt frá árinu 2004 hefur Amnesty International hvatt til að óháðri rannsóknarnefnd verði komið á laggirnar sem hefur nægilegt vald og fjármagn til að rannsaka allar yfirheyrsluaðferðir og öll leynifangelsi sem ríkisstjórn Bush réttlætti í nafni „stríðsins gegn hryðjuverkum“.
„Við spyrjum hvort þau loforð sem forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, gaf heimsbyggðinni um stefnubreytingu í veigamiklum málum og fyrstu skrefin sem tekin hafa verið, gefi fyrirheit um raunverulegar og varanlegar breytingar í átt að virðingu fyrir mannréttindum í baráttunni gegn hryðjuverkum. Við munum halda áfram að berjast fyrir slíkum breytingum á næstu dögum, mánuðum og á ókomnum árum,“ sagði Irene Khan framkvæmdastjóri Amnesty International.
