Mjanmar: leysið alla samviskufanga úr haldi!

Amnesty International fagnar því að Aung San Suu Kyi hafi verið leyst úr haldi, en hvetur um leið stjórnvöld í Mjanmar til að leysa alla samviskufanga í landinu tafarlaust úr haldi.

Amnesty International fagnar því að Aung San Suu Kyi hafi verið leyst úr haldi, en hvetur um leið stjórnvöld í Mjanmar til að leysa alla samviskufanga í landinu tafarlaust úr haldi.

 

Aung San Suu Kyi er þekktasti samviskufangi Mjanmar og hefur setið í stofufangelsi í yfir 15 ár á síðasta 21 ári. Hún var ein af 2.200 pólitískum föngum í landinu, en þeirra á meðal eru margir samviskufangar, sem haldið er við hræðilegar aðstæður fyrir það eitt að nýta sér rétt sinn til friðsamlegra mótmæla.

Aung San Suu Kyi, sem er fyrrum friðarverðlaunahafi Nóbels, hefur verið í haldi frá 30. nóvember 2003, þegar ofbeldismenn á vegum stjórnarinnar réðust á bílalest hennar í Depayin og drápu óþekktan fjölda fólks og meiddu marga. Þetta er í þriðja sinn sem henni hefur verið haldið í stofufangelsi, en áður var henni haldið frá 1989 til 1995 og frá 2000 til 2002.

 

Yfir 2.200 pólitískir fangar eru í fangelsi í Mjanmar. Þeim er haldið á grundvelli óljóss orðalags í lögum sem stjórnvöld nota iðulega til að refsa fyrir friðsamlegt pólitískt andóf.

Föngunum er haldið við vondar aðstæður, matur er ónógur og hreinlæti ábótavant. Margir eru heilsuveilir og fá ekki fullnægjandi læknisaðstoð.

Margir sættu pyndingum meðan á yfirheyrslum og varðhaldsvist stóð og eiga enn á hættu að sæta pyndingum fangavarða.

Amnesty International telur að yfirgnæfandi meirihluti þessara pólitísku fanga séu samviskufangar, sem haldið er fyrir það eitt að nota sér tjáningar- funda- og félagafrelsi sitt með friðsamlegum hætti.

Margir þeirra, sem eru í haldi, tóku þátt í Saffranbyltingunni árið 2007, sem spratt af mótmælum gegn miklum hækkunum á eldsneyti og öðrum vörum.

Undanfarin þrjú ár hafa hundruð pólitískra fanga verið flutt í afskekkt fangelsi, þar sem ættingjar, lögfræðingar og læknar eiga óhægt um vik að heimsækja þá. Iðulega berast fréttir af pyndingum og annarri illri meðferð föngunum.

Alþjóða Rauði krossinn hefur ekki fengið að heimsækja fangelsi í Mjanmar frá því í desember 2005.