Mögnuð ljósmyndasýning Ástu Kristjánsdóttur opnuð!

Íslandsdeild Amnesty International og Ásta Kristjánsdóttir ljósmyndari tóku höndum saman við gerð ljósmyndasýningarinnar Minn líkami, Mín réttindi sem opnar þann 11. júní klukkan 17:00 í sýningarsalnum Gym&Tonic á Kex Hostel. 

Íslandsdeild Amnesty International og Ásta Kristjánsdóttir ljósmyndari tóku höndum saman við gerð ljósmyndasýningarinnar Minn líkami, Mín réttindi sem opnar þann 11. júní klukkan 17:00 í sýningarsalnum Gym&Tonic á Kex Hostel.

Á sýningunni túlkar Ásta þær tilfinningar sem fólk upplifir þegar það sætir brotum á kyn- og frjósemisréttindum þ.e. réttindum sem lúta að kynferði, líkamanum, kynhneigð og frjósemi. Í hlutverkum þolenda eru: Álfrún Örnólfsdóttir, Andrea Marín Andrésdóttir, Arnmundur Ernst Backman, Brynhildur Guðjónsdóttir, Daníel Ágúst Haraldsson, Erna Ómarsdóttir, Ólafur Darri Ólafsson, Páll Óskar Hjálmtýsson, Saga Garðarsdóttir og Þórdís Elva Þorvaldsdóttir.

Ásta Kristjánsdóttir á langan feril að baki og starfar í dag sem ljósmyndari í Reykjavík. Í myndum sínum leitast Ásta gjarnan við að senda skilaboð til áhorfandans sem endurspegla sýn hennar á samfélagið. 

Búninga- og leikmynda hönnuður: Sara María Júlíudóttir

Förðun og hár: Elísabet Ormslev

Allir þeir sem taldir eru upp hér að ofan gáfu vinnu sína og eftirfarandi aðilar lögðu hönd á plóg til að verkefnið gæti orðið að veruleika.

Ísafold Prentsmiðja, Kex Hostel, Vífilfell, Innrammarinn og Heimir Sverrisson.

Allir eiga rétt á frelsi til ákvarðana um líf sitt og líkama. Víða eru þó margir sviptir þessum sjálfsákvörðunarrétti og sæta refsingu fyrir að nýta þann rétt. Í Úganda er fólk sett á bak við lás og slá fyrir það eitt að elska einstakling af sama kyni. Í El Salvador er fortakslaust bann við fóstureyðingum jafnvel þótt líf konu eða stúlku sé í húfi eða þungun afleiðing nauðgunar eða sifjaspells. Í Búrkína Fasó fá konur ekki getnaðarvörn nema með samþykki maka og í Túnis neyðast þolendur nauðgana oft til að giftast kvalara sínum.

Allt eru þetta brot á alþjóðlega viðurkenndum mannréttindum sem kallast kyn- og frjósemisréttindi en milljónir sæta slíkum brotum á degi hverjum. Þess vegna ýtti Amnesty International herferðinni, Minn líkami, Mín réttindi , úr vör sem beinir sjónum að þessum réttindum okkar.

Hugtakið kyn- og frjósemisréttindi vísar til margskonar mannréttinda sem skipta máli í öllu sem viðkemur kynhneigð, kynferði og frjósemi. Kyn- og frjósemisréttindi tengjast jafnframt frelsi frá mismunun, þvingun og valdbeitingu og réttinum til að njóta bestu mögulegu kyn- og frjósemisheilsu. Virðing fyrir þessum réttindum er nauðsynleg til að geta lifað með reisn og notið líkamlegrar, andlegrar, tilfinningalegrar og félagslegrar velferðar.

Ríkisstjórnum allra landa ber að vernda, virða og uppfylla kyn- og frjósemisréttindi.