Mjanmar: Stúdentaleiðtogi laus úr haldi

Fyrr í mánuðinum bárust gleðifréttir. Fyrir rétti voru allar ákærur á hendur stúdentum í Mjanmar felldar niður og Phyoe Phyoe Aung og félagar hennar gengu út í frelsið.
Hún var handtekin í mars 2015 ásamt rúmlega hundrað námsmönnum sem stóðu fyrir friðsömum mótmælum gegn nýjum lögum í Mjanmar.

Fyrr í mánuðinum bárust gleðifréttir. Fyrir rétti voru allar ákærur á hendur stúdentum í Mjanmar felldar niður og Phyoe Phyoe Aung og félagar hennar gengu út í frelsið.

Phyoe Phyoe Aung var handtekin í mars 2015 ásamt rúmlega hundrað námsmönnum sem stóðu fyrir friðsömum mótmælum gegn nýjum lögum í Mjanmar. Lögregla stöðvaði mótmælin, barði stúdentana með kylfum og beitti þá öðru ofbeldi. Námsmennirnir voru síðar ákærðir á grundvelli fjölda hæpinna sakarefna og sett í fangelsi, sumir í einangrun með takmarkaðan aðgang að lögfræðingum. Phyoe Phyoe Aung, ásamt öðrum stúdentum átti yfir höfði sér allt að níu ára fangelsisdóm þegar mannréttindasinnar frá Amnesty International hófu að berjast fyrir réttlæti þeirra. 

Mál hennar var eitt af þeim tólf málum sem tekin voru fyrir í Bréfamaraþoni Amnesty, Bréf til bjargar lífi, í desember 2015. Mannréttindasinnar Amnesty International um allan heim skrifuðu alls 394.000 bréf, tölvupósta og tíst þar sem þeir kröfðust þess að stjórnvöld leystu alla fangana í Mjanmar úr haldi skilyrðislaust og án tafar. Loks blés ungliðahreyfing samtakanna til samstöðuaðgerða þar sem ungliðar voru hvattir til að nota samfélagsmiðla til að knýja á breytingar í gegnum ljósmyndaaðgerðir.  Alls stóðu meðlimir í ungliðahreyfingu Íslandsdeildarinnar fyrir sex aðgerðum, þar sem 440 manns tóku þátt og söfnuðu samtals 153 ljósmyndum sem enduðu á miðlægri Fésbókarsíðu verkefnisins. Aðeins eitt land safnaði fleiri ljósmyndum en það var Noregur en þess má geta að þau stóðu fyrir samstöðuaðgerðinni.

Íslandsdeild Amnesty International þakkar öllum þeim sem lögðu hönd á plóg í Bréfamaraþoni samtakana sem og þeim vösku ungmennum sem notuðu mátt samfélagsmiðla til að knýja á breytingar. Barátta ykkar sem og skoðanasystkina um allan heim hefur borið árangur.