Lausn Dr. Tun Aung, friðsamlegs aðgerðasinna sem var fangelsaður fyrir það eitt að koma í veg fyrir ofbeldi, er jákvætt skref, en yfirvöld í Mjanmar þurfa að frelsa tugi annarra samviskufanga sem eru enn bak við lás og slá, sagði Amnesty International.
Lausn Dr. Tun Aung, friðsamlegs aðgerðasinna sem var fangelsaður fyrir það eitt að koma í veg fyrir ofbeldi, er jákvætt skref, en yfirvöld í Mjanmar þurfa að frelsa tugi annarra samviskufanga sem eru enn bak við lás og slá, sagði Amnesty International.
Dr. Tun Aung, leiðtogi í múslímsku samfélagi og læknir, var leystur úr haldi 19. janúar. Hann var fyrst fangelsaður árið 2012 eftir að hafa reynt að róa niður mannfjölda í óeirðum milli búddista og Rohingya-múslima í Rakhine fylki, vesturhluta Mjanmar og var í dæmdur í allt að 17 ára fangelsi fyrir uppspunnar ákærur.
„Þessi ákvörðun yfirvalda er kærkomin og við gleðjumst yfir því að Dr. Tun Aung sé loksins frjáls og muni sameinast fjölskyldu sinni. Lausn hans er hvatning fyrir alla sem kröfðust frelsi hans innanlands sem utan, sagði Rupert Abbot, rannsóknarstjóri Suðaustur-Asíu- og Kyrrahafsdeildar.
„Fyrir það fyrsta hefði hann aldrei átt að vera fangelsaður. Ákærur gegn honum voru tilhæfulausar og réttarhöldin farsakennd.“
Dr. Tun Aung á einnig hættu á því að verða handtekinn á ný og fangelsaður þar sem hann var leystur úr haldi með skilyrðum. Yfirvöld í Mjanmar verða að afnema öll skilyrði og tryggja að hann geti nýtt mannréttindi sín á friðsamlegan máta án þess að eiga það á hættu að verða handtekinn eða sakaður um saknæmt athæfi.
„Þrátt fyrir lausn Dr. Tun Aung eru enn tugir samviskufanga í fangelsi í Mjanmar. Leysa þarf þá alla úr haldi án tafar og skilyrðislaust.“
Mannskætt ofbeldi braust út á milli Rohingya-múslima og búddista í Mjanmar sumarið 2012 og hefur brotist út öðru hvoru síðan þá. Þrátt fyrir trúverðuga vitnisburði um að öryggissveitir hafi tekið þátt í ofbeldinu eða leyft því að gerast, þá hefur enginn úr þeim hópi verið dreginn til ábyrgðar.
Á meðan Dr. Tun Aung þurfti að þjást í fangelsi þá hafa þeir sem báru ábyrgð á ofbeldinu fengið að ganga frjálsir. Yfirvöld ættu að beina kröftum sínum í að draga til ábyrgðar gerendur mannréttindabrota en ekki að fangelsa þá sem reyna að koma í veg fyrir þau, sagði Rupert Abbot.
Í október 2012 skilgreindi Amnesty International Dr. Tun Aung sem samviskufanga. Ári síðar í desember 2013 var mál hans eitt af málunum sem var tekið upp í bréfamaraþoni Amnesty International þar sem milljónir manna um allan heim gripu til aðgerða fyrir þolendur mannréttindabrota. Samkvæmt bréfi frá Mannréttindanefnd Mjanmar þá leiddu bréf frá félögum Amnesty International til þess að mál Dr. Tun Aung var skoðað nánar.
