Aðildarlönd Sambands Suðaustur-Asíuríkja (Association of Southeast Asian Nations, ASEAN) verða að grípa tafarlaust til árangursríkra aðgerða til að vernda réttinn til friðsamlegra mótmæla í Myanmar og forðast frekari stigmögnun ofbeldis og mannréttindabrota.
Aðildarlönd Sambands Suðaustur-Asíuríkja (Association of Southeast Asian Nations, ASEAN) verða að grípa tafarlaust til árangursríkra aðgerða til að vernda réttinn til friðsamlegra mótmæla í Myanmar og forðast frekari stigmögnun ofbeldis og mannréttindabrota.
Amnesty International hefur þungar áhyggjur af því að friðsamleg mótmæli séu bæld niður á ofbeldisfullan hátt sem geri ástand mannréttinda enn verra í Myanmar og ógni friði og öryggi á ASEAN-svæðinu og víðar.
Ástandið kallar á íhlutun til að koma í veg fyrir umfangsmikil mannréttindabrot. Með því að nota áhrif sín til að tryggja að stjórnvöld í Myanmar virði mannréttindi senda samtökin mikilvæg skilaboð til aðildarríkja sinna og heimsins um að þau hafi skuldbundið sig til að vernda og efla mannréttindi.
Leiðtogar ASEAN-ríkjanna eru hvattir til að takast á við mannréttindamál í Myanmar, m.a. langvinn brot gegn tjáningarfrelsi. ASEAN-leiðtogar ættu einnig að þrýsta á yfirvöld í Myanmar að sleppa þeim mótmælendum sem sættu geðþóttahandtökum tafarlaust og án skilyrða. Það skiptir miklu máli, sér í lagi vegna þess að utanríkisráðherrar samtakanna funda nú í New York og ræða m.a. uppkast að sáttmála ASEAN sem skal kveða á um almennar reglur um framferði allra aðildarríkja.
ASEAN-leiðtogum ber skylda til að þrýsta á yfirvöld í Myanmar að takast á við núverandi neyðarástand án þess að grípa til ofbeldis.
Amnesty International minnir ASEAN-leiðtoga á stofnyfirlýsingu samtakanna frá 1967. Þar segir að markmið og tilgangur samtakanna sé að stuðla að friði og stöðugleika á svæðinu með því að bera virðingu fyrir réttlæti og lögfestu í samskipum þjóða á milli og fara eftir meginreglum Sáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Á heimasíðu Íslandsdeildar Amnesty International er að finna aðgerð til stuðnings mótmælendum í Myanmar www.amnesty.is
